Fjáraukalög 2009

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 23:14:03 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[23:14]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum fjáraukalög ársins 2009, þess merkilega árs þar sem allt endaði í handaskolum vegna atburða sem gerðust á árinu á undan. Það er ekki hlaupið að því fyrir hæstv. fjármálaráðherra og starfsfólk ráðuneytis hans að koma saman fjárlögum þessa mánuðina og þessi árin og kannski ekki síður vandasamt að koma frá sér fjáraukalögum.

Mig langar samt að lýsa yfir ánægju minni með það að þetta mál skuli vera komið á dagskrá þingsins. Þetta mál er brýnna en Icesave og fjárlögin eru brýnni en Icesave, Icesave má bíða, og sem betur fer náðist einhvers konar samkomulag um að afgreiða þetta mál fyrst.

Fjáraukalögin fyrir árið 2009 bera þess skýrt merki hvað hefur verið að gerast undanfarið ár, rekstur ríkissjóðs fór náttúrlega allur í uppnám og stóð kannski ekki steinn yfir steini á mörgum sviðum þar. Það er vandasamt verk bæði fyrir fjármálaráðuneytið og fyrir fjárlaganefnd að fylgjast með og sinna því verkefni sem þeim er falið við þessar aðstæður. Þess má þó geta að þessi fjárlög stóðust ekki og það hefur verið lenska árum saman að rekstur ríkisins standist ekki nægilega vel. Ég tel mig af minni stuttu sögu í fjárlaganefnd og sem þingmaður vita að einhverju leyti hvers vegna það er og ég leyfi mér einfaldlega að vísa til þess að vinna fjárlaganefndar við fjárlagagerðina er mjög broguð. Fjárlaganefnd hefur ekki þær upplýsingar sem til þarf, fjármálaráðuneytið er ekki tilbúið með þær upplýsingar sem fjárlaganefnd þarf á að halda. Einhverra hluta vegna hafa stofnanir ríkisins margar hverjar komist upp með það langalengi að fara fram úr á fjárlögum vegna ákveðinna verkefna. Það hefur skort aga mjög víða. Mjög víða aftur á móti eru eðlilegar ástæður fyrir framúrkeyrslu, kannski ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna þar sem miklar gengisbreytingar hafa t.d. gert fjárhagsstöðu Landspítalans mun erfiðari. En þar sem Hreyfingin og ég komum ekki að fjárlagafrumvarpi ársins 2009 og höfum aðeins komið að þessari gerð fjáraukalaga þá mun ég ekki fara út í þau smáatriði eða þær tölur sem menn hafa verið að fjalla um en fjalla frekar um málið á breiðari grunni og tæpa þá kannski á því sem ég tel brýnt að verði lagað í stóru myndinni í vinnu fjárlaganefndar og í vinnu ríkisfjármálanna almennt.

Það kemur hér fram að tekjujöfnuður vegna ársins 2009 versnaði til muna vegna hrunsins. Að hluta til er það vegna þess m.a. að Seðlabanki Íslands tapaði hátt í 300 milljörðum, það eru gríðarlegir fjármunir. Ég hef innt Ríkisendurskoðun eftir því hvað ríkisendurskoðandi hafi gert í málefnum Seðlabankans vegna þessara töpuðu fjármuna. Svar ríkisendurskoðanda var: Við fórum yfir ársreikninga bankans. Svona vinnubrögð ganga ekki til lengdar og það er að sjálfsögðu bara eðlileg krafa að gerð verði ítarleg stjórnsýsluúttekt á allri starfsemi Seðlabanka Íslands á þessu ári og á síðasta ári. Það sama á við um fleiri stofnanir ríkisins sem komu að hruninu. Gera þarf ítarlega stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og verklagi þar innan dyra. Það þarf að gera úttekt á efnahags- og viðskiptaráðuneytinu því að vissulega er ráðuneytið það ráðuneyti sem kannski ber mesta ábyrgð á því að bankahrunið varð svo stórkostlegt sem raun ber vitni. Hér eru mjög brýn verkefni fyrir ríkisendurskoðanda að takast á við og ég hef ekki orðið mikið var við það af hálfu ríkisstjórnarinnar eða meiri hlutans að þeir telji ástæðu til að ýta þessum verkefnum af stað og ég mun því halda áfram sjálfur að reka á eftir þeim. Það er ekki hægt að láta sem svo að hátt í 300 milljarða kr. tap Seðlabankans sé einhverjum einum bankastjóra að kenna og málið sé glatað og gleymt af því að hann er hættur störfum, það er miklu meira að og það þarf að gera miklu meira en að afgreiða málið með þeim hætti.

