Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 414. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 869  —  414. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um undanþágur frá reglum Evrópusambandsins.

    Fyrirspurnin hjóðar svo:
     1.      Hafa einhver aðildarríki Evrópusambandsins fengið varanlegar og ótímabundnar undanþágur frá reglugerðum, tilskipunum eða öðrum lagafyrirmælum Evrópusambandsins? Ef svo er, hvaða aðildarríki?
     2.      Ef undanþágur hafa verið veittar, í hverju fólust þær?


    Í upphafi er rétt að taka fram að aðildarsamningar Evrópusambandsins (ESB) hafa sömu lagalegu stöðu og stofnsáttmálar sambandsins. Af þessu leiðir að ekki er hægt að breyta ákvæðum þeirra nema með samþykki allra aðildarríkja. Eftir samningaviðræður einstakra ríkja eru samningsniðurstöður útfærðar í aðildarsamningi við viðkomandi ríki. Er þar um að ræða bæði tæknilegar og efnislegar breytingar við löggjöf sambandsins, sumar hverjar tímabundnar og aðrar varanlegar. Vegna mikilvægis þess að sem mest lagalegt samræmi sé á öllu ESB-svæðinu er ekki mikið um varanlegar undanþágur frá löggjöf sambandsins. Hins vegar er ljóst að sérstakar aðstæður einstakra umsóknarríkja kalla oftar en ekki á sérlausnir hvað þau varðar. ESB hefur í mörgum tilvikum brugðist við því með því að þróa viðkomandi stefnu eða löggjöf til að slíkar sérlausnir rúmist innan hennar. Mörkin á milli undanþágu annars vegar og sérlausnar hins vegar eru ekki skýr, en markmið beggja er að koma til móts við þarfir verðandi aðildarríkja þannig að hagsmunir þeirra séu tryggðir.
    Í skýrslu Evrópunefndar frá mars 2007, sem Björn Bjarnason þáverandi dómsmálaráðherra veitti formennsku, um tengsl Íslands og Evrópusambandsins, kemur fram prýðilegt yfirlit yfir þær undanþágur og sérlausnir sem veittar hafa verið af hálfu Evrópusambandsins. 1 Eftirfarandi samantekt er byggt að miklu leyti á því yfirliti, en reynt hefur verið að greina á milli undanþága, þ.e. þegar ákveðnar reglur eru ekki taldar eiga við um viðkomandi ríki, og sérlausna til að bregðast við sérstökum aðstæðum einstakra ríkja. Í ljósi framangreinds verða svörin við fyrirspurninni fléttuð saman.

a)     Undanþágur.
    Við inngöngu sína í ESB árið 1973 fékk Danmörk heimild til að viðhalda skilyrðum um fimm ára búsetu áður en hægt væri að festa kaup á sumarhúsum þar í landi. Malta fékk sams konar heimild við inngöngu sína árið 2004 varðandi kaup á húseignum á eyjunni, með vísan til takmarkaðs fjölda húseigna og takmarkaðs landrýmis. 2 Í báðum tilvikum er um að ræða frávik frá meginreglunni um frjálst flæði fjármagns. Reglurnar gilda hins vegar gagnvart öllum íbúum ESB, þ.m.t Dönum og Maltverjum. Þær eru þannig óháðar þjóðerni og fela því ekki í sér frávik frá banni við mismunun.
    Finnland og Svíþjóð fengu að halda sínu fyrirkomulagi á ríkiseinkasölu áfengis við inngöngu í ESB árið 1995. Jafnframt eru viðskipti með munntóbak heimil í Svíþjóð, þrátt fyrir almennt bann í löggjöf sambandsins, en í viðauka við aðildarsamninginn er Svíþjóð undanþegið banni viðkomandi tilskipunar. 3
    Mörg ný ríki ESB hafa fengið undanþágur á sviði skatta og vörugjalda í ákveðnum vöruflokkum sem hafa sérstakt vægi. Má þar t.d. nefna vörugjöld á ákveðnar víntegundir í Austurríki, Búlgaríu og Rúmeníu og ákveðnar tegundir eldsneytis í Svíþjóð og Finnlandi. 4 Jafnframt hafa öll ríki sem hafa gerst aðilar að ESB frá 1995 fengið að viðhalda hærra viðmiði fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki varðandi undanþágu frá virðisaukaskattskyldri veltu.
    Ekki er einungis um að ræða að samið sé um aðlaganir og sérlausnir við inngöngu í sambandið, heldur hafa nokkur ríki jafnframt fengið ákveðnar aðlaganir þegar gerðar hafa verið breytingar á stofnsáttmálum ESB. Í tilviki Bretlands, Írlands, Danmerkur og Póllands voru gerðar sérstakar bókanir til að koma til móts við sjónarmið þessara ríkja við útfærslu á samvinnu sambandsins. Jafnframt var komið til móts við sjónarmið Írlands og Tékklands við fullgildingu Lissabon-sáttmálans.
