Aðild NATO að hernaði í Líbíu

Mánudaginn 28. mars 2011, kl. 15:21:32 (0)


139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

aðild NATO að hernaði í Líbíu.

[15:21]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð. Það er ekki þannig að Ísland ætli sér einhvern hlut í þessum efnum af augljósum ástæðum. Ríkisstjórnin hefur ekki fjallað um það sérstaklega sem var á vettvangi NATO-fundarins í gær og ég hef engar upplýsingar um hvernig þar var að málum staðið, hvort þar var einhver afgreiðsla á ferð eða einfaldlega umfjöllun um málið. Við höfum almennt ekki verið fylgjandi því að NATO væri í einhverju uppsópi eftir árásir einstakra herja. Það eina sem hefur verið rætt í ríkisstjórn í þessu efni er í framhaldi af ályktun öryggisráðsins sjálfs. Það er rétt, sem fram hefur komið, að við töldum hana vera eftir atvikum það skásta sem hægt væri að gera, enda haldi menn sig strangt innan þeirra heimilda sem þar er talað um, flugbann og aðgerðir til að reyna að verja líf óbreyttra borgara. Það er hins vegar allt annar handleggur ef einstakir herir eða NATO fer að dragast inn í langvinn átök á þessu svæði. Það að nota slíkar heimildir til árása á borgaraleg skotmörk, byggingar í þéttbýli, er að mínu mati langt utan við það sem eðlilegt getur talist.

Við áskiljum okkur fullan rétt til þess að vera á móti eða gagnrýna það sem við teljum að fari þar út fyrir en um hitt verður ekki deilt að ákvörðun öryggisráðsins um flugbannið var tekin með lögmætum hætti og felur í sér tilteknar heimildir. Það er svo hvers og eins að túlka hvernig þær megi nota. Sporin hræða í þeim efnum þannig að full ástæða er til að hafa áhyggjur af ástandinu þarna. Ætli það gæti ekki því miður átt eftir að reynast eins með Líbíu o.fl. slíka leiðangra, að þótt menn telji sig hefja þá með góðum hug, góð og göfug markmið í huga, þarf oft að hugsa fyrir eftirleiknum. Það er kannski auðveldara að hefja stríð en að ljúka þeim og taka til eftir þau.