Aðild NATO að hernaði í Líbíu

Mánudaginn 28. mars 2011, kl. 15:25:01 (0)


139. löggjafarþing — 100. fundur,  28. mars 2011.

aðild NATO að hernaði í Líbíu.

[15:25]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að það væri ágætt að fá fram upplýsingar um það hvernig þarna var að málum staðið. Ég hef þær ekki, ég kom frá Færeyjum um hádegið og frétti þá fyrst af því að þetta mál hefði verið á dagskrá á vettvangi NATO í gær og hef engar upplýsingar enn í mínum höndum um það hvernig þetta fór fram. Persónulega þykir mér afar ólíklegt að öll NATO-ríkin hafi stutt með pósitífum hætti þessar aðgerðir. Ég á eftir að sjá að Þjóðverjar og Tyrkir hafi gert það miðað við þá afstöðu sem þeir hafa haft á undanförnum dögum og ég vona svo sannarlega að Ísland hafi verið í þeim hópi, hafi okkar fastafulltrúi á annað borð eitthvað lagt til mála, að hann hafi að minnsta kosti setið hjá við þessa afgreiðslu. En um það hef ég ekki upplýsingar eins og kunnugt er.

Það er munur á því að leggjast ekki gegn slíkum aðgerðum og hinu að styðja þær með pósitífum hætti sem ég held að hv. þingmaður ætti ekki að gleyma.