Innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta

Fimmtudaginn 31. mars 2011, kl. 19:16:07 (0)


139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:16]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Umræðan um það frumvarp sem hér er á dagskrá, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, er mjög upplýsandi svo ekki sé meira sagt vegna þess að vandinn í þessu máli er má segja tvíþættur. Annars vegar er vandi þeirra sem tala fyrir þessu máli sá að sú hugmynd og hugmyndafræði sem frumvarpið byggir á um tryggingakerfi fyrir innstæðueigenda og fjárfesta gengur ekki upp. Það hefur verið sýnt fram á það í umræðunni af hálfu hv. þingmanna í stjórnarandstöðunni að kerfið sem menn ætla sér að byggja upp til að skapa og veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis, eins og mælt er fyrir um í upphafsorðum frumvarpsins, stenst ekki, mun ekki standast. Ég hef óskað eftir því að þeir sem mæltu fyrir þessu máli og hafa lýst stuðningi við það útskýrðu fyrir mér og fyrir þingheimi hvernig í ósköpunum þeir sjá fyrir sér að frumvarpið og sú hugmyndafræði sem það byggir á gangi upp. Ég hef ekki fengið nein svör önnur en þau sem hafa borist frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram, varaformanni viðskiptanefndar, og Skúla Helgasyni, þingmanni Samfylkingarinnar, að hér sé verið að stíga ákveðið skref í þá átt að tryggja þessa vernd en þeir hafa ekki getað fullvissað okkur um að frumvarpið nái markmiðum sínum.

Hinn vandinn er svo sá að þeir sem þó taka til máls um þetta mál og reyna að mæla fyrir því og bera í bætifláka fyrir þá tillögusmíð sem við ræðum hér skortir alla sannfæringu fyrir því að með þessu frumvarpi sé verið að stíga skref í rétta átt. Það er auðvitað magnað og merkilegt að fylgjast með því en þeir eru ekki margir sem hafa treyst sér til þess og hafa haft fátt til málanna að leggja. Það er svo sem ekkert skrýtið vegna þess að fylgismenn þessa máls týna hratt tölunni eins og sjá má af nefndaráliti meiri hlutans. Gera má ráð fyrir að a.m.k. tveir af þeim fimm sem mynda meiri hluta viðskiptanefndar séu fallnir frá stuðningi við málið og það hafi gerst um leið og þeir féllu frá stuðningi við ríkisstjórnina. Að minnsta kosti er uppi vafi um það hvort sá stuðningur er enn fyrir hendi.

Það hefur komið til umfjöllunar og verið nefnt í umræðunni um þetta mál að það sé mikilvægt í tengslum við innstæðutryggingarnar að menn dragi lærdóma af því sem fram kemur í rannsóknarskýrslu Alþingis. Það er ágætt að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé nefnd í sömu andrá og frumvarpið vegna þess að stór hluti 5. kafla þeirrar skýrslu fjallar einmitt um innstæðutryggingar og vernd fyrir eigendur innstæðna í fjármálakerfinu. Þar er mjög vönduð yfirferð yfir það regluverk sem finna má í Lagasafni Íslands um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, bæði samkvæmt íslenskum lögum og ekki síður er þar að finna mjög fróðlega útlistun á efni þeirra tilskipana sem um þetta mál fjalla samkvæmt Evrópurétti. Það væri fróðlegt að vita hversu margir af þeim sem mæla þessu frumvarpi bót hafa lesið þá skýrslu og farið yfir þá yfirferð. En það er mikið talað um mikilvægi þess að menn dragi lærdóma af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ég get í sjálfu sér alveg tekið undir að það er mikilvægt að þingið dragi lærdóma af þeirri skýrslu. En eitt er víst að ráð þeirra sem skipuðu rannsóknarnefnd Alþingis voru ekki þau að beita almenningi í landinu blekkingum með sýndarmennsku og bjóða honum upp á falska vernd, að kveða á um það í lögum að eigendur innstæðna, fólk sem á fjármuni í banka sé tryggt og verndað með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar en síðan þegar til kastanna kemur stendur ekki steinn yfir steini.

Mér finnst furðulegt í ljósi allrar þeirrar umfjöllunar sem málið hefur fengið og í ljósi allrar þeirrar vinnu sem þingið og hv. viðskiptanefnd og hv. þingmenn hafa lagt í það að ríkisstjórnarflokkarnir og þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna skuli enn þá rembast eins og rjúpan við staurinn við að reyna að keyra málið í gegn þegar fyrir liggur út á hvað það gengur. Það hefur enginn neitað því í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram að það mun taka þennan sjóð á tíunda áratug, rúmlega 90 ár að safna upp þeim sjóðum sem eiga að tryggja viðskiptavinum fjármálafyrirtækjanna þá vernd sem að er stefnt. Það hefur enginn neitað því, enda liggur fyrir vönduð úttekt frá Talnakönnun þar sem sýnt er fram á þetta og hlutirnir reiknaðir samkvæmt þeim forsendum sem fyrir liggja og fyrir lágu í þessu máli. Þetta er auðvitað til marks um það að frumvarpið nær ekki markmiðum sínum en samt halda menn áfram. Það er algerlega óskiljanlegt hversu mikla áherslu stjórnarflokkarnir leggja á að frumvarp þetta verði að lögum, ekki síst í ljósi þess að frumvarpið byggir á tilskipun frá Evrópusambandinu um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Það væri eðlilegt ef ríkisstjórn Íslands væri að brenna inni á tíma með innleiðingu þeirrar tilskipunar og ætti yfir höfði sér einhverjar refsiaðgerðir eða aðrar aðgerðir af hálfu Evrópusambandsins ef sú innleiðing ætti sér ekki stað innan einhvers tiltekins tíma. En það er aldeilis ekki svo vegna þess að Evrópusambandið hefur ekkert vald yfir Alþingi Íslands í málinu og þar fyrir utan er Evrópusambandið ekki í neinum færum til að setja á okkur einhvern þrýsting til að klára þetta mál. Ástæðan er sú að tilskipunin sem frumvarpið byggir á hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn og meðan svo er ekki eru Íslendingar ekki í neinni tímapressu til að ljúka þessu máli.

Það væri óskandi að menn litu til þess og reyndu að setjast niður til að finna þverpólitískar lausnir á því með hvaða hætti er best að vernda og tryggja eigur þeirra sem eiga innstæður í bönkum. Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess. Ég kannast a.m.k. ekki við það og ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmenn Eygló Harðardóttir og Margrét Tryggvadóttir, sem báðar tilheyra öðrum stjórnmálaflokki en ég en þó ekki hinum sama, kannist við mikla viðleitni ríkisstjórnarflokkanna til að reyna að leysa þetta mál með þverpólitískum hætti og þannig að það gangi upp fyrir þann litla markað og það litla hagkerfi og efnahagslíf sem við búum við hér á landi sem er allt annars eðlis en þeirri tilskipun sem hér er verið að innleiða er ætlað að þjóna. Þetta hefur ekki verið gert og það er miður. Ég tel að við hljótum að taka þetta atriði upp milli 2. og 3. umr. þegar málið kemur aftur til meðferðar í hv. viðskiptanefnd.