Íslandsstofa

Þriðjudaginn 10. nóvember 2009, kl. 17:00:36 (0)


138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

Íslandsstofa.

158. mál
[17:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla nú að byrja á að óska hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur til hamingju með það hvað hún er jákvæð í dag. Ég sé að hún hefur farið réttu megin fram úr rúminu í morgun. Þetta var alveg einstaklega málefnaleg og glaðlyndisleg ræða hjá hv. þingmanni.

Hv. þingmaður talar um óskaplega miðstýringaráráttu, talar um að hér sé verið að ríkisvæða allt það sem lýtur að ímynd Íslands út á við. Ja, frú forseti, hver skyldi nú eiga bjórinn og slátrið af þessari skepnu? Þetta sem hér liggur fyrir var að uppistöðu til búið til af ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi, inni á skrifstofu forsætisráðherra, sem hv. þingmaður studdi sennilega líka á þeim tíma, þannig að hv. þingmaður er sennilega tveimur árum of seinn til að koma fram með þessa ótrúlega fordómafullu ræðu. Hv. þingmaður sá ekki neitt jákvætt við þetta. Ekkert, bara ekki neitt. En það vill svo til að þetta er að uppruna til sprottið úr ranni atvinnulífsins, síðan flutt í gegnum forsætisráðuneytið og þaðan kemur þetta. Hugmyndin að þessu varð sem sagt til á þingi hjá atvinnulífinu, gott ef það var ekki sjálft Viðskiptaráð sem á sínum tíma flutti inn sérstakan sérfræðing sem var gleyptur með húð og hári af flokki hv. þingmanns, líka mínum flokki, ég tek það nú alveg skýrt fram. Hv. þingmaður talar um að þetta kosti ekkert, það hefur enginn maður sagt að þetta kosti ekki neitt. Sennilega hefur hv. þingmaður misskilið ræðu hv. þm. Þráins Bertelssonar sem benti á að það ætti ekki að koma neitt til viðbótar við það sem nú þegar er og talar um það hér að markaðsgjald sem eigi að leggja á sé eitthvað hið svakalegasta sem hægt er að hugsa sér. Markaðsgjaldið er á núna. Hv. þingmaður ætti kannski að lesa frumvarpið.