    Bretlandi var tryggður réttur til að taka ekki þátt í lokastigi Efnahags- og myntbandalags Evrópu, sem felur í sér upptöku evrunnar, í bókun við Maastricht-sáttmálann. Eftir að danska þjóðin hafnaði staðfestingu sáttmálans í þjóðaratkvæðagreiðslu var slík undanþága einnig gerð hvað Danmörk varðar. Bókun við samninginn áréttaði jafnframt að ESB ríkisborgararéttur kæmi ekki í stað dansks ríkisborgararéttar, tryggði Dönum rétt til að taka ekki þátt í samstarfi á sviði innanríkis- og dómsmála, sem m.a. snýr að innflytjendamálefnum og flóttamönnum, og tryggði þeim heimild til að standa utan við sameiginlega öryggis- og varnarmálastefnu sambandsins. 5
    Við Amsterdam-sáttmálann voru jafnframt gerðar nokkrar bókanir til áréttingar á fyrri sérákvæðum, svo sem í tilfelli Danmerkur hvað þátttöku í varnarstefnunni varðar. Að auki var með bókun gerð ný undanþága fyrir Bretland og Írland til að standa utan ákveðinna þátta Schengen-samstarfsins. Var þar um að ræða sérákvæði tengd landamæraeftirliti, innflytjendamálum og samvinnu ríkja í lögreglu- og dómsmálum. 6
    Við gerð Lissabon-sáttmálans fengu Bretland og Pólland samþykkta bókun sem felur í sér að sáttmáli ESB um grundvallarréttindi útvíkki ekki heimildir Evrópudómstólsins né dómstóla í ríkjunum tveimur til að dæma um ósamræmi ákvæða eða aðgerða í þessum tveimur ríkjum við réttindi þau sem sáttmálinn kveður á um. 7 Þetta fyrirkomulag var útvíkkað með pólitískri yfirlýsingu til að ná jafnframt yfir Tékkland áður en samningurinn var fullgiltur af þeirra hálfu. Í kjölfar þess að írska þjóðin hafnaði staðfestingu á Lissabon-sáttmálanum í júní 2008 voru gerðar breytingar á honum til að koma til móts við sjónarmið Írlands og vörðuðu mikilvæga hagsmuni þeirra. Var þar m.a. um að ræða réttinn til lífs, menntunar og fjölskyldu, skattamál og öryggis- og varnarstefnu, en þetta var útfært með lagalega skuldbindandi samningi sem mun verða gerður að bókun við næstu breytingu á stofnsáttmálum ESB.

b)     Sérlausnir.
    Í viðræðum sínum um aðild og við inngöngu í ESB árið 1995 lögðu Svíar og Finnar mikla áherslu á landbúnað. Meginmarkmið ríkjanna var að tryggja að staða bænda yrði ekki lakari eftir aðild en hún hafði verið undanfarin ár. Niðurstaða viðræðna var sú að mótuð var sérlausn fyrir landbúnað á norðurslóðum, sem skilgreinist sem landbúnaður norðan við 62. breiddargráðu. Viðurkennt er að þar séu ræktunarskilyrði sérstaklega erfið og til að tryggja áframhaldandi landbúnað sé nauðsynlegt að heimila Finnum og Svíum að styðja landbúnað á þessum svæðum sérstaklega, umfram þann stuðning sem felst í sameiginlegu landbúnaðarstefnu ESB, svo lengi sem ríkin tvö telja þörf á slíkum stuðningi. Sérlausnin er útfærð þannig að framkvæmdastjórnin skal heimila Svíþjóð og Finnlandi að styðja sérstaklega við landbúnað norðan skilgreindra marka og á aðliggjandi svæðum sem búa við sambærilegar aðstæður. 8
    Ennfremur er Finnum heimilt að styðja við landbúnað sem á undir högg að sækja vegna aðildar, þar til fullri aðlögun að sameiginlegu landbúnaðarstefnunni er náð. Þessari síðastgreindu heimild er beitt til að styðja við landbúnað sunnan 62. breiddargráðu og semja Finnar við framkvæmdastjórnina til fimm ára í senn um framkvæmd þessa stuðnings. Ólíkt sérlausninni um norðurslóðalandbúnað er þessi heimild í eðli sínu tímabundin, en núverandi samkomulag Finna og framkvæmdastjórnarinnar gildir til ársins 2013.
