Fjöleignarhús

Fimmtudaginn 20. janúar 2011, kl. 15:42:32 (0)


139. löggjafarþing — 62. fundur,  20. jan. 2011.

fjöleignarhús.

377. mál
[15:42]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég fagna þessu frumvarpi. Mig langar að spyrja ráðherrann um eitt atriði sem varðar 1. gr. í frumvarpinu sem er breyting á gildandi lögum og varðar í rauninni ekki hjálparhunda sem slíka heldur almennt hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi. Og nú er spurningin hvort ráðherrann sé svo vel inni í málaflokknum að hann geti svarað.

Á síðustu missirum hefur borið töluvert á því að þar sem er sameiginlegur garður en sérinngangur og -stigagangur hefur mönnum verið bannað að vera með hunda og einn íbúi í húsinu hefur getað bannað það. Nú langar mig að spyrja hvort í þessu frumvarpi felist breyting á þessu þannig að nú sé tryggt að svo lengi sem hundurinn veldur engum ama og ekki er sameiginlegur inngangur eða stigagangur en að sjálfsögðu sameiginleg lóð og garður eins og er venjulega á húsum geti fólk fengið að halda sína hunda í friði í fjölbýlishúsum svo lengi sem þeir séu til friðs.