Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 20:40:04 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[20:40]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Örstutt um þau skoðanaskipti sem áttu sér stað á milli hv. þm. Péturs H. Blöndals og hæstv. innanríkisráðherra: Eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti réttilega á hefur verið farið í ýmsar framkvæmdir á vegum sveitarfélaganna og því hefur verið haldið fyrir utan efnahagsreikning, þ.e. stofnuð eru einhver hlutafélög, farið í mjög stórar og dýrar framkvæmdir og síðan er skuldbindinganna ekki getið. Á þessu er búið að taka að því leyti til að nú er sveitarfélögum skylt að hafa þetta inni í reikningunum, þ.e. skuldbindingar sveitarsjóðsins sem slíks, og er það að fenginni þeirri dapurlegu reynslu sem fékkst þegar í ljós kom hve eftirlitsnefnd sveitarfélaga var vanbúin til að fylgjast með hver þróunin var.

Menn voru farnir að byggja skóla, sem er ein af grunnstoðum í þjónustu sveitarfélaga, og þeir voru fyrir utan efnahag. Síðan voru stofnuð félög um að byggja íþróttahallir, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á hér áðan, og leigusamningur gerður til 20, 30, 40 eða 50 ára, en skuldbindingin var ekki inni í reikningunum. Það er mikilvægt að við þessu hefur verið brugðist og búið að koma því í kring að sveitarfélög þurfi að skila ársfjórðungslega inn skýrslum til eftirlitsnefndarinnar. Þetta hefur verið í þróun á undanförnum mánuðum eða árum eftir hrunið, og er mjög mikilvæg breyting. Þannig að það er til hins góða. Auðvitað getum við alltaf lært betur og gert betur, það er mjög mikilvægt að hafa það í huga.

Mig langar líka að fjalla hér örstutt um örfá atriði í frumvarpinu. Það kemur fram að búið er að fella út íbúalágmarkið, þ.e. ekki er lengur miðað við að sveitarfélag verði að lágmarki að hafa 50 íbúa. Þessu ákvæði er ég mjög hlynntur, ég sé ekki muninn á því hvort íbúarnir eru 45, 51 eða 50. Mér hefur alltaf fundist að það eigi að vera val íbúanna hvort þeir sameinist öðrum sveitarfélögum eða ekki. Mér finnst það vera alveg skýrt; það á að vera val þeirra sem búa í viðkomandi sveitarfélagi hvort sameinast eigi öðru sveitarfélagi eða ekki, sama hversu margir íbúar búa þar.

Mig langar að rifja það upp, og það kom nú fram í máli hæstv. ráðherra hér áðan, að þegar verið var að fara í sameiningar voru oft á tíðum vaktar ákveðnar væntingar sem stóðust ekki. Ég þekki það mjög vel úr mínu sveitarfélagi Snæfellsbæ, sem var fyrsta og eina sveitarfélagið sem sameinaðist í fyrstu umferð kosninganna 1994. Þá lá fyrir vilyrði frá stjórnvöldum á þeim tíma um það að til þess að það sveitarfélag gæti sameinast, fjögur sveitarfélög voru gerð að einu, og virkað sem eitt sveitarfélag yrði til að mynda að byggja upp veginn um Fróðárheiði. Fyrir því voru mjög einföld og skýr rök, bæði af hálfu ráðamanna þjóðarinnar og eins af hendi íbúanna, að til að þetta gæti virkað sem eitt sveitarfélag yrði að byggja þennan veg upp. En ansi lítið varð um efndir. Þess ber að geta að úr Ólafsvík er til að mynda sinnt læknisþjónustu, slökkviliði og björgunarþjónustu yfir heiðina, en þessi vegur var ekki byggður upp. Það var samt eitt af þeim vilyrðum sem lágu fyrir af hendi stjórnvalda að að sjálfsögðu mundi þetta sveitarfélag njóta forgangs í samgöngumálum til að sameining gæti virkað. Það er dapurlegt frá því að segja að enn hefur þessu verki ekki verið lokið. Árið 2007, þegar hin mikla þorskaflaskerðing varð, var þetta sett til viðbótar, að nú skyldi þetta verkefni klárað, en enn er því ekki lokið. Það er mjög mikilvægt að þegar verið er að setja svona beitu út, ef ég má nota það orð, til sveitarfélaga, til að þau fari í sameiningar, verður að vera innihald fyrir þeim loforðum.

