Dagskrá fundarins

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 15:23:42 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þau vinnubrögð sem stjórnarmeirihlutinn beitir fyrir sig í þessu máli eru skammarleg að mínu mati. Hæstv. fjármálaráðherra upplýsti áðan að hann hefði haft náið samstarf við forseta þingsins um það hvernig málið yrði unnið og hvernig lyktir þess yrðu, enda er verklagið þannig að stjórnarandstöðunni var meinað að fá gesti á fund efnahags- og skattanefndar, að fá gesti á fund fjárlaganefndar til að fara yfir þetta gjörbreytta mál. Ef ráðherraræðið er ekki lýsandi í þessu hvernig forustumenn stjórnarinnar hafa sett undir sig hausinn og ætla að koma því í gegn án umræðu í þinginu, þ.e. án umræðu stjórnarmeirihlutans og án þess að okkar helstu sérfræðingar í samfélaginu fái að kommentera á málið, þá eru þetta vinnubrögð sem eru þinginu ekki sæmandi.

Ég hélt við hefðum ætlað að hefja Alþingi til vegs og virðingar og að það ætlaði að afnema það ráðherraræði sem virðist ríkja í þessari ríkisstjórn en hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra virðast stýra stjórnarmeirihlutanum algjörlega í þessu máli.