Ráðstafanir í skattamálum

Laugardaginn 05. desember 2009, kl. 12:22:45 (0)


138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir eftirfarandi þremur frumvörpum: Frumvarpi til laga um ráðstafanir í skattamálum, frumvarpi til laga um tekjuöflun ríkisins og frumvarpi til laga um umhverfis- og auðlindagjald.

Í þeirri áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum sem lögð var fram á Alþingi í lok júní sl. var fjallað um stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og þá þætti í endurreisn íslensks efnahagslífs eftir þau áföll sem hrun bankanna o.fl. hafði leitt yfir sem þar komu við sögu.

Í þessari áætlun er almenn stefna fyrir tekjuöflun ríkisins mótuð og segir þar m.a.:

„Traustir tekjustofnar eru forsenda öflugs velferðarkerfis og samfélagslegs jöfnuðar og styrking þeirra er nauðsynleg til að ná markmiðum þessarar áætlunar. Þær breytingar sem gera þarf til að auka tekjur ríkissjóðs þurfa að verulegu leyti að vera varanlegar. Breytingar sem gerðar hafa verið á skattkerfinu á löngu tímabili stöðugs hagvaxtar hafa gert það að verkum að núverandi gerð skattkerfisins er ekki þess umkomin að afla tekna fyrir það stig almannaþjónustu sem byggt hefur verið upp á síðustu árum og jafnvel ekki þótt hún verði skert merkjanlega. Auk þess er ástæða til að leiðrétta þá sýn á markmið skattkerfisins sem miðað var við á undanförnum árum og stefna að meiri félagslegum jöfnuði.“

Í skýrslunni eru einnig dregin upp nokkur þeirra skilyrða sem skattkerfið þarf að uppfylla og þeirra markmiða sem stefnt skal að með því, svo sem:

Jafnræði í skattlagningu.

Sanngjarni dreifingu skattbyrði.

Jöfnun á tekjudreifingu í þjóðfélaginu.

Stuðningi við félagsleg markmið og félagslegt öryggi.

Að auka hlutdeild þjóðarinnar í arði af auðlindum hennar.

Að leiðrétta markaðsbresti, m.a. með notkun umhverfisskatta.

Í þeim frumvörpum sem ég mæli nú fyrir er unnið samkvæmt þessari stefnu. Um leið og verið er að mæta þörf ríkissjóðs fyrir auknar tekjur til að halda uppi velferðarkerfi á Íslandi er nú í fyrsta skipti í langan tíma fylgt skattstefnu sem sæmir velferðarríki og markviss áhersla lögð á grundvallarsjónarmið í umhverfis- og auðlindamálum.

Þörf ríkisins fyrir nýja tekjuöflun á næstu árum er mjög mikil. Stafar það af því að tekjur ríkissjóðs hafa dregist mjög saman í niðursveiflunni m.a. vegna þess að skattkerfið hafði verið lagað að því uppblásna hagkerfi sem var við lýði á síðustu árum og kemur það okkur í koll nú þegar blaðran er sprungin. Halli á ríkissjóði á yfirstandandi ári stefndi samkvæmt áætlunum í um 180 milljarða kr. þó að nú stefni sem betur fer í að hann verði nokkru minni bæði vegna aðgerða ríkisstjórnar og Alþingis á miðju ári auk þess sem horfur hafa heldur batnað á síðari helmingi ársins. Engu að síður mun þessi halli ásamt öðrum skuldum sem bætast á ríkissjóð og bættust á ríkissjóð á síðasta ári leiða til mikillar vaxtabyrði sem mun fara vaxandi á næstu árum ef ekki verður að gert. Ríkisstjórnin hefur gripið til umfangsmikils niðurskurðar á öllum sviðum ríkisútgjalda sem þrátt fyrir það átak eru hærri en áður var vegna þeirra krepputengdu útgjalda sem óhjákvæmilegt er að mæta. Aukin tekjuöflun er óhjákvæmileg til að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum.

