Útflutningur hrossa

Fimmtudaginn 27. janúar 2011, kl. 16:38:00 (0)


139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útflutningur hrossa.

433. mál
[16:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 709, sem er 433. mál, en um er að ræða frumvarp til laga um útflutning hrossa, sem ætlað er að leysa af hólmi gildandi lög um það efni, nr. 55/2002. Í öllum meginatriðum er andi laganna og meginstefnumið óbreytt frá gildandi lögum en þó er um breytingar í nokkrum atriðum að ræða sem hér skal gerð grein fyrir.

Sá tími sem heimilt er að flytja út hross með skipum er styttur. Í gildandi lögum er slíkur flutningur heimill á tímabilinu frá 15. apríl til 1. nóvember (Gripið fram í.) en hér er lagt til að það verði heimilt frá 15. maí til 1. október. Þessi breyting helgast af dýravelferðarsjónarmiðum, en reynslan hefur sýnt að iðulega er mjög slæmt í sjó hér við land, hvort sem er snemma vors eða síðla hausts og jafnvel ekkert skárra en um hávetur. Slíkur flutningur reynir mjög á hross auk þess sem flutningur með flugi er bæði orðinn mun tíðari og hlutfallslega ódýrari en áður var.

Þá er og vegna dýravelferðarsjónarmiða tekið upp í lagafrumvarpið ákvæði þess efnis að Matvælastofnun geti ákveðið við sérstakar aðstæður að dýralæknir sé um borð í flutningsfari og hafi yfirumsjón með gæslu hrossa í flutningi. Ákvæðið er undantekningarákvæði sem eðlilega ber að túlka þröngt en getur til að mynda átt við þegar brögð hafa verið að því að hross hafi drepist í umsjón flutningsaðila eða þá að ástand hrossanna við komu á áfangastað hafi bent til að aðbúnaði um borð í skipi eða flugvél hafi verið ábótavant.

Í frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um að óheimilt sé að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Jafnframt eru skýr ákvæði um þrif á flutningsförum sem notuð hafa verið til flutnings á dýrum erlendis áður en þau koma hingað til lands. Ákvæði þetta var áður að finna í reglugerð um útflutning hrossa, en taka þarf af öll tvímæli um gildi þess. Þarna búa að baki rök um sóttvarnir og eflda baráttu gegn dýrasjúkdómum en dæmin hafa sýnt að hvergi má slaka á klónni í þeim efnum. Íslenski hrossastofninn er enda afar viðkvæmur gegn hvers konar smitsjúkdómum sem helgast af aldalangri einangrun hans hér á landi. Verði þar misbrestur á og hættulegir sjúkdómar berast til landsins getur þessi mikilvæga útflutningsgrein og áhugamál þúsunda fólks hér á landi hrunið og hundrað ára kynbótastarf farið forgörðum.

Einnig er í frumvarpinu ákvæði um að öll útflutningshross skuli vera örmerkt, en þó er veitt heimild til 1. nóvember í ár að flytja úr landi hross sem eru einungis frostmerkt. Þetta ákvæði er í fyllsta samræmi við önnur lög og reglur sem snerta einstaklingsmerkingu hrossa en hvarvetna hefur örmerking rutt sér til rúms sem aðal- eða eina merkingaaðferðin við einstaklingsauðkenningu hrossa.

Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að gjald það sem útflytjendur hrossa greiða í stofnverndarsjóð hækki úr 500 kr. af hverju útfluttu hrossi í 1.500 kr. Um stofnverndarsjóð íslenska hestakynsins gildir reglugerð nr. 470/1999 og starfar hann samkvæmt ákvæðum 15. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998. Fagráð í hrossarækt annast stjórn sjóðsins. Hlutverk stofnverndarsjóðsins er skilgreint svo í lögum að úr honum séu veitt lán eða styrkir til kaupa á úrvalskynbótagripum sem ella kynnu að vera fluttir úr landi en einnig til þróunarverkefna. Starfsemi stofnverndarsjóðs hefur þróast svo á seinni árum að einungis hefur verið veitt fé til þróunarverkefna í hrossarækt en ekki til kaupa á úrvalskynbótagripum sem ella yrðu fluttir úr landi. Reynslan hefur sýnt að undantekningarlítið hafa helstu kynbótagripir sem upp hafa komið hér á landi fengið notkun við hæfi og þeir því verið áfram á landinu óháð því hvort eignarhald hafi breyst eða ekki. Ekki er því að finna í frumvarpinu ákvæði sambærilegt því sem er í núgildandi lögum um að fagráð í hrossarækt ákvarði mörk kynbótamats sem hross þurfi að hafa til að teljast úrvalskynbótagripir.

Að öðru leyti eru ákvæði frumvarps þessa sambærileg við ákvæði gildandi laga um sama efni.

Frú forseti. Frumvarpinu fylgir að sjálfsögðu umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem kveðið er á um og skýrt frá að verði frumvarpið óbreytt að lögum verði ekki séð að það muni hafa nein bein áhrif á afkomu ríkissjóðs enda fyrst og fremst um að ræða mál innan atvinnugreinarinnar sjálfrar.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og 2. umr. og treysti ég því að þar fái það vandaða og góða meðferð og því verði síðan lokið hér á Alþingi.