Sjúkratryggingar

Þriðjudaginn 15. desember 2009, kl. 23:31:15 (0)


138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

sjúkratryggingar.

324. mál
[23:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er mál sem er í sjálfu sér kannski ekkert gríðarlega stórt en er eitt af þessum viðkvæmu málum þegar kemur að heilbrigðisþjónustunni, og það er hvernig eigi að haga gjaldtöku. Hér er um að ræða gjaldtöku á sjúkrahóteli bæði fyrir sjúklinga og aðstandendur. Sjúkrahótel er hótel þar sem fólk dvelur af þeirri ástæðu að það er sjúkt, þó að það þurfi ekki að vera lengur á sjúkrahúsi en getur verið áfram á sjúkrahótelinu undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna.

Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í heilbrigðisnefnd styðjum þetta mál en þetta er hins vegar enn ein gjaldtakan í heilbrigðisþjónustunni. Ég nota tækifærið og segi enn og aftur að það er afskaplega mikilvægt að við skoðum þessi mál í samhengi. Þessi gjaldtaka er enn eitt dæmið um af hverju það er mikilvægt að hæstv. heilbrigðisráðherra setji af stað starfshóp um endurgreiðslur í heilbrigðisþjónustunni eins og við ræddum hér undir öðrum lið sem tengdist lyfjum.