Upphæð persónuafsláttar

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 10:42:35 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

upphæð persónuafsláttar.

[10:42]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa áhyggjur af persónufrádrætti, Sjálfstæðisflokkurinn sem árum saman færði skattbyrðina af háum launum (Gripið fram í.) niður á lægri laun með því að láta persónufrádráttinn ekki fylgja verðlagsþróun, hvað þá launaþróun.

Það er einfalt að svara því að hefði persónufrádráttur átt að verðtryggjast að fullu hefði það kostað sjálfsagt um það bil aðra eins hækkun á honum og nú á sér stað um, 2.000 kr., og samtals hefði það kostað, að óbættum þeim útgjaldaauka, um 9 milljarða kr. að fullverðtryggja persónufrádráttinn. Sú leið sem farin er í tillögu ríkisstjórnarinnar er til muna betri vegna þess að hún gerir það kleift að hækka ekki álagningarprósentuna á lægstu laun. Og með 2.000 kr. hækkun persónufrádráttarins næst fram það markmið að hlífa lægstu launum og launum upp að 270 þús. kr. við sköttum, sem tvímælalaust er félagslega betri aðgerð en sú að fullverðtryggja persónufrádráttinn en hækka í staðinn verðlagningu á prósentuna kannski um 2,4% sem þurft hefði til, til að tekjuskattskerfið hefði skilað óbreyttum tekjum. Sú útfærsla sem nú er í frumvarpi sem bíður þess að komast á dagskrá og til 1. umr. dögum saman af ástæðum sem allir þekkja er að mínu mati óumdeilanleg framför og færir skattkerfi okkar á nýjan leik í rétta átt frá því sem gerðist á löngu árabili þegar skattbyrði lágtekjufólks þyngdist og þyngdist en hátekjufólki var sérstaklega hlíft með niðurfellingu hátekjuskatts og þeim aðgerðum öðrum sem þá voru fólgnar í skattabreytingum milli ára. Ég á ekki í erfiðleikum með að tala fyrir og færa rök fyrir skattatilhögun ríkisstjórnarinnar og það er alveg sérstaklega auðvelt ef andmælendurnir eru úr röðum sjálfstæðismanna.