Íslandsstofa

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 16:51:28 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[16:51]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Íslandsstofu. Ég verð í upphafi, frú forseti, að segja að það setur að mér hroll, ekki vegna nafnsins Ísland eða Íslandsstofa heldur vegna þeirrar miðstýringaráráttu sem fram kemur í frumvarpinu, hún er eiginlega með ólíkindum. Það stendur hér, með leyfi forseta, á bls. 4:

„Við undirbúning frumvarpsins fór fram náið samráð ráðuneyta iðnaðar- og utanríkismála, með aðkomu Ferðamálastofu og Útflutningsráðs Íslands, auk samráðs við forsætisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.“

Ekki veit ég alveg hvernig á að skilja þessi orð, frú forseti. Það er ljóst að náið samstarf hefur verið á milli tveggja ráðuneyta, með aðkomu Ferðamálastofu og Útflutningsráðs, og svo hefur verið haft samráð við forsætisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið. Er ljóst að utanríkisráðherra, utanríkisráðuneytið og iðnaðarráðherra hafa verið með þetta í sínum höndum, enda held ég að það megi lesa það í gegn og það beri þess veruleg merki.

Það kann vel að vera að það sé þarft að hafa vettvang þar sem þessir aðilar koma saman til að ræða sín mál og til að hægt sé, frú forseti, að samhæfa þau störf sem hér er áætlað að inna af hendi, en mér er stórlega til efs að það að stofna enn eina stofnunina til að vinna að slíkum málum bæti ástandið. Af hverju í veröldinni er ekki hægt að efla það sem fyrir er og standa betur að málum hvað það varðar? Af hverju þarf ríkið alltaf að koma að og ríkisvæða alla skapaða hluti? Það á meira að segja, frú forseti, að ríkisvæða ímyndarmál Íslands, hvernig í ósköpunum sem það á hins vegar að gera vegna þess að ímynd verður ekki til, svo ég taki undir með hv. þm. Þráni Bertelssyni, ímynd þjóðar verður ekki til á glansbæklingum eða frá spunameisturum einhverra ráðuneyta eða auglýsingastofa. Það er algjörlega ljóst að ímynd landsins kemur frá einhverju allt, allt öðru.

Það breytir engu þó að núverandi ríkisstjórn hafi ekki setið í 18 ár eins og sumar aðrar ríkisstjórnir og skaðað þannig ímynd landsins eins og margoft hefur komið fram og verið rætt en það bara ekki á verksviði ríkisstofnana almennt að sinna slíku hlutverki. Og ef menn vilja gera það höfum við sendiráð, sendiráð þar sem greidd er leiga eða húsnæði er keypt, þar sem er fullt af fólki í vinnu sem ætti þá að sinna því að efla ímynd Íslands út á við, kynna menningu þjóðar, kynna landið sjálft, laða að ferðamenn. Ef það er ekki, frú forseti, verkefni sendiráða vítt og breitt um heiminn sem kosta okkur tugi milljóna á ári veit ég ekki hverra það ætti að vera. Það kann að vera að margur sendiherrann sé að vinna slík störf og það er vel, en það á einfaldlega í mínum huga að efla þann þátt í starfi sendiherra og sendiráða í stað þess að huga hér að enn einni stofnuninni, frú forseti.

Við erum víst að tala hér um að draga saman. Í þessu frumvarpi er sagt að það muni ekki kosta neitt, frú forseti, að setja á stofn Íslandsstofu. Hvernig dettur fólki í hug að bera svona lagað á borð? Það mun að sjálfsögðu kosta og það mun að sjálfsögðu kosta meira en það sem Ferðamálastofa og Útflutningsráð Íslands eru nú að vinna að. Það gefur augaleið. Það hefur engin stofnun nokkurn tímann verið stofnuð utan um tvær eða fleiri öðruvísi en það hafi falið í sér aukinn kostnað og það mun verða nákvæmlega eins hér.

Hins vegar er það eiginlega dálítið fyndið, verð ég að segja, frú forseti, sem stendur hér líka á bls. 4, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er að hvetja erlenda aðila til að nýta sér mannauð og staðarkosti lands og þjóðar með fjárfestingum og starfsemi á Íslandi.“

Það er eitt af meginmarkmiðum Íslandsstofu að vinna að þessum þætti. Með fullri virðingu, frú forseti, ég hef ekki séð að núverandi ríkisstjórn hafi verið neitt sérstaklega ginnkeypt fyrir því að laða að erlenda fjárfesta eða að gefa þeim tækifæri til að nýta mannauð og staðarkosti Íslands eða lands og þjóðar. Ef eitthvað er, frú forseti, þá hefur þessi ríkisstjórn farið í þveröfuga átt og þá ekki bara í stóriðju, það er ekki það sem endilega hér á við, það dettur bara engum í huga að fjárfesta á Íslandi og mun ekkert frekar gera með tilkomu Íslandsstofu miðað við þá skattstefnu sem núverandi ríkisstjórn boðar.

Með fullri virðingu fyrir frumvarpinu, frú forseti, og þeim sem unnu þetta mál þá er þetta eiginlega bara fyndið í ljósi aðstæðna að þetta eigi að vera eitt af meginmarkmiðum þessa frumvarps. Og ætti mönnum nú ekki að vera neitt sérstaklega hlátur í huga miðað við áætlanir ríkisstjórnar Íslands í skattamálum almennt.

En, frú forseti, hér er líka talað um að setja eigi á svokallað markaðsgjald sem er lagt á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990. Það eiga að koma framlög á fjárlögum, það á að vera þóknun fyrir veitta þjónustu og það á að gera þjónustusamninga við samtök og stofnanir. Svo reyna menn að segja að þessir hlutir eigi ekki að kosta neitt. Ekki veit ég, frú forseti, hvernig menn finna það út, alla vega er mér það óskiljanlegt. Og ríkisvæðing ímyndar Íslands getur aldrei orðið landi og þjóð til framdráttar. Það er algjörlega kýrskýrt, frú forseti.

En ég hef kannski eina spurningu fram að færa og hún er einföld: Hafa Ferðamálastofa og Útflutningsráð Íslands ekki staðið sig í stykkinu? Hafa sendiráð á erlendri grundu ekki staðið sig í stykkinu? Er það vegna þess að þessir þrír þættir hafa ekki virkað sem skyldi, frú forseti, sem hér þarf að búa til stofnun til að halda utan um þessi apparöt svo þau virki með einum eða öðrum hætti? Er það svo, frú forseti?

Fyrst og síðar, frú forseti, og ég legg á það áherslu aftur, er það þessi miðstýringarárátta, að ríkið þurfi að koma að öllu, ríkið þurfi að vera með puttana á öllum vígstöðvum, ríkið þurfi að stýra og stjórna öllu sem lifir og hrærist í þessu landi, eins og virðist vera með aðkomu vinstri stjórna, það er það sem setur að mér hroll, frú forseti. (Iðnrh.: Atvinnulífið kallar eftir þessu.)