Nokkuð hefur verið um það rætt að fara megi aðrar leiðir en leið niðurskurðar útgjalda eða aukinnar tekjuöflunar til þess að draga úr fjárlagahallanum, leiðir sem ekki komi niður á fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu. Slíkar staðhæfingar eru vafasamar. Með ákvörðun ríkisútgjalda hefur Alþingi ákveðið umfang samneyslu og tilfærslna og ráðstafað þannig þeim hluta af landsframleiðslunni. Með þeirri ákvörðun er líka ákveðið hvað er til ráðstöfunar í annað, þ.e. til einkaneyslu og fjárfestingar. Meginhlutverk fjáröflunar ríkissjóðs er að sjá til þess að í höndum hvors aðila um sig, hins opinbera og einkaaðila, séu ráðstöfunartekjur sem samsvara hlutdeild hvors aðila í landsframleiðslunni eins og hún birtist í fjárlögum. Þegar til lengri tíma er litið verður þetta einungis gert með skattheimtu í einu eða öðru formi þótt til skemmri tíma sé unnt að ná þessu marki með lántöku ríkisins hjá einkaaðilum. Kenningar um að unnt sé að fjármagna útgjöld ríkissjóðs til langs tíma án þess að það skerði ráðstöfunarfé einkaaðila fá ekki staðist.

Skattlagning eigna eða tekna lífeyrissjóðanna hefur verið rædd í þessu sambandi. Eignir og tekjur lífeyrissjóðanna eru sá hluti landsframleiðslunnar sem lagður hefur verið til hliðar sem sparnaður og er ætlaður til neyslu síðar. Með því að taka hluta hans til að fjármagna útgjöld ríkissjóðs nú er dregið úr sparnaði og þar með úr neyslu í framtíðinni. Þessi sparnaður er að jafnaði ekki geymdur óvirkur heldur er honum ráðstafað til fjárfestinga hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Sé sparnaðurinn skertur dregst ráðstöfunarfé þessara aðila saman. Efnahagsleg áhrif af þessu eru því hin sömu og af lántöku ríkisins hjá einkaaðilum. Skattlagning eigna eða tekna lífeyrissjóðanna hefur öll einkenni og áhrif lántöku og hana ætti að meta með tilliti til þess hvort lántaka til að fjármagna útgjöld ríkissjóðs sé æskileg og ef svo er í hvaða formi slík lántaka eigi að vera.

Því er oft haldið fram að fjármögnun ríkisútgjalda með skatttekjum hafi neikvæð áhrif á efnahags- og atvinnulíf, valdi samdrætti í eftirspurn o.s.frv. Slíkar alhæfingar eru vafasamar. Ríkisútgjöld sem fjármögnuð eru með sköttum hafa örvandi áhrif á hagkerfið, einkum þegar það einkennist af skorti á eftirspurn. Í stað þeirrar einkaneyslu sem dregst saman kemur eftirspurn frá ríkinu þegar fénu er ráðstafað. Þar sem skattlagningin mun að hluta til draga úr sparnaði er líklegt að til skamms tíma verði þensla vegna útgjalda hins opinbera meiri en samdráttur einkaneyslunnar. Áhrif af þessu koma fram í þjóðhagslíkönum sem notuð eru hér á landi og benda til þess að sambærileg hækkun skatta og lækkun útgjalda hafi mismunandi áhrif á tekjuafkomu ríkissjóðs og hagvöxt. Lækkun útgjalda hefur meiri áhrif til lækkunar á framleiðslustigi og dregur meira úr hagvexti en sambærileg hækkun skatta a.m.k. þegar litið er til skamms tíma. Aukning á útgjöldum ríkissjóðs eykur eftirspurn í hagkerfinu meira en sem nemur samdrætti einkaneyslu vegna samsvarandi skattheimtu. Áhrif til lengri tíma kunna að vera minna afgerandi og ráðast einnig meira af öðrum þáttum. Þegar horft er til þess að íslenskt efnahagslíf er í niðursveiflu og að lánsfjármögnun ríkissjóðs eru takmörk sett vegna skuldastöðu hans er efnahagslega skynsamlegt að beita skattahækkunum innan hóflegra marka til að draga úr halla á ríkissjóði þar sem þær hafa minni áhrif til að lækka landsframleiðslu og hagvöxt en niðurskurður útgjalda af sömu stærðargráðu.

