Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 330. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 473  —  330. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Jónína Rós Guðmundsdóttir, Anna Pála Sverrisdóttir,
Arndís Soffía Sigurðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson,
Tryggvi Þór Herbertsson, Sigmundur Ernir Rúnarsson.

1. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða XVI í lögunum orðast svo:
    Ákvæði 2.–4. málsl. 1. mgr. 14. gr. koma til framkvæmda 1. janúar 2011.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hinn 29. maí 2008 samþykkti Alþingi lög nr. 58/2008, um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, sem fólu m.a. í sér þá breytingu á 14. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, að gerð var krafa um að samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi orkufyrirtækja yrði rekin í aðskildum fyrirtækjum frá og með 1. júlí 2009 í stað þess að eingöngu væri krafist bókhaldslegs aðskilnaðar. Í kjölfar lagabreytinganna hafa bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur unnið að undirbúningi þess að aðskilja starfsemina í samræmi við ákvæði laganna. Á hluthafafundi í Hitaveitu Suðurnesja hf. 1. desember 2008 var samþykkt að skipta fyrirtækinu í HS Orka hf., sem annast skyldi virkjanir og raforkusölu, og HS Veitur hf., sem skyldi taka við veitustarfsemi fyrirtækisins. Formleg uppskipting Hitaveitu Suðurnesja hf. átti sér stað 1. janúar 2009.
    Í kjölfar beiðni frá Orkuveitu Reykjavíkur var gildistöku breytingar á 14. gr. raforkulaga frestað til 1. janúar 2010 með samþykkt laga nr. 30/2009, um breytingu á raforkulögum. Í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamörkuðum og viðkvæmrar stöðu orkufyrirtækja varðandi fjármögnun er talið rétt að framlengja tímabundna frestun á framkvæmd ákvæða 14. gr. raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. Önnur ákvæði er varða opinbert eignarhald og bann við varanlegu framsali opinberra aðila á vatns- og jarðhitaréttindum hafa hins vegar þegar öðlast gildi.
    Með vísan til þessa er lagt til að framkvæmd ákvæða raforkulaga varðandi aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta verði frestað til 1. janúar 2011.