    Umræddur stuðningur er greiddur úr innlendum sjóðum, hann má framleiðslutengja að hluta eða fullu, án þess þó að leiða til aukinnar framleiðslu, og heildarstuðningur við landbúnað má ekki vera meiri en fyrir aðild. 9
    Bretland og Írland fengu upphaflega sérlausn um stuðning við harðbýl svæði (e. Less Favoured Areas) vegna hálandalandbúnaðar við inngöngu í ESB árið 1973. Tilgangur stuðningsins er að tryggja áframhaldandi búskap og búsetu á þessum svæðum, sem af náttúrulegum og eða samfélagslegum ástæðum eiga undir högg að sækja. Síðar gengu Finnland, Svíþjóð og Austurríki einnig inn í þessa tilhögun með vísan til aðstæðna í þessum ríkjum. Í upphafi var einungis 85% af Finnlandi skilgreint sem harðbýlt svæði, en við endurskoðun á reglum ESB fengu Finnar því framgengt að allt landið fellur undir þá skilgreiningu. Skilgreindir eru þrír flokkar harðbýlla landsvæða og fellur allt landsvæðið norðan 62. breiddargráðu undir skilgreiningu á fjalllendi, sem veitir rétt til hæstu styrkja til harðbýlla svæða. Skilgreindar eru upphæðir á hvern hektara og þær greiddar til styrkþega samkvæmt fyrirfram ákveðnum forsendum.
    Sérreglur gilda um svæði sem eru fjarlæg mörkuðum ESB. Um er að ræða Kanaríeyjar, Asoreyjar og Madeira og einnig frönsku svæðin, Guadeloupe, Guyana, Martinique og Réunion. Markmiðið er að stuðla að þróun á þessum svæðum, sem öll eiga erfitt uppdráttar vegna erfiðra aðstæðna. Er þar einkum litið til fjarlægðar frá mörkuðum, einangrunar (tvöföld einangrun, þ.e. einangrað svæði á einangraðri eyju), slakra landgæða, loftslags og að efnahagurinn byggist á framleiðslu á fáum vörutegundum. Um er að ræða sértækar aðgerðir til að tryggja fjölbreytt framboð af mætvælum og sérstakar greiðslur úr sjóðum ESB til að viðhalda framleiðslu landbúnaðarafurða á svæðunum.
    Við inngöngu Finnlands og Svíþjóðar var jafnframt gerð sérstök bókun við aðildarsamninginn sem fjallar um styrki úr uppbyggingarsjóðum sambandsins. Bókunin viðurkennir að svæði sem hafa átta eða færri íbúa á hvern ferkílómetra skuli njóta sérstakra styrkja úr uppbyggingarsjóðum ESB (svokallað markmið 6). Er þar með öðrum orðum mælt fyrir um að slík svæði skuli mynda nýtt forgangsmarkmið hjá uppbyggingarsjóðum sambandsins og að þeir skuli veita fé til þeirra til viðbótar við önnur markmið sem voru tiltekin í löggjöf sambandsins á þeim tíma. 10 Þessi sérstaki stuðningur til fámennra svæða er nú orðinn hluti af almennu sjóðakerfi sambandsins og kemur fram sem eitt þeirra sjónarmiða sem liggja til grundvallar greiðslum úr Byggðaþróunarsjóði Evrópu (e. European Regional Development Fund). 11
    Þegar Grikkland gekk í Evrópusambandið árið 1981 var bómullarrækt ekki hluti af þeim landbúnaði sem hlaut styrki undir sameiginlegu landbúnaðarstefnunni. Hún var hins vegar efnahagslega mjög mikilvæg fyrir Grikki og því var sérstaða bómullarræktar viðurkennd í aðildarsamningnum með sérstakri bókun. Þar var kveðið á um skuldbindingu ESB til að koma á styrktarkerfi fyrir þetta svið landbúnaðar innan ákveðinna tímamarka og hefur bómullarrækt verið hluti af hinni sameiginlegu landbúnaðarstefnu síðan þá. Það var mikilvægt fyrir Spán og Portúgal við inngöngu þeirra árið 1986. 12
    Á sviði fiskveiða hefur verið samið um ákveðnar sérlausnir á hafsvæði í kringum Möltu og í Riga-flóa með vísan til verndunarsjónarmiða. Í tilviki Möltu er um að ræða sérstakt stjórnunarsvæði fyrir fiskveiðar innan 25 mílna lögsögu, sem felur í sér að einungis fiskibátar upp að 12 metra lengd mega veiða innan hennar. Í reynd hefur þetta þau áhrif að kvótinn á þessu svæði fellur allur til sjómanna frá Möltu, enda ekki hagkvæmt að sigla þangað frá öðrum löndum. Engin ný leyfi til veiða á þessu svæði hafa verið gefin út eftir inngöngu Möltu í ESB. Á hinu sérstaka stjórnunarsvæði fyrir fiskveiðar í Riga-flóa er ákveðinn fjöldi fiskibáta sem hefur heimild til að veiða þar og vélarstærð fiskibátanna má ekki fara yfir 221 kílówött. Þegar Eistland og Lettland sömdu um aðild að ESB voru þau einu ríkin sem höfðu veitt á þessu svæði og töldu mikilvægt að viðhalda því lífríki sem þar er með því að einskorða aðgang að svæðinu við ákveðin skip (listinn er birtur árlega) og takmarka magn veiða við það sem tíðkaðist fyrir aðild. 13
