Útflutningur hrossa

Fimmtudaginn 27. janúar 2011, kl. 16:43:59 (0)


139. löggjafarþing — 66. fundur,  27. jan. 2011.

útflutningur hrossa.

433. mál
[16:43]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér á sér alllangan aðdraganda. Það má segja að því hafi verið hrundið af stað í minni tíð sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar ég skipaði nefnd sem hefur unnið að þessu máli. Það var sannarlega mikilvægt að fara yfir þá löggjöf sem hefur gilt um nokkurra ára skeið um útflutning hrossa.

Þetta er í eðli sínu mjög mikilvægt mál. Hestamennskan og hrossabúskapurinn eru eins og við vitum þýðingarmikil atvinnugrein og í henni eru gríðarlega mikil tækifæri eins og við höfðum svo sem rætt áður í þessum sal. Að mínu mati eigum við að gera allt sem við getum til að hlúa að þessari atvinnugrein. Hún hefur mikla efnahagslega þýðingu og vaxandi efnahagslega þýðingu og hún hefur líka á margan hátt sérstöðu í landbúnaðinum og sem atvinnugrein í þeim skilningi að hún er stunduð jafnt í þéttbýli sem dreifbýli og hún er mjög þýðingarmikil til að halda uppi atvinnusköpun úti í hinum dreifðu byggðum. Mörg héruð, má segja, reiða sig bókstaflega á hestamennskuna sem snaran þátt í atvinnusköpuninni og tekjuöfluninni á þessum svæðum.

Þó er það ekki þannig að þetta hafi allt verið dans á rósum. Við vitum að svo hefur alls ekki verið. Hrossaræktin og hrossabúskapurinn hefur lent í miklum hremmingum eins og t.d. á síðasta ári þegar hestapestin kom upp, sem m.a. hafði þær afleiðingar að aflýsa varð landsmótinu sem átti að fara fram á Vindheimamelum í Skagafirði. Af því varð gífurlega mikið tjón fyrir hestamennskuna í landinu, hestamennskuna sem útflutningsgrein og hestamennskuna sem atvinnusköpun í héraði.

Ekki eru mjög mörg ár síðan hestamennskan lenti í annars konar sjúkdómafári sem hafði gífurlega mikið tjón í för með sér. Við vitum líka að útflutningur á hestum hafði verið umtalsverður um margra ára skeið og síðan hafði byggst upp mjög mikilvægur innanlandsmarkaður sem tók miklum framförum og jókst mikið þegar best lét í efnahagslífinu. Þegar hrunið varð hafði það vitaskuld áhrif á möguleika á sölu hesta innan lands. Á móti hefur komið að lækkun gengisins hafði þau jákvæðu áhrif að tekjurnar af seldum hestum hækkuðu sem nam gengislækkuninni þó að margs konar annað tjón kæmi líka yfir hestamennskuna í kjölfar hrunsins eins og aðrar atvinnugreinar í landinu. Hestamennskan er með öðrum orðum og hrossabúskapurinn útflutningsatvinnuvegur og mér er mjög vel kunnugt um að í kjölfar hrunsins sköpuðust nákvæmlega sömu vandamál í útflutningi á hrossum eins og í öðrum útflutningsgreinum. Menn voru í vandræðum með að fá greiðslur til landsins eins og við munum og allt var þetta til þess fallið að skapa erfiðleika í atvinnugreininni.

Engu að síður erum við að tala um mjög öfluga atvinnugrein sem hefur fengið lítinn opinberan stuðning. Sumir hafa raunar velt því upp hvort það kunni að vera ein skýringin á því að hestamennskan hefur verið að eflast svona mikið að menn hafa orðið að leggja sig mjög mikið fram, orðið að leggja mikið eigið fé og mikla vinnu í þennan atvinnurekstur. En hvað sem því líður er aðalatriðið að þetta er öflug og þýðingarmikil atvinnugrein, fjölbreytt á margan hátt og hefur líka í för með sér atvinnusköpun á afleiddum sviðum. Við þekkjum það, það eru hestaleigur, hestaleigan er almenningsíþrótt, og annars konar störf í tengslum við hestamennskuna hafa verið að spretta upp.

Það er líka gaman að fylgjast með þeirri miklu umræðu sem á sér stað bæði á hestavefjunum og í sérstöku blaði sem gefið er út, sem við þingmenn, margir hverjir, fáum, blaði sem segir okkur hve mikið er um að vera í þessari atvinnugrein. Einn þátturinn í því að byggja undir þennan atvinnurekstur hefur verið og er útflutningur hrossa. Það var á árum áður talsvert meira flutt út af hestum en núna en nú áætla menn, miðað við þær forsendur sem menn gefa sér, að útflutningurinn geti numið 1.500 hrossum á ári og það eru þær forsendur sem ég hygg að þetta frumvarp meðal annars gangi út frá.

