Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 20:38:33 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:38]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þarna held ég að við séum hjartanlega sammála, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, og höfum verið um langt skeið. Við höfum báðir gagnrýnt það margoft og sagt að ekki eigi að fara í felubókhald eins og gert hefur verið með einkaframkvæmd. Það er leið til að fela og í raun falsa opinbera reikninga. Það á allt að vera sýnilegt í þessum efnum og út á það ganga meðal annars þessar lagabreytingar. Slíkir reikningar eiga nú að finna sér stað í efnahagsreikningi sveitarfélaganna, þetta er grundvallaratriði.

Ég er alveg sammála honum um að það hafa orðið mjög alvarleg slys í fjárfestingum sveitarfélaga á liðnum árum. Ég hygg að besta vörnin sé í breyttu hugarfari. Við erum brennd af þessum árum og horfum, held ég, almennt af meiri ábyrgð á þessa hluti, það er besta vörnin. Hv. þingmaður segir síðan að (Forseti hringir.) ýmislegt komi til álita eins og að greiða atkvæði um útsvarsprósentu og fjárútlát. Allt þetta finnst mér koma til álita, enda í lögunum heimild (Forseti hringir.) til að kalla eftir atkvæðagreiðslu um alla þættina.