Fleira athyglisvert kemur fram eins og t.d. það að skattbreytingar sumarsins sem við eyddum umtalsverðum tíma í að ræða fram á kvöld, skattbreytingar sem leiddu til hækkunar vísitölu neysluverðs sem aftur leiddi til hækkunar á höfuðstóli skulda heimila um 8–10 milljarða, þær skattbreytingar virðast ekki hafa skilað neinu í ríkiskassann eða eins og segir orðrétt í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Þær skattbreytingar sem gerðar voru í júní sl. og raktar voru hér að framan hafa ekki skilað sér nema að litlu leyti í auknum tekjum. Hins vegar má segja að þær hafi forðað því að tekjur drægjust meira saman en áætlað var í fjárlögum.“

Hér er mjög mikilvægt atriði sem fjármálaráðuneytið og ríkisstjórnin þarf að hafa í huga því að nú stöndum við frammi fyrir töluvert miklum skattahækkunum í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Það þarf að vera búið að gera ítarlega útreikninga á þeirri teygni sem fylgir því að hækka skatta, sem menn kalla Laffer-kúrfuna, en það er hversu mikið af þessum skattahækkunum raunverulega skilar sér, og sérstaklega þegar efnahagsástandið er með þeim hætti sem það er í dag þá er að mínu viti hvorki ásættanlegt að leggja aukna skatta á heimilin né líklegt að þeir muni kannski skila mjög miklu einmitt vegna þess að það mun einfaldlega leiða til enn stórfelldari minnkunar í einkaneyslu sem mun þá draga enn frekar úr hagvexti og við erum þá komin inn í hugsanlega vítahring sem mun búa hér til einhvers konar japanskt ástand en eins og kunnugt er hefur ekki verið í raun merkjanlegur hagvöxtur í Japan eða var ekki í um 20 ár vegna gríðarlegra skulda japanska ríkisins. Þetta eru atriði sem koma ríkisfjármálunum beint við og það þarf að fara varlega í að ræða skattahækkanir.

Annað atriði sem er mjög mikilvægt og ber að fara mjög ítarlega ofan í, og að því marki er ég feginn því að hæstv. heilbrigðisráðherra er í salnum, varðar halla Landspítalans. Landspítali Íslands er að öðrum stofnunum ríkisins ólöstuðum sennilega mikilvægasta stofnunin sem við Íslendingar eigum. Þúsundir manna lenda þar inn á hverju ári og spítalinn er endastöð fyrir fjölmargar aðrar heilbrigðisstofnanir út um allt land. Spítalinn hefur einhverra hluta vegna alla tíð verið rekinn með halla og ég hef heyrt bæði hv. þm. Kristján Þór Júlíusson fjárlaganefndarmann og hæstv. heilbrigðisráðherra ræða krónur og aura varðandi halla Landspítalans. Það vill svo til að ég þekki mjög vel til innan Landspítalans og hef þekkt þar mjög vel til núna í bráðum 15 ár. Mér er vel kunnugt um það að þó að biðlistar eins og landlæknir skilur þá hafi ekki lengst og þó að þjónusta eins og landlæknir túlkar hana hafi ef til vill ekki versnað, þá hefur öll umgjörðin á rekstri Landspítalans og mórallinn hjá starfsfólkinu versnað undanfarin ár með þvílíkum hætti að það sér undir iljarnar á starfsfólki spítalans, það sér undir iljarnar á reyndum læknum, mjög reyndir hjúkrunarfræðingar sem eru með mjög mikla sérfræðiþekkingu í sínum störfum eru að hverfa úr starfi. Þetta eru atriði sem koma til með að valda spítalanum og þjóðarbúinu öllu langvarandi skaða því að það er ekki hægt að hrista það fram úr erminni að ráða fólk í þessar stöður á ný. Fólk sem er sérhæft í skurðaðgerðum og í augnskurðaðgerðum er einfaldlega ekki á hverju strái og þó að spítalinn beri þess kannski ekki endilega merki í dag í skýrslum landlæknis hvað er í gangi, þá er það einfaldlega þannig þegar rætt er við starfsfólk inni á spítalanum að það er nánast orðið örmagna af álagi í vinnunni. Mórallinn er orðinn mjög slæmur og allt vinnuumhverfi fólksins orðið að mörgu leyti afleitt.