Með frumvarpinu er verið að byggja undir nýja heildarlöggjöf sem er ætlað að skapa almennan ramma utan um atvinnugreinina og það er sannarlega vel. Það er líka jákvætt að mínu mati að um þetta mál virðist hafa tekist býsna góð samstaða. Þeir aðilar sem standa að þessu koma úr öllum geirum hestamennskunnar, aðilar sem þekkja mjög vel til varðandi útflutning hrossa. Að þessu máli koma líka dýralæknar, fulltrúar Matvælastofnunar, þannig að það virðist eins og þess hafi verið freistað að ná um þetta mál góðri samstöðu. Það skiptir líka mjög miklu máli að það sé gert vegna þess að um starfsrammann utan um útflutninginn þarf að ríkja bærileg sátt innan greinarinnar og gagnvart greininni sjálfri.

Eins og hæstv. ráðherra rakti í ræðu sinni snýst frumvarpið um ýmsa þætti, það snýst t.d. um dýravelferð. Ákvæði í 3. og 4. gr. frumvarpsins lúta einmitt að því að reyna að tryggja aukna velferð dýra. Það þarf í sjálfu sér ekki að hafa nein orð um það hversu mikilvægt það er, bæði frá dýraverndunarsjónarmiði en einnig frá viðskiptalegu sjónarmiði, að vel sé að þessum málum staðið.

Það er líka jákvætt í þessu að við sjáum í 3. gr. frumvarpsins tekist á við það að reyna að tryggja betur en áður að afstýra þeirri hættu á smitsjúkdómum sem því miður hafa tekið sér bólfestu í íslenskum hestum. Ástæðurnar fyrir þessu kunna að vera mjög margar og að hluta til er verið að mæta því með 3. gr. sem ég er að vísa til.

Það sem þetta frumvarp felur líka í sér, til viðbótar við það sem ég hef þegar rakið, er að verið er að reyna að efla hinn svokallaða stofnverndarsjóð. Eins og hæstv. ráðherra rakti hefur hlutverk þess sjóðs breyst á undanförnum árum. Tekjur hans hafa ekki verið mjög miklar. Gert hefur verið ráð fyrir 500 kr. gjaldi á hverju útfluttu hrossi og miðað við þær útflutningstölur sem við þekkjum hefur þetta gefið til sjóðsins í kringum 750 þús. kr. Það eru reglur sjóðsins að ekki megi ganga á höfuðstólinn, það verði eingöngu að ráðstafa þeim tekjum sem inn í sjóðinn streyma og síðan að nýta þær fjármagnstekjur sem sjóðurinn hefur. Þær eru örugglega ekki mjög miklar um þessar mundir þegar vaxtastigið er þó þetta lágt og því hlýtur að hafa komið til álita, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, að hækka þetta gjald.

Þarna er hins vegar um stöðugt álitamál að ræða. Hér er gert ráð fyrir því að þrefalda gjaldið og ég geri ráð fyrir að ýmsum finnist nóg um að þetta gjald á útfluttum hrossum sé þrefaldað. Það er sem sagt farið úr 500 kr. á hvert útflutt hross upp í 1.500 kr. En þá verða menn að hafa í huga að þrátt fyrir það verða tekjur sjóðsins, miðað við þessar forsendur, 1.500 hesta útflutning á ári, einungis rúmlega 2 millj. kr. og við vitum að ekki er hægt að gera mjög mikið í rannsóknar- og þróunarverkefnum sem sjóðurinn á að standa undir fyrir svo lága upphæð. Engu að síður ítreka ég að þetta er álitamál og þetta er eitt af því sem við hljótum í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að velta fyrir okkur. Ég hef líka heyrt það sjónarmið að gjaldið ætti að vera enn hærra til að styrkja þennan sjóð. Það eru hins vegar, eins og ég sagði áðan, engin geimvísindi í þessu. Það er enginn einn sannleikur í þessum efnum. Þetta er bara eitthvert mat sem menn verða að leggja á hlutina þegar þessi mál eru skoðuð í einhverju samhengi.

Ég ætla í sjálfu sér að spara mér það að fara mjög nákvæmlega yfir hverja efnisgrein þessa frumvarps. Ég vildi við 1. umr. málsins tæpa á þeim atriðum sem mér finnst vera aðalatriðið þegar við ræðum þessi mál. Þetta snýr að því að búa til almenna heildarlöggjöf utan um mjög mikilvæga útflutningsgrein, mjög mikilvæga atvinnugrein sem er útflutningur hrossa. Í öðru lagi er þetta mál sem snýr að almennri dýravelferð og ég hygg að um þau mál sé ekki ágreiningur í samfélaginu, síst á meðal hestamanna, bænda eða annarra þeirra sem að þessum málum koma. Ég veit að bændur og allir aðrir sem í hlut eiga hafa í huga að hestamennska sé stunduð á þann veg að dýravelferð sé alltaf höfð í heiðri. Í þriðja lagi er líka verið að takast á við það að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma sem við vitum að hafa átt uppruna sinn erlendis og hafa komið hingað t.d. með flutningsfari, með reiðtygjum o.s.frv. sem við vitum að hafa síðan getað haft alvarlegar afleiðingar.

Stóra málið er þó það að við búum til löggjöf sem er almennur rammi utan um þá öflugu útflutningsgrein sem er útflutningur hrossa. Með hliðsjón af því er eðlilegt að við í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd förum yfir málin með það í huga og með það markmið að leiðarljósi að gera þessa atvinnugrein enn öflugri og búa til samkeppnisfæran og sanngjarnan ramma utan um atvinnureksturinn.