Skattheimta hins opinbera á Íslandi hefur vaxið mikið á undanförnum árum. Samkvæmt nýrri skýrslu OECD um tekjur hins opinbera í aðildarríkjunum er Ísland í 9. efsta sæti aðildarríkjanna og eru tekjur hins opinbera taldar 40,9% af vergri landsframleiðslu. Þar kemur einnig fram að þetta hlutfall hefur hækkað um 9,7% frá 1995 sem er meiri hækkun en í nokkru öðru aðildarríki OECD.

Skýrsla OECD ber einnig með sér að flest ríkin hafa orðið fyrir tekjutapi vegna kreppunnar. Er lækkunin á Íslandi áætluð 4,8% af vergri landsframleiðslu sem er til muna meira en í öðrum ríkjum OECD.

Tekjur ríkissjóðs á árunum 2005–2007 voru 35% af vergri landsframleiðslu, þar af voru skattar 30–31%. Beinir skattar á þessum árum voru um 14% af vergri landsframleiðslu en óbeinir skattar 16–17%. Áhrif hrunsins á tekjuöflun ríkissjóðs eru gríðarleg. Tekjur hans 2009 eru nú áætlaðar um 27,5% af vergri landsframleiðslu og hafa þá lækkað um 7–8 prósentustig frá því sem var á árunum fyrir hrun. Skatttekjur 2009 eru áætlaðar um 23,7% vergri landsframleiðslu í stað um 31% á árunum 2005 til 2007. Mismunurinn er um 7% sem svarar til um 105 milljarða kr.

Skattheimta 2010 samkvæmt þeim skattbreytingum sem kynntar hafa verið og mælt er hér fyrir er áætluð um 25,8% af vergri landsframleiðslu og því rúmlega 2% hærri en hún verður 2009. Vantar því enn rúmlega 4–5% af vergri landsframleiðslu eða jafngildi yfir 60–75 milljarða kr. á það að skattheimtan nái því stigi sem hún var í á árunum 2005–2007.

Í þeim tillögum sem gerðar eru um tekjur ríkisins felast breytingar á beinum sköttum og óbeinum en einnig að lögð verði aukin áhersla á umhverfis- og auðlindagjöld. Skattbyrði vegna stóru skattaflokkanna, þ.e. tekjuskatts og skatts á vöru og þjónustu, verður lægri en verið hefur á mörgum undanförnum árum og verður aðeins lítið eitt hærri en skattbyrðin var á yfirstandandi ári. Tryggingagjald hækkar verulega sem skýrist af stórauknu atvinnuleysi. Eignarskattar hækka eitthvað vegna tilkomu auðlegðarskatts en eru þó lægri en þeir voru fyrir fáeinum árum. Með tilkomu nýrra skatta á orku og fljótandi kolefnaeldsneyti má segja að umhverfis- og auðlindagjöld hafi komist á blað. Tilkoma slíkra skatta léttir álagi af hinum hefðbundnu neyslu- og tekjusköttum.

Í frumvarpi um tekjuöflun ríkisins er fjallað um þann hluta skattbreytinganna sem felast í breytingum á beinum sköttum, þ.e. tekjusköttum, sköttum á eignir og tryggingagjaldi.

Með tillögum sínum hefur ríkisstjórnin lagt fram tillögur að réttlátara tekjuskattskerfi. Markmið þess er að tryggja réttláta dreifingu skattbyrðanna sem og að færa til baka þær byrðar sem ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafa velt af þeim tekjuhæstu yfir á þá tekjulægstu.

Tekjuskattur sem hlutfall af heildartekjum jókst úr 17% árið 1993 í 22% árið 2007 eða um 5 prósentustig. Það svarar til um 75 milljarða kr. Þessi aukning varð þrátt fyrir að skatthlutföll hafi verið lækkuð og sérstakur hátekjuskattur verið lagður af. Á sama tíma færðist skattbyrðin af þeim tekjuhærri yfir á þá tekjulægri. Skattbyrði tekjulægsta fjórðungs hjóna hækkaði um meira en 10 prósentustig en innan við 2 prósentustig hjá tekjuhæsta fjórðungnum og lækkaði reyndar um 10 prósentustig hjá tekjuhæsta hópnum.