Landspítalinn er slík stofnun að það þarf að stíga mjög varlega til jarðar þegar verið er að ræða um hallann á honum. Það er ekki viljandi verið að bruðla þar með peninga eins og oft er látið í veðri vaka, hann er hins vegar auðvelt skotmark vegna stærðar sinnar og vegna þeirra gríðarlegu fjármuna sem fara í hann á hverju ári. Þetta er alveg eins með Landspítalann og er með skólana hjá sveitarfélögunum, þarna er stærsti útgjaldaliðurinn, þarna eru stóru krónutölurnar en eru hallatölurnar sem hlutföll af rekstri endilega svo háar? Það er ekki svo víst. Ég geld því varhuga við því að haldið sé áfram með umræðuna um Landspítalann með þeim hætti sem ég hef heyrt hér í kvöld og eins það sem ég hef heyrt í fjárlögum fyrir næsta ár að það sé svigrúm til að skera niður í rekstri Landspítalans eins og ekkert sé. Það er einfaldlega ekki þannig.

Landspítalinn er með líkan fyrir reksturinn og slíkt líkan eru engin geimvísindi. Þetta eru sams konar líkön og eru í gangi hjá tryggingafélögum úti um allan heim. Þeir vita hve margir munu þurfa á aðgerðum að halda á næsta ári, þeir vita nokkurn veginn hver lyfjakaup munu verða á næsta ári, þeir vita nokkurn veginn hver launakostnaður ársins mun verða. Helstu óvissuþættir eru ef það koma upp stóráföll eða faraldrar eins og flensa eða að ráðast þurfi í einhver stórfelld tækjakaup eða að það verði áhætta vegna gengisbreytinga eins og Landspítalinn stendur frammi fyrir í dag. Það þarf að ræða halla Landspítalans á þessum nótum, ekki endilega hvort hann sé einum milljarði meira eða minna undir áætlun.

Önnur stofnun sem er mjög mikilvæg og er fjallað svolítið um er Ríkisútvarpið. Ríkisútvarpið er ásamt Háskóla Íslands önnur tveggja mikilvægustu menningarstofnana þjóðarinnar. Það er ekki hægt að skera niður á Ríkisútvarpinu endalaust þó að það sé stór útgjaldaliður. Miðað við þá fjölmiðlaflóru sem lítið samfélag á Íslandi býr við í dag þá er augljóst að einkageirinn getur ekki haldið úti fréttaflutningi og fjölmiðlun eins og þarf í þróuðu lýðræðisríki og þó að ríkisrekstur á útvarpi sé kannski ekki endilega æskilegasta aðferðin, þá hefur það samt verið svo víðast hvar í nágrannalöndunum að þær þjóðir eru með ríkisútvarp og -sjónvarp einmitt til að tryggja lýðræðislega umræðu og það þarf að fara varlega í að höggva þar í.

