Fjáraukalög 2009

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 23:07:42 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:07]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna vissulega þeim orðum hæstv. heilbrigðisráðherra að hún taki þetta mál föstum tökum og þeirri viðleitni sem fram kemur í því verki. Þeirri viðleitni ber að fagna, ég undirstrika að ég er ánægður með það. Ég harma hins vegar að þau áform sem Alþingi samþykkti í desember í fjárlögum ársins 2009 hafi ekki komist með einhverjum hætti til framkvæmda á árinu 2009. Gert var ráð fyrir sparnaði í heilbrigðiskerfinu upp á 6,7 milljarða kr. sem dreifðust með ýmsum hætti á heilbrigðiskerfið, ýmsar stofnanir o.s.frv. Þetta voru 6,7 milljarðar í hagræðingu í kerfinu sem Alþingi samþykkti. Eins og fram kemur í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar og er í rauninni tekið undir í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem ég vil undirstrika að tekur til tímabilsins frá janúar til ágúst er Ríkisendurskoðun á sama máli, að ekki hafi verið tekið til hendinni. Það er ekkert nýtt að á það sé bent á að þessi áform hafi ekki komist til framkvæmda. Sú umræða hefur staðið meira og minna allt þetta ár, menn hafa tekist á um leiðir í þessum efnum o.s.frv. en engu að síður, strax og þegar ný ríkisstjórn tók við, 1. febrúar á þessu ári, minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, voru afnumin komugjöld sem áætlað var að skiluðu Landspítalanum 152 millj. kr. Á sama tíma og gjöldin voru afnumin voru þau gagnrýnd þótt ekki kæmu fram neinar aðrar tillögur um með hvaða hætti Landspítalinn ætti að mæta þeirri fjárþörf sem það skapaði. Því hefur ekki verið svarað enn en ég fagna því vissulega að hæstv. ráðherra taki til í þessum efnum (Forseti hringir.) og það verður fróðlegt að sjá hvernig það verður gert.