Lág skattlagning fjármagnstekna ásamt lítilli hækkun persónuafsláttar er meginorsök þessarar þróunar. Hlutdeild fjármagnstekna í tekjum einstaklinga hefur vaxið stöðugt, frá því að vera innan við 5% heildartekna fyrir árið 2000 í nærri 20% síðustu árin. Ástæðan er aukning peningalegra eigna og samþjöppun þeirra á fáar hendur.

Meginbreytingin í hinu nýja tekjuskattskerfi, sem tillaga er gerð um, er að tekin er upp álagning með stighækkandi skatthlutföllum. Þannig er lagður grunnur að sveigjanlegri skattlagningu þar sem unnt er að stýra dreifingu skattlagningar betur en áður var og ná fram stígandi skattlagningu eftir því sem sanngjarnt þykir. Með eins þreps kerfi er í reynd nær eingöngu hægt að stýra dreifingu skattbyrði milli lágra tekna og miðlungstekna. Mismunur á skattbyrði miðlungstekna og hárra tekna verður hins vegar óverulegur og ekki hægt að hafa veruleg áhrif þar á.

Í hinu nýja kerfi fyrir laun og aðrar starfstengdar tekjur eru þrjú þrep. Hið lægsta þeirra er fyrir tekjur undir 200.000 kr. á mánuði. Næsta þrep tekur til tekna frá því marki og að 650.000 kr. á mánuði sem er verulega yfir meðaltekjum og þriðja þrepið nær til tekna yfir því marki. Í hinu nýja kerfi er persónuafsláttur að fullu millifæranlegur milli hjóna eða sambúðarfólks og ónotaður hluti skattþreps neðan 650.000 kr. markanna verður að hluta nýttur af þeim maka sem er með tekjur ofan þeirra marka.

Að þessu sinni reyndist ekki unnt að lækka skatthlutfall fyrsta skattþrepsins eins og æskilegt hefði verið en engu að síður mun hækkun skattleysismarka leiða til lækkunar tekjuskatts hjá einstaklingum með mánaðartekjur undir 270.000 kr. Skatthlutfall á lægstu tekjur verður óbreytt á meðan skatthlutfall á aðrar tekjur hækkar til að koma til móts við aukna tekjuþörf ríkissjóðs. Nýja kerfið er sveigjanlegt og standa vonir til að þegar betur árar verði unnt að ganga lengra í þessum efnum og lækka skatthlutfall á lægstu tekjur.

Fjármagnstekjur hafa verið vaxandi þáttur í tekjum einstaklinga. Að hluta hefur sá vöxtur byggst á tilflutningi tekna úr launatekjum í fjármagnstekjur sem hefur orðið auðveldari og skattalega eftirsóknarverðari á síðustu árum. Fjármagnstekjuskattur sem lengi hefur verið 10% og þar með langtum lægri en víðast annars staðar var hækkaður í 15% frá 1. júlí sl. fyrir fjármagnstekjur yfir tilteknum mörkum. Hann er nú hækkaður almennt í 18%. Jafnframt eru 100.000 kr. vaxtatekna einstaklinga undanþegnar skattinum. Fólk með vaxtatekjur undir þeim mörkum af launareikningum o.s.frv. mun því ekki borga skatt af þeim vegna frítekjumarksins og einnig verður fjármagnstekjuskattur umtalsvert lægri en 18% af sömu ástæðum.

Núverandi skattlagning á hagnað félaga hefur haft í för með sér ýmis vandamál og misræmi. Samspil í skattlagningu félaga og arðs leiðir til þess að tekjur einstaklinga af atvinnurekstri skattleggjast nú með 23,5% skatti í samanburði við allt að 36% skatt á launatekjur og rekstrarhagnað einstaklinga með rekstur. Þetta samrýmist illa jafnræði í skattlagningu og hefur leitt til umtalsverðrar tekjuhliðrunar. Með hækkun á skattlagningu arðs, samanber hér að framan, dregur nokkuð úr þessu misræmi en ef losna á við það þarf einnig að koma til hækkun á skatthlutfalli félaga.