Kannski er mesti gallinn við þetta mál sá að ekki er gert ráð fyrir því hér að greiddir séu neinir vextir af Icesave. Vextir af Icesave eru á bilinu 36–40 milljarðar á hverju ári og það virðist enginn vita hvar á að bóka þá, menn eru að varpa þessum bolta á milli ráðuneytisins og Seðlabankans og fleiri, ríkisendurskoðanda. Þetta eru gríðarlegir fjármunir og það þarf einhvern veginn að fara að gera ráð fyrir þeim, það þarf að setja þá í sparibaukinn stóra og geyma þá. Ef ekki verður farið að gera ráð fyrir þeim strax þá lendum við enn í meiri vandræðum þegar fram líða stundir.

Ýmislegt fleira mætti betur fara í þessum fjáraukalögum sem og í fjárlagagerðinni. Ríkisfjármálin eru með þeim hætti eins og ég hef upplifað þau í fjárlaganefnd í óttalegu skötulíki. Það er verið að ræða fram og til baka og kalla fólk fyrir nefndina vegna einhverra 500 þúsund kalla og milljóna og alls konar atriða sem væru betur afgreidd annars staðar. Það eru önnur atriði sem fá ekki nægilega umræðu og það eru t.d. ríkisábyrgðir á lánum. Við búum við kerfi þar sem ríkisábyrgðir á lánum nema í kringum 1.300 milljörðum kr. sem eru gríðarlegar upphæðir. Það er Íbúðalánasjóður og það er Landsvirkjun og þetta eru hvort tveggja stofnanir sem standa frammi fyrir talsverðum vanda í dag vegna efnahagshrunsins. Ekki er minnst einu orði á þetta og það er skautað léttilega yfir þetta í fjárlagafrumvarpinu. Þessar skuldir eru skuldir íslenska ríkisins þó að þær komi ekki fram sem slíkar í ríkisreikningi, þetta eru bara stofnanir sem ríkið á, og víða í nágrannalöndunum eru slíkar tölur og slíkar skuldir einfaldlega taldar með. Þessu þarf að veita meiri athygli því að eins og ég hef sagt þá eru þetta gríðarlegar upphæðir. Um leið og fer að halla undan fæti hjá svona risafyrirtæki eins og Landsvirkjun þá er ekki gott að sjá hvernig hlutirnir enda. Við sjáum það núna með Orkuveitu Reykjavíkur sem er komin í ruslflokk og fær ekki lán, hún nær ekki að endurfjármagna sig. Hvað gerum við þegar Landsvirkjun lendir hugsanlega í sömu stöðu?

Rammi til að halda utan um öll þessi mál er að sjálfsögðu að gera það eins og best gerist annars staðar og það er þá helst sem fyrst eftir áramót þegar tími gefst til að fjárlaganefnd leggi af stað í þá vinnu að koma á fót Lánasýslu ríkisins á ný sem mun þá starfa með faglegum hætti að lána og jafnvel eignastýringu ríkisins. Þetta er geiri sem ég þekki vel til vegna starfa minna hjá OECD og þar eru einfaldlega til ákveðnir verkferlar sem gera það að verkum að lánamálum ríkissjóða er stýrt í samræmi við það sem er svokallað ,,best practices“ hjá OECD-ríkjunum. Þar standa nágrannalönd Íslands, svo sem Svíþjóð, Noregur og Danmörk, mjög framarlega og hægt að sækja þangað þekkingu ef með þarf. Þetta eru atriði sem Íslendingar þurfa að fara að taka sér til fyrirmyndar. Rekstur ríkissjóða nágrannalanda gengur betur og er gerður af meiri fagmennsku en hefur verið hingað til á Íslandi. Okkur ber að taka það til eftirbreytni og reyna að nota það sem betur má fara og það getum við lært af öðrum.