Það kom líka fram vilyrði um svokallað skuldajöfnunarframlag vegna þess að sveitarfélög voru misjafnlega skuldsett. Þá var það eitt af þeim verkefnum sem fara átti út í, þ.e. að ríkið mundi leggja fram skuldajöfnunarframlag til þess að sætta íbúana við að sameinast. En það var ekki nærri því eins mikið og talað var um í upphafi. Þá var núverandi hæstv. forsætisráðherra einmitt félagsmálaráðherra og fór mikinn og vildi sameina. Ég er því algjörlega sammála hæstv. innanríkisráðherra um að við eigum ekki að hafa íbúalágmarkið. Það er mín skoðun, og hefur alla tíð verið, að íbúarnir eigi sjálfir að ráða því hvort þeir sameinast eða ekki, sama hversu sveitarfélagið er stórt. Þannig að ég fagna þessu.

Aðeins út af því sem hæstv. innanríkisráðherra svaraði hér áður í sambandi við aukið lýðræði — og benti þá á í seinna andsvari sínu við mig áðan að 20% íbúanna gætu óskað eftir kosningu eða farið fram á umfjöllun um ákveðið mál — þá tel ég það mjög mikilvægt að menn þrói þetta fram í tímann, vegna þess að oft og tíðum eru þetta kannski fimm aðilar eða sjö sem sitja í sveitarstjórn og þeir þurfa að hafa skýrt umboð frá umbjóðendum sínum um þær fjárfestingar, sérstaklega ef þær eru miklar. Þó svo að fjármálareglurnar núna geri það að verkum að menn komist ekki upp fyrir ákveðið hámark, þá er það eigi að síður — og ég þekki það mjög vel úr störfum mínum sem sveitarstjórnarmaður, að þegar menn eru að forgangsraða eru menn að taka ákvarðanir. Það gerðum við til að mynda í mínu sveitarfélagi. Við tókum ákvörðun um að fara í ákveðna framkvæmd sem þýddi að aðrar yrðu að bíða í ákveðinn tíma. Það er því mjög mikilvægt að sveitarstjórnir þrói þetta áfram. Það er mjög mikilvægt að sveitarstjórnarmenn geri sér grein fyrir því að þetta á að styðja þá í störfum þeirra. Þeir eiga ekki líta á þetta sem einhverja ógnun, að verið sé að taka af þeim eitthvert sjálfstæði eða ákvörðunarrétt til þátttöku.

Mér finnst þessar fjármálareglur líka mjög mikilvægar. Mér hefur fundist sem margir sveitarstjórnarmenn, sem ég þekki nú suma nokkuð vel, hafi einmitt misskilið þetta fyrst þegar farið var að ræða þetta. Menn upplifðu þetta á þann veg að nú hefðu þeir ekki það vald sem þeir teldu sig þurfa að hafa til að stýra sveitarfélögunum. En sem betur fer hefur þetta þróast í meðförum þessa frumvarps og í samskiptum sveitarfélaga og ráðuneytisins. Við gerð þessa frumvarps hafa menn áttað sig á mikilvægi þess að þetta getur líka að sjálfsögðu varið sveitarstjórnarmenn fyrir óeðlilegum kröfum. Menn verða að sjá bæði tækifærin og ógnina í því, það ber að þakka.

Samskipti sveitarfélaga og ríkisins hafa oft og tíðum verið brösug, það þekki ég mjög vel. Í gegnum tíðina hefur farið afskaplega mikill tími hjá sveitarstjórnarmönnum og til að mynda stjórnsýslunni og ráðamönnum á hverjum tíma í að funda um allt mögulegt og ómögulegt. Það er verkefni sem þarf að breyta til hins betra. Það eru sem betur fer allar vísbendingar um það, og til þess benda allar upplýsingar sem maður fær, til að mynda á fundum hv. samgöngunefndar, frá forustumönnum sveitarfélaganna í landinu, að ákveðin breyting hafi orðið á þessu, fyrir það ber að þakka.

