Tekjuskattur

Fimmtudaginn 17. desember 2009, kl. 11:49:05 (0)


138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur.

81. mál
[11:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér er mjög þýðingarmikið. Hér er hvorki meira né minna en verið að ræða um nýsköpun og nýsköpunarfyrirtæki og þann mögulega stuðning sem við getum veitt þeirri mikilvægu atvinnustarfsemi. Það verður seint of mikið um það rætt hversu mikla þýðingu það hefur fyrir okkur, ekki síst í þeirri stöðu sem við erum í núna, að við getum eflt nýsköpun og búið til nýja möguleika til að koma okkur út úr þeim erfiðleikum sem við höfum verið að glíma við.

Það er þó ekki svo að nýsköpun þurfi í sjálfu sér endilega að leiða til atvinnusköpunar. Þvert á móti höfum við séð mörg dæmi um það að nýsköpun hafi haft þær afleiðingar í för með sér að tæknin leysir mannshöndina af hólmi. Fjölmörg dæmi eru um það að nýsköpun, þó að hún sé í sjálfu sér æskileg, hafi þær afleiðingar að störf sem einu sinni voru unnin eru það ekki lengur. Við sjáum þetta alls staðar í kringum okkur.

Ég tek dæmi úr sjávarútveginum. Sjávarútvegurinn er dæmigerð nýsköpunarstarfsemi og þar fer fram gríðarlega mikil rannsóknar- og þróunarvinna sem er ekki öllum alltaf ljós. Sú vinna sem hefur verið unnin á því sviði hefur m.a. haft þær afleiðingar að störfum í sjávarútvegi hefur fækkað, þeir sem vinna núna í sjávarútvegi eru miklu færri en áður þrátt fyrir að við séum að vinna afurðirnar í meira mæli hér innan lands en við gerðum áður. Það var einu sinni þannig, t.d. í uppsjávarfiskinum, að sjávarútvegurinn hafði ekki færi á því að vinna hann til manneldis, tæknin leyfði það einfaldlega ekki. Ef menn reyndu að gera það með handaflinu var kostnaðurinn svo mikill að það var ekki samkeppnisfært við aðrar vinnslugreinar innan greinarinnar — nema auðvitað ef menn hefðu farið í það að lækka laun og það er ekki það sem menn vildu. Þess vegna höfum við séð á undanförnum árum risavaxin skref í þá átt að sjávarútvegurinn hefur í vaxandi mæli orðið sannkölluð nýsköpunaratvinnugrein, kannski ein sú öflugasta á því sviði í landinu.

Sjávarútvegur í dag er gjörólíkur sjávarútvegi sem var fyrir fimm árum hvað þá fyrir tíu árum. Þetta hefur farið fram hjá mjög mörgum vegna þess að því miður hefur umræðan undanfarin ár ekki snúist um tækifærin og möguleikana í þeirri grein. Hún hefur þvert á móti staðnað í gömlu hjólfari og er mjög ámóta þeirri umræðu sem fram fór um þessi mál fyrir 20 árum. Allt hefur breyst í sjávarútveginum nema eitt, hin pólitíska umræða um greinina.

Þetta er mjög miður. En þessa sér hins vegar stað í þeirri pólitísku stefnumótun sem á sér stað gagnvart sjávarútveginum um þessar mundir. Þessa dagana og vikurnar erum við mjög að ræða mál sem snúa að breytingum í starfsumhverfi sjávarútvegsins og hyggjum nú aðeins að. Rekur einhvern minni til þess að í þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að boða í þeim efnum hafi verið spurt spurninga eins og þessara: Mun þetta leiða til þess að arðsemin í greininni vaxi? Mun þetta leiða til þess að nýsköpun taki kipp í sjávarútveginum? Mun þetta leiða til þess að fyrirtækin verði betur í stakk búin til þess að fjárfesta í þeirri nýsköpun sem hér er svo mjög lofi hlaðin og það með réttu?

Þessara spurninga er aldrei spurt. Það er aldrei verið að velta því fyrir sér hvort greinin verði arðsamari, geti borgað hærri laun, geti staðið undir meiri skuldbindingum, geti gengið til verka í nýsköpun og þróunarstarfsemi. Einskis af þessu er verið að spyrja einfaldlega vegna þess að þetta er ekki á dagskrá hæstv. ríkisstjórnar. Hæstv. ríkisstjórn nálgast þennan mikilvægasta grundvallaratvinnuveg okkar ekki sem atvinnuveg heldur sem eitthvað allt annað. Það er ekki verið að huga að því hvort þetta þjóni þeim tilgangi að við getum brotið okkur leið inn á nýja markaði, með því t.d. að efla tækniframfarir í greininni sem gerir okkur kleift að nýta fiskinn betur en áður. Ekkert af þessu er á dagskrá hæstv. ríkisstjórnar. Þvert á móti, sem er mjög alvarlegur hlutur, á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn leggur fram frumvarp um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki er verið að véla um hugmyndir sem hafa þegar haft þær afleiðingar að dregið hefur úr nýsköpun í sjávarútvegi og tengdum greinum.

Dæmi: Um leið og orðið „fyrning“ sást í fyrsta skipti í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar hafði það þau áhrif að þessi öflugu, góðu sjávarútvegsfyrirtæki, metnaðarfullu og framsæknu fyrirtæki, sem hafa verið að fjárfesta fyrir milljarða og aftur milljarða í tæknibúnaði og bættum búnaði um borð í skipum sem og fiskvinnslufyrirtækjum, tóku þá ákvörðun að hægja á sér og helst hætta allri slíkri fjárfestingu. Við heyrum þetta innan úr þessum stóru fyrirtækjum, nýsköpunar-, þróunarfyrirtækjum — ég nefni 3F Technology, Skagann á Akureyri og Marel, sem allir vita að eru heimsþekkt fyrirtæki hvert á sínu sviði. Það er mjög alvarlegt að það sé gert þannig að á annan veginn sé verið að reyna að örva, sem er vissulega lofsvert, en á hinn veginn sé verið að fylgja eftir stefnu á öðrum sviðum sem kemur í veg fyrir að nýsköpun örvist og nýsköpun vaxi. Ég verð því að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst að í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þessum efnum reki hlutirnir sig hver á annars horn og það er mjög alvarlegt.

Nákvæmlega það sama á við þegar við ræðum þær hugmyndir sem hæstv. ríkisstjórn er með uppi varðandi skatta á atvinnulífið. Við eigum eftir að ræða þau mál frekar hér á næstu dægrum. Þar kemur greinilega fram einbeittur vilji ríkisstjórnarinnar til að leggja aukin útgjöld á atvinnufyrirtækin. Þetta er auðvitað pólitísk stefnumörkun og hæstv. ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar segja: Okkur er nauðugur einn kosturinn að hækka skatta á fyrirtækin, auka álögurnar, sem gerir það að verkum að minna er aflögu til að örva m.a. rannsóknarstarfsemi og nýsköpun í landinu.

Tökum dæmi af tryggingagjaldinu sem leggst á launakostnaðinn sem gerir það að verkum að það er hvati til fyrirtækjanna að reyna að fækka starfsmönnum, draga þannig úr launakostnaði sínum. Mér finnst eins og dálítið örli á því í þessari umræðu hér að verið sé að finna upp nýsköpunina í landinu, menn hafi bara allt í einu uppgötvað það að með því að beita þessum aðferðum, örvunaraðferðum, skattaörvunaraðferðum, sé verið að búa til nýsköpun. Það er ekki þannig.

Það var þannig fyrir fáeinum áratugum að framlag Íslendinga til rannsóknar- og þróunarstarfs var með því minnsta sem gerðist í löndum sem við bárum okkur saman við. Þetta hefur breyst. Þetta breyttist m.a. vegna þeirrar stjórnarstefnu sem fylgt var hér á tíunda áratugnum, og menn keppast við að formæla, sem gerði það að verkum að margur kraftur var leystur úr læðingi í atvinnulífinu. Atvinnulífið varð betur í færum til þess að styðja við rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Við sáum ný fyrirtæki spretta upp. Ég nefndi hér fáein fyrirtæki sem hafa tengst sjávarútveginum sem urðu til vegna nálægðarinnar við öflugan og góðan sjávarútveg. Þessi fyrirtæki gátu þess vegna byggt á þeirri reynslu sem var til staðar og þekkingu í þessum grundvallaratvinnuvegi okkar og til varð mjög öflugur iðnaður sem munar um, sem hafði það að markmiði að búa til tæknilausnir fyrir okkar stóra, góða sjávarútveg sem menn hafa síðan verið að yfirfæra yfir á aðrar atvinnugreinar. Og það er athyglisvert að fyrirtæki eins og Marel, sem er starfandi hér á Íslandi, með höfuðstöðvar sínar hér á Íslandi, starfsstöðvar annars staðar, hefur verið að nota þær lausnir sem fyrirtækið hefur þróað í samstarfi við sjávarútveginn til þess að búa til lausnir fyrir aðra matvælaframleiðslu í heiminum, svo sem eins og kjúklingarækt og kjötvinnslu af margs konar tagi. Þetta segir okkur að mikil gróska hefur verið í þessum efnum. Það góða fyrirtæki Íslensk erfðagreining, sem setti sig hér niður á sínum tíma, mjög umdeilt mál, hefur verið leiðandi á þessu sviði og hefur verið að leggja gríðarlega fjármuni til rannsóknar- og þróunarstarfsemi.

Til að styðja við allt þetta var þeirri almennu stefnumótun fylgt að auka framlög til vísindasjóða á vegum Rannís, til rannsóknar- og þróunarsjóða eins og til að mynda AVS-sjóðurinn er í sjávarútveginum, sem hefur verið gert mjög markvisst og menn hvikuðu ekki frá. Sett voru ákveðin markmið um aukin framlög til þessara sjóða og við þau markmið var staðið. Það er enginn vafi á því að þessi stefnumörkun ásamt markvissri eflingu menntunar í landinu hefur lagt grunninn að þeirri rannsóknar- og þróunarstarfsemi, þeirri nýsköpun, sem átt hefur sér stað í fyrirtækjum, jafnframt því auðvitað að sá skilningur hefur farið vaxandi í atvinnurekstrinum að nauðsynlegt sé að fjárfesta á þessu sviði.

Ég vildi árétta þetta vegna þess að mér hefur fundist að menn gleymi þessu samhengi, þessu gríðarlega mikilvæga samhengi sem setja verður þessa hluti í. Ég held líka að það hafi stundum gleymst í þessari umræðu að vekja athygli á þeirri rannsóknar- og þróunarstarfsemi sem á sér stað í atvinnulífinu og líka því hver staðan er í mörgum þessara fyrirtækja sem í dag mundu ekki kallast sprotafyrirtæki, voru það fyrir fáeinum árum, eru núna hins vegar á fleygiferð í framleiðslu, byggja á mikilli þekkingu, hafa öðlast meiri fjárhagslegan styrk og eru þess vegna í eðli sínu og af þessum ástæðum betur í stakk búin til að stuðla að því sem menn hafa kallað sprotastarfsemi þó að hún eigi sér stað innan gróinna fyrirtækja.

Ég hef orðið var við það hjá mörgum þeirra fyrirtækja sem ég er hér að vísa til að þeim hefur fundist þau stundum vera dálítið í lausu lofti í þessari umræðu vegna þess að við erum upptekin — og það er alveg skiljanlegt — af sprotastarfseminni sem þarf vissulega að efla og standa vel við bakið á og ég er ekki að gera lítið úr, en þá gleymi menn stundum næsta skrefinu sem er þessi starfsemi sem er gífurlega mikilvæg í ljósi þess að þar er þekkingin, þar er fjármagnið og þar er styrkurinn og fjölbreytnin til þess að takast á við þessi stóru verkefni.

Mörg þessara minni fyrirtækja sem við ræðum hér um hafa hins vegar kvartað mjög undan því að aðgangur þeirra að fjármagni sé af skornum skammti. Og ekki bara það, þau hafa líka bent á það að umsóknarferlið í þessa rannsóknarsjóði sé oft og tíðum flókið. Þarna er sannarlega úr vöndu að ráða. Annars vegar viljum við gera miklar kröfur til að þessar umsóknir séu vel úr garði gerðar, þær séu þannig að rannsóknir og rannsóknarhugmyndir nái máli, skipti einhverju máli, séu ekki bara eitthvert fúsk, það viljum við auðvitað ekki hafa. Á hinn bóginn megum við ekki hafa ferlið svo flókið að unga duglega fólkið, konur og karlar, sem hefur hugmyndir, þarf fjármagn, að því vaxi það ekki í augum að fara í gegnum þá flóknu pappírsvinnu sem er nánast orðin á sérfræðingafæri að fara í gegnum.

Evrópusambandið, sem er með fullt af rannsóknarsjóðum úti um allt, hefur hins vegar búið þetta til með þeim hætti að orðið hefur til sægur fólks, eins konar nýsköpun á því sviði, sem vinnur við að útbúa umsóknir, tekur að sér, nánast sem verktakar, að hjálpa fólki að fara í gegnum slíkt umsóknarferli vegna þess að hinum dæmigerða unga frumkvöðli, sem hefur áhuga, þekkingu og vilja til að láta gott af sér leiða og ná framförum, ná árangri í atvinnurekstri sínum, kannski græða — svo ljótt sem það virðist stundum vera að tala um það — vex það í augum að fara í gegnum þennan mikla skóg. Þess vegna segi ég: Við verðum að gæta þess mjög vel að það fyrirkomulag sem við erum nú að lögleiða sé ekki til þess fallið að auka flækjustigið í þessum efnum.

Hér hefur verið talað um að e.t.v. væri skynsamlegt að stíga varlega til jarðar. Það á oft vel við að menn fari sér af gát. Ég er hins vegar ekkert endilega viss um að það eigi við í þessum efnum núna. Við erum við sérstakar aðstæður. Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, 7. þm. Reykv. n., hefur margoft nefnt urðum við fyrir gífurlegu áfalli síðasta haust, 70 þúsund manns töpuðu fjármunum, hlutafé, 70 þúsund manns, minnir mig — sennilega nálægt því að snerta hverja fjölskyldu í landinu — brenndust af hlutafjárþátttöku, brenndust af því að leggja áhættufé í fyrirtæki og munu ekki gera það góðfúslega. Þess vegna er rétt að reyna að örva fólk í þessu sambandi. Ég er ekkert endilega þeirrar skoðunar að nú sé tilefni til að stíga varlega til jarðar. Ég tel miklu eðlilegra að við reynum að stíga djarft skref vegna þess að það er örugglega það sem þarf til þess að örva menn til þátttöku í atvinnulífinu að nýju. Menn þurfa að fá tiltrú á því sem í því felst að leggja pening, eigið fé, í áhættusaman atvinnurekstur og það verður ekki gert með því að stíga mjög smá skref.

Ég tel þess vegna, eins og kemur fram í nefndaráliti minni hluta efnahags- og skattanefndar, að það sé einn helsti gallinn við umrætt frumvarp, þó að það sé sannarlega skref í rétta átt, að þess gæti of mikið að menn stígi of varlega til jarðar, menn séu of varkárir. Ég tel að það sé rétt, sem hér hefur verið sagt, að það væri eðlilegra t.d. að réttur nýsköpunarfyrirtækja til sérstaks frádráttar frá álögðum tekjuskatti verði hækkaður úr 15% í 20% af útlögðum kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna sinna. Þetta væri auðvitað skýrt merki frá löggjafanum um það að minni áhætta sé í því að taka þátt í atvinnurekstri af þessu tagi með því að búa til slíka örvun í þessu sambandi.

Ég tel einnig að það væri eðlilegt að opna frekari möguleika fyrir fólk að leggja fé inn í fyrirtæki, einstaklinga, hjón, en gert er ráð fyrir í breytingartillögum meiri hluta þó að allt sé þetta í réttu áttina. Ég held því að það sé rétt ábending, sem kemur fram í d-lið í nefndaráliti minni hluta efnahags- og skattanefndar, að fara með þessar tölur heldur hærra.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um þetta frekar en ég hef gert. Ég hef kosið að reifa almenn sjónarmið mín í sambandi við nýsköpunarmálin. Ég hef reynt að leggja áherslu á að það hefur verið gífurlega mikil nýsköpunar- og þróunarvinna í atvinnulífinu almennt hjá okkur. Ég er þeirrar skoðunar að til að mynda orðaleppurinn „þekkingariðnaður“ sé mjög villandi. Hvað er þekkingariðnaður? Ég færði rök fyrir því að sjávarútvegurinn væri í eðli sínu þekkingariðnaður og hann er það. Hann er hins vegar aldrei talinn með þegar þessum hlutum er staflað upp og þeir flokkaðir, ekki frekar en landbúnaðurinn sem er líka þekkingariðnaður. Þar hefur farið fram margs konar nýsköpun eins og við sjáum og kemur raunar fram í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar og kemur fram í umsögn Bændasamtakanna svo að ég taki það sem dæmi.

Það sem ég er að segja er þetta: Það er mikilvægt að átta sig á því að það fer fram slík rannsóknar- og þróunarvinna í atvinnulífinu eins og það er í dag fram undir þetta að minnsta kosti. Ríkisstjórnin hefur með öðrum verkum sínum verið að trufla þessa vinnu, hún hefur truflað það í sjávarútveginum, hún er að reyna að trufla það núna, kannski ekki vitandi vits en a.m.k. óafvitandi, með þeim skattahugmyndum sem uppi eru hér á Alþingi, og við eigum eftir að ræða frekar. Mér finnst því að þetta frumvarp, svo góður hugur sem að baki því er, sé á vissan hátt stílbrot, jákvætt stílbrot þó, á þeim skattahugmyndum og þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt að öðru leyti.

Virðulegi forseti. Þetta eru þau orð sem ég vildi láta falla í þessari umræðu, a.m.k. fyrsta kastið, og árétta mikilvægi þess að við stöndum vel að baki þekkingarstarfseminni, nýsköpunarstarfseminni, þróunarvinnunni, hvort sem hún á sér stað í minni eða smærri fyrirtækjum. Við þurfum að efla sérstaklega framtak þess fólks sem vill leggja fram eigið fjármagn inn í áhættusaman rekstur og það verður gert með því að búa til örvandi fyrirkomulag sem þetta frumvarp vissulega er þó að ég telji að mikill kostur hefði verið í því að menn hefðu stigið þar djarfari skref.