Ísland skattleggur hagnað af atvinnurekstri miklu vægar en sambærileg lönd. Samanlögð skattlagning hagnaðar í félaginu og þegar hann er tekinn út sem arður er nú 23,5% hér á landi eins og áður sagði en nærri 44% að meðaltali í OECD-ríkjunum og milli 40 og 50% á hinum Norðurlöndunum.

Lág skattlagning félaga hefur haft mikil áhrif á tekjur landsins af starfsemi félaga í eigu erlendra aðila. Tekjuskattur slíkra félaga er einn helsti efnahagslegi ávinningur landsins af beinni erlendri fjárfestingu, einkum í starfsemi sem ekki er mannaflsfrek eins og áliðnaður og önnur orkufrek starfsemi. Lágur tekjuskattur á slík félög felur því í sér afsal landsins á hlutdeild í hagnaði og virðisauka sem myndast hér á landi og líklega einnig í arði af náttúruauðlindum landsins.

Skatthlutfall félaga er hækkað úr 15% í 18% og samanlögð skattlagning hagnaðar og arðs verður því 32,76% og verður enn til mikilla muna lægra en í flestum öðrum löndum. Aðstæður í efnahagslífi og atvinnustarfsemi eru með þeim hætti að ekki þykir ráðlegt að ganga lengra auk þess sem fjárfestingarsamningar sem gerðir hafa verið við erlend stóriðjufyrirtæki koma í veg fyrir að lengra sé gengið að sinni án þess að mismuna innlendum aðilum gagnvart erlendum.

Á undanförnum árum auðgaðist tiltölulega fámennur hópur fólks mikið á útþenslu fjármálakerfisins sem hrundi síðan með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. Af þessum ástæðum þykir nú sanngjarnt að taka upp sérstakan auðlegðarskatt og nýta tekjur af honum til að verja barnabótakerfið og hækka vaxtabætur. Auðlegðarskatturinn verður 1,25% á hreina eign yfir mjög háu fríeignamarki eða 90 millj. kr. fyrir einstaklinga og 120 millj. kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Hann mun fyrst og fremst leggjast á tekjuberandi peningalegar eignir en almennar eignir fólks, svo sem íbúðarhúsnæði, bílar og því um líkt, verða neðan skattleysismarkanna. Samkvæmt skattframtölum 2009 áttu um 1.400 hjón hreina eign sem nam samtals 408 milljörðum kr. eða að meðaltali um 290 millj. kr. á hjón. Þessi 2,2% hjóna áttu um fjórðung hreinna eigna.

Augljóst má telja að þeir aðilar sem safnað hafa miklum eignum á undanförnum árum og hafa notið þess að skattur á fjármagnstekjur hefur verið lágur auk annarra hagstæðra skattareglna hafa því notið lækkandi skattlagningar á meðan allur almenningur hefur axlað þyngri byrðar. Af þeim sökum þykir ekki óeðlilegt að við þær aðstæður sem nú eru verði skattbyrði þessa hóps aukin nokkuð frá því sem áður var.

Auk þeirra ákvæða sem snerta meginþætti laganna eru í frumvarpinu ýmis atriði sem fyrst og fremst miða að bættri skattaframkvæmd en hafa sum jafnframt einhver tekjuáhrif.

Sjómannaafsláttur hefur lengi verið umdeildur og gagnrýni á hann hefur vaxið á undanförnum árum af ýmsum ástæðum. Forsendur fyrir honum hafa breyst mjög frá því sem upphaflega var og erfitt að rökstyðja hann gagnvart ýmsum hópum sem að einhverju leyti eru í sambærilegri stöðu eða starfa við sambærilegar aðstæður. Þá hafa vaknað spurningar um sjómannaafsláttinn með tilliti til samkeppnisstöðu og ríkisaðstoðar við atvinnurekstur.