Þau vinnubrögð sem viðhöfð voru, þegar málefni fatlaðra voru færð yfir um síðustu áramót, urðu til þess að tryggja og byggja upp traust á milli aðila. Þegar málaflokkar hafa verið færðir til hefur hingað til verið setið yfir því í marga mánuði, jafnvel ár, hvað eigi að fylgja, hvaða tekjustofnar eigi að vera og hvað er áætlað að þetta kosti. Þegar það er síðan búið og gert þá virðist ekki nokkur einasta leið til þess að fá það endurskoðað, því í raun og veru eru menn að áætla það sem þarna muni gerast. En það er til mikillar fyrirmyndar hvernig staðið var að yfirfærslu málefna fatlaðra, þ.e. það er endurskoðað eftir ákveðinn tíma hver hinn raunverulegi kostnaður var. Þá er bara sest yfir það og gengið frá því áður en það er gert. Ég þekki mörg dæmi þess að þegar menn voru að færa einhvern málaflokk yfir til sveitarfélaganna fylgdi því ákveðin krónutala, menn rifust um það í marga mánuði og ár að reyna að finna út úr henni, en án þess að gera sér grein fyrir því að mikilvægt væri að leiðrétta hana eftir á í hvora áttina sem hún væri.

Mig langar aðeins að koma inn á það sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um hér áðan í sambandi við erlendu lánin hjá sveitarfélögunum. Ég fagna því sem hann segir um að menn þurfi að setja þetta í reglugerð og fara yfir þessi mál. Ég tel mjög mikilvægt að það verði skoðað og treysti hæstv. ráðherra til þess og því góða fólki sem starfar í ráðuneytinu að gera það þannig að menn læri af þeim mistökum sem voru gerð. Það var engin hemja hér á árum áður að menn voru að taka erlend lán, mörg sveitarfélög, síðan styrktist gengið og þá var allt í einu svakalega góð útkoma á sveitarfélögunum sem var í raun bara byggð á gengishagnaði. Þetta gengur ekki í opinberum rekstri, menn geti tekið svona áhættu í sínum einkarekstri. Þegar bankarnir féllu 2008 var það sveitarfélag sem ég kem frá með rétt rúmlega 1% í erlendum skuldum. Það er bara vegna þess að þeir sem stjórnuðu því sveitarfélagi voru mjög meðvitaðir um að ekki væri mjög skynsamlegt að taka erlend lán þegar tekjurnar væru í innlendum krónum þó svo að sjávarpláss eins og ég kem úr hefðu kannski haft sterkari rök með því vegna þess að það byggir svo mikið á tekjum af útflutningsgreinum, sérstaklega sjávarútvegi.

Eitt langar mig að koma hér inn á sem ég fagna sérstaklega. Það er núna sett inn með óyggjandi hætti að kostnaðarreikna skuli lagafrumvörp. Nú er það bara sett hér inn í lögin. Í mörg ár hefur verið í gildi samkomulag, undirritað af ríki og sveitarfélagi, um að þegar verið er að setja lög hér á Alþingi sé það kostnaðarreiknað, en það samkomulag hefur verið brotið í áraraðir. Nú er það sett inn mjög skýrt í 130. gr., að sé það fyrirséð að því fylgi kostnaður — hvort sem það er lagafrumvarp eða tillaga að stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda sem munu hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin, skuli fara fram sérstakt mat á því. Það er kveðið á um það hér að viðkomandi ráðherra beri ábyrgð á því að slíkt mat fari fram. Þessu fagna ég alveg sérstaklega. Því við höfum samþykkt hér mörg frumvörp, og ekki fyrir svo löngu síðan, sem hafa einmitt verið með þeim hætti að ríkið er í raun og veru að færa á sveitarfélögin auknar byrðar. Þetta er mjög til hins góða. Ég tel þetta mjög mikilvægt.

Ég vil að lokum árétta að það þarf líka að taka samskipti sveitarfélaga og ríkisins, sem ég tel reyndar að séu að þróast í betri átt og hef nú ekki leynt því í þessum ræðustól hversu óánægður ég er með hækkun tryggingagjalds á sveitarfélög. Það er hlutur sem ég vonast til og ætlast til að þróist áfram í því góða samstarfi sem er á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er algerlega óþolandi að ríkið geti hækkað tryggingagjaldið sem færir 3 milljarða frá sveitarfélögunum til ríkisins. Það er mjög ósanngjarnt því að sveitarfélögin eru ekki eins og hinn almenni atvinnurekandi. Sveitarfