Ráðstafanir í skattamálum

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 17:39:17 (0)


138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:39]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Varðandi tölulið 6.a. þá hangir hann auðvitað saman við það sem við greiðum næst atkvæði um, sem er töluliður 6.b. Eins og fram hefur komið hverfur ríkisstjórnin frá áformum um sérstakt millivirðisaukaskattsþrep og því verður að fagna. En að þingmenn stjórnarinnar komi hingað upp og segist hafa sérstaklega hlustað eftir gagnrýni sem fram var færð á frumvarpið — auðvitað er í því afskaplega holur hljómur vegna þess að þessa skoðun, þessa hlustun átti að framkvæma áður en komið var fram með þetta vanhugsaða og illa útfærða frumvarp.

Við fögnum því að ríkisstjórnin hafi séð að sér. Ég held að það sé betra að orða það þannig, hún hefur séð að sér. Hún sér það nú og leggur fram breytingartillögur sem eru mun skynsamlegri, að við aukum ekki við flækjustigið í kerfinu. Afleiðingin er þá þessi að við sitjum uppi með hæsta virðisaukaskattsþrep í heimi — og svo maður gæti allrar sanngirni gagnvart hæstv. fjármálaráðherra — (Forseti hringir.) á þeim neysluvörum sem falla undir það virðisaukaskattsþrep.