Rök fyrir sjómannaafslætti á sínum tíma voru m.a. langar fjarvistir frá heimili, slæmar vinnuaðstæður og þörf á sérstökum vinnufatnaði. Öll þessi atriði hafa breyst eða dregið hefur úr gildi þeirra í samanburði við aðra launþega. Afskipti ríkisins af kjörum einstakra starfsstétta heyra nú sögunni til og er eðlilegt að þau ráðist í samskiptum launþega og vinnuveitenda og eðlilegt er að hver atvinnugrein beri launakostnað af starfseminni þar sem annað veldur misræmi á kostnaði og óhagkvæmni. Hluti af þeim störfum sem nú eru unnin á sjó voru áður unnin í landi án þess að því fylgdi nokkur skattaívilnun. Sambærileg störf eru einnig unnin í landi og felst því mismunun í sjómannaafslættinum milli fólks eftir vinnustað.

Erfitt hefur reynst að ná samstöðu um þetta mál og því fer ríkisstjórnin nú þær leiðir að láta sjómannaafsláttinn fjara út í áföngum á fjórum árum frá og með tekjuárinu 2011.

Gerðar eru tillögur um ýmsar breytingar sem snerta einkahlutafélög og miða að því að draga úr misræmi á skattlagningu tekna úr þeim og annarra tekna. Helsta breytingin, auk framangreindra breytinga á skatthlutföllum lögaðila og arði, er að draga úr hættu á því að launatekjur séu færðar í búning fjármagnstekna. Er það gert með því að ákveða að ef arðsúthlutun fer umfram 20% ávöxtun á eigið fé hlutafélags skuli það sem úthlutað er umfram þau mörk skattlagt sem launatekjur hjá ráðandi eigendum.

Allmikið hefur borið á því að mjög háar fjárhæðir hafa verið greiddar inn í lífeyrissjóði, einkum séreignarsjóði, vegna einstakra manna. Því er sett þak á slíkar greiðslur, þó þannig að hvergi er haggað við slíkum greiðslum samkvæmt kjarasamningum.

Nokkur ákvæði í frumvarpinu snerta skattfrelsi arðs á milli félaga og söluhagnaðar af hlutabréfum sem eiga einkum að koma í veg fyrir óeðlilega uppsöfnun á yfirfæranlegu tapi vegna vaxtakostnaðar sem stofnað hefur verið til vegna kaupa á hlutabréfum þótt tekjur af þeim séu ekki skattskyldar sem samrýmist illa meginreglu skattalaga í þessum efnum. Tillagan gerir ráð fyrir að til þess að arður og söluhagnaður sé frádráttarbær frá skattskyldum tekjum verði eignarhald á viðkomandi félagi að hafa verið a.m.k. 10% og að að yfirfæranlegt tap verði jafnað. Í þessum efnum er tekið mið af evrópskum reglum um skattlagningu arðs á milli félaga sem kveða á um skattleysi þeirra ef eignarhald er meira en 10%.

Aðrar breytingar frumvarpsins lúta að ýmsum framkvæmdaratriðum tekjuskattslaganna.

Með þessu frumvarpi er einnig lögð til sú breyting á tryggingagjaldi sem nauðsynleg er til þess að atvinnutryggingagjald fjármagni að fullu útgjöld vegna aukins atvinnuleysis.

Þá vík ég að frumvarpi þar sem lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum er varða tekjuöflun ríkissjóðs. Þær eru að mestu í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2010, þó að teknu tilliti til breyttra áforma varðandi einstaka tekjuliði frá því að frumvarpið kom fram. Þessi tekjuöflun er mikilvægur liður í víðtækri áætlun ríkisstjórnarinnar um að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á næstu þremur árum.

