Dagskrá fundarins

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 15:07:43 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni og hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, að við viljum gjarnan að málum verði þannig háttað að við munum ræða þetta Icesave-mál fram til u.þ.b. klukkan 20 og þá verði fjáraukalagafrumvarpið tekið fyrir og það klárað í kvöld. Á miðvikudag förum við síðan í skattamálin og höldum svo áfram með þetta Icesave-mál. Þetta er nákvæmari útfærsla á öðru tilboði sem við höfum gert ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum. Ég held að það sé mikilvægt, frú forseti, að stjórnarflokkarnir og hæstv. fjármálaráðherra taki þetta til alvarlegrar athugunar þannig að við getum komið þessum málum áfram og í þann farveg sem þau þurfa að vera. Þetta er hugmynd sem við vörpum fram til þess að greiða fyrir þingstörfum.