    Ein grundvallarregla hins sameiginlega fiskveiðikerfis ESB er reglan um jafnan aðgang allra skipa sem skráð eru í Evrópusambandinu að hafsvæðum utan 12 mílna lögsagna aðildarríkjanna. Frá þessari reglu hafa þó verið gerðar nokkrar undantekningar á ákveðnum fiskveiðisvæðum. Hjaltlandseyjahólfið (e. Shetland Box) hefur notið sérstakrar verndar frá árinu 1983, þar sem aðgangur fiskiskipa yfir tiltekinni stærð er háður sérstökum leyfum. Jafnframt er einungis tilteknum fjölda skipa heimilt að veiða í hólfinu og ákveðnar þjóðir hafa þar veiðiheimildir. Rauðsprettuhólfið (e. Plaice Box), sem skilgreint var árið 1989, takmarkar veiðar á tilteknu strandsvæði við Þýskaland með það fyrir augum að draga úr brottkasti á rauðsprettu. Jafnframt eru veiðar takmarkaðar á hafsvæði norðvestur af Írlandi sem og fiskveiðihólfi suðvestur af Írlandi. Þessar aðgangstakmarkanir eru settar til verndar stofnum sem taldir eru ofveiddir eða í sérstakri hættu. Þær eru endurskoðaðar reglulega og gengið er út frá því að þeim verði aflétt þegar stofnarnir verða í ástandi til að þola hefðbundnar veiðar. 14
Neðanmálsgrein: 1
    1     Sjá www.forsaetisraduneyti.is/media/frettir/SkyrslaEvropunefndar-.pdf.
Neðanmálsgrein: 2
    2     Sjá bókun 6 við aðildarsamning Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu á vefslóðinni: eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2003:236: 0931: 0956 :EN:PDF.
Neðanmálsgrein: 3
    3     Sjá viðauka XV við aðildarsamning Finnlands, Svíþjóðar, Austurríkis og Noregs á vefslóðinni: eur- lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0286010010
Neðanmálsgrein: 4
    4     Sjá m.a. viðauka XV við aðildarsamning Finnlands, Svíþjóðar, Austurríkis og Noregs á vefslóðinni: eur- lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0286010010
Neðanmálsgrein: 5
    5     Sjá eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11992M/htm/11992M.html#0068000002
Neðanmálsgrein: 6
    6     Sjá eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11997D/htm/11997D.html#0101010008
Neðanmálsgrein: 7
    7     Sjá eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:C:2007:306:0156:0157:EN:PDF
Neðanmálsgrein: 8
    8     Stuðningurinn er byggður á 142. gr. aðildarsamnings Svíþjóðar, Finnlands, Austurríkis og Noregs á vefslóðinni: eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0009010007
Neðanmálsgrein: 9
    9     Stuðningurinn er byggður á á 141. gr. aðildarsamnings Svíþjóðar, Finnlands, Austurríkis og Noregs á vefslóðinni: eur-lex.europa.eu/en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#000901000
Neðanmálsgrein: 10
    10     Sjá bókun 6 við aðildarsamning Svíþjóðar, Finnlands, Austurríkis og Noregs á vefslóðinni: eur-lex.europa.eu/ en/treaties/dat/11994N/htm/11994N.html#0354020033.
Neðanmálsgrein: 11
    11     Sjá 10. gr. reglugerðar 1080/2006 og 52. gr. (f) reglugerðar 1083/2006. Hina fyrri má finna á vefslóðinni: ec.europa.eu/ regional_ policy/sources/docoffic/official/regulation/pdf/2007/feder/ce_1080(2006)_en.pdf og hina síðari: eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2006:210:0025:0078:EN:PDF.
Neðanmálsgrein: 12
    12     Sjá bókun 3 við aðildarsamning Grikklands.
Neðanmálsgrein: 13
    13     Sjá viðauka III við aðildarsamning Tékklands, Eistlands, Kýpur, Lettlands, Litháens, Ungverjalands, Möltu, Póllands, Slóveníu og Slóvakíu á vefslóðinni: eur-lex.europa.eu/LexUriServ/LexUriServ.do?uri=OJ:L:2003: 236:0792: 0796:EN:PDF.
Neðanmálsgrein: 14
    14 Sjá reglugerð 2371/2002, meginreglan um jafnan aðgang kemur fram í 17. gr. hennar.