Frumvarpið inniheldur sem fyrr segir ýmsar breytingar á skattalögum, einkum þó á sviði óbeinna skatta, og samanlagt eru þessar breytingar taldar skila ríkissjóði 14,7 milljörðum kr. á heilu ári. Tekjuáhrifin árið 2010 verða heldur minni, eða 13,9 milljarðar kr. vegna þess að lagt er til að breyting á virðisaukaskatti komi fram í tveimur áföngum, þ.e. 1. janúar og 1. mars nk. Áhrif þessara breytinga á verðlag eru áætluð 0,85% í heild sinni, þar af gætu 0,45% komið til framkvæmda í desember og janúar en 0,4% í mars þegar seinni áfangi í breytingum virðisaukaskatts kemur til framkvæmda. Helstu tillögur frumvarpsins eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lögð til 10% hækkun á áfengis- og tóbaksgjöldum.

Í öðru lagi er lagt til að almennt bensíngjald hækki um 2,50 kr. á hvern lítra og olíugjald um 1,65 kr. á hvern lítra. Þetta er nokkru minni hækkun en miðað er við í forsendum fjárlagafrumvarps og er gert ráð fyrir að mismunurinn á forsendum fjárlagafrumvarps og þeirri tillögu sem hér er kynnt, samtals um 900 millj. kr., verði lagður á bensín og dísilolíu í formi kolefnisgjalds. Áhrif hækkunarinnar í þessu frumvarpi á vísitölu neysluverðs eru talin verða nálægt 0,1%.

Í þriðja lagi er lagt til að bifreiðagjald hækki um 10% frá og með næstu áramótum sem gert er ráð fyrir að skili ríkissjóði um 500 millj. kr. í viðbótartekjur á árinu 2010.

Í fjórða lagi eru í frumvarpi þessu lagðar til allnokkrar breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Í forsendum fjárlagafrumvarps er gert ráð fyrir 8 milljarða kr. tekjuauka af þeim tekjustofni á árinu 2010. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er reiknað með að tekjuaukinn verði heldur minni, eða nálægt 6 milljörðum kr. á heilu ári. Breytingum frumvarpsins á virðisaukaskatti má í grófum dráttum skipta í tvennt. Annars vegar er lagt til að almenna þrepið í virðisaukaskatti fari úr 24,5% í 25% frá og með 1. janúar 2010, en sú hækkun er talin skila ríkissjóði um 2 milljörðum kr. á heilu ári. Verðlagsáhrif af þeirri breytingu eru áætluð 0,2%. Hins vegar er gerð tillaga um nýtt 14% þrep sem taki gildi 1. mars 2010, en undir það þrep falli sykurvörur, óáfengar drykkjarvörur og sala veitingahúsa og kaffihúsa. Áætlaður tekjuauki af þessu nýja þrepi er talinn nema nálægt 4 milljörðum kr. á heilu ári, en 3,2 milljörðum kr. á árinu 2010. Áhrif hækkunarinnar á vísitölu neysluverðs eru talin verða nálægt 0,4%.

Í fimmta lagi er í frumvarpi þessu að finna tillögu um hækkun margvíslegra gjalda í lögum um aukatekjur ríkissjóðs sem flest hver hafa haldist óbreytt að krónutölu frá árinu 2004. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hefur hækkað um tæplega 51% frá árinu 2004. Lagt er til að gjöldin hækki nálægt 50% að jafnaði en dómsmálagjöldin þó meira. Er það gert til þess að mæta auknum kostnaði við rekstur dómskerfisins og einnig til þess að draga úr þeim mikla fjölda smærri mála sem berast því með tilheyrandi álagi og töfum. Í heild eru þessar breytingar á aukatekjum taldar skila um 1,5 milljörðum kr. á ársgrundvelli en ekki var gert ráð fyrir þessari hækkun í forsendum fjárlagafrumvarpsins.

Í sjötta lagi er, með vísan til þess erfiða efnahagsástands sem ríkir hjá mörgum íslenskum fjölskyldum, gert ráð fyrir að áfram verði mögulegt að taka út af séreignarsparnaði og að þessu sinni að leysa út allt að 1,5 milljónum í viðbót fyrir staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars, í viðbót við þá 1 milljón sem áður var heimilað að greiða út á þessu ári. Áætlað er að þessar tekjur geti þýtt útgreiðslur upp á um 20 milljarða kr. sem mundi fela í sér viðbótartekjur fyrir ríkissjóð upp á 5 milljarða og viðbótarútsvarstekjur fyrir sveitarfélög upp á 2,6 milljarða kr. á næstu árum.

Loks er í þessu frumvarpi að finna tillögur um ýmsar minni háttar breytingar á öðrum lögum án þess að þær hafi bein áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs.

Ég vík nú loks stuttlega að frumvarpi til laga um umhverfis- og auðlindaskatta

Álagning kolefnisgjalds er fyrsti liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis þar sem umhverfissjónarmið eru höfð í öndvegi. Stefnt er að því að leggja fram á Alþingi hið fyrsta frumvörp um frekari breytingar á skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það að markmiði að hvetja til notkunar vistvænni ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum.

Í frumvarpinu er lagt til kolefnisgjald sem leggist á bensín, dísilolíu, flugvéla- og þotueldsneyti og svartolíu. Gjaldtakan er byggð á kolefnisinnihaldi hverrar tegundar eldsneytis fyrir sig og tekur gjaldið því mið af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB. Í frumvarpinu er gjaldið miðað við 4.000 kr. á hvert tonn af kolefni sem lætur nærri að vera um 50% eða helmingur af nefndum viðmiðunarverðum í ESB. Gjaldtakan verður því mishá fyrir hverja tegund eldsneytis þar sem kolefnisinnihald er mismikið eftir eldsneytistegund.

Áætlað er að kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti komi til með að skila rúmlega 2,5 milljörðum kr. í ríkissjóð árlega og reiknað er með að skattlagningin hafi 0,07% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Í II. kafla frumvarpsins er svo lagt til að sérstakur skattur verði lagður á sölu á raforku og heitu vatni, sérstakt auðlindagjald. Lagt er til að skatturinn nemi 0,12 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2% af smásöluverði á heitu vatni. Lagt er til að sá aðili sem selur raforkuna eða heita vatnið til endanlegs notanda verði sá sem innheimtir skattinn og skili honum í ríkissjóð.

Jafnframt er lagt til að skattskyldan nái til aðila sem annast framleiðslu sína á raforku og heitu vatni sjálfir en skatturinn leggist þó ekki á sölu eða eigin notkun á raforku og heitu vatni til framleiðslu á raforku eða heitu vatni.

Lagt er til að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með að hinir skattskyldu aðilar innheimti og skili skatti af þeirri raforku og því heita vatni sem þeir selja eða nota.

Fyrir liggur að taka þarf tillit til garðyrkjubænda og íbúðarhúsnæðis á köldum svæðum við álagningu skattsins og verður það gert að fullu í gegnum þau endurgreiðslukerfi sem þegar eru til staðar.

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af skatti á raforku komi til með að nema tæpum 2 milljörðum kr. árlega og skattur af heitu vatni er talinn skila tæpum 200 millj. kr. á ári. Reiknað er með að umræddur skattur af raforku og heitu vatni hafi 0,04% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Í frumvarpi þessu og öðrum skattafrumvörpum sem lögð hafa verið fram felast vissulega verulegar hækkanir á sköttum frá því sem þeir eru á þessu ári. Þessar hækkanir eru óhjákvæmilegar. Á þeim miklu erfiðleikatímum sem nú standa yfir er mikilvægt að hlúa að meginstoðum velferðarkerfisins. Tryggja þarf grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins, viðhalda öryggisneti félagskerfisins og tryggja að skólarnir geti veitt börnum og unglingum þá menntun sem þeim og þjóðinni er nauðsyn á. Þrátt fyrir stíft aðhald í ríkisrekstri og umtalsverðan niðurskurð verður ekki undan hækkun skatta vikist. Skattbyrði landsmanna verður þó engu að síður minni en mörg undanfarin ár og það sem skiptir mestu er að með nýju skattkerfi verður það tryggt að þessar auknu byrðar leggist síst á þá sem höllustum fæti standa.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvörpum þessum verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari. Ég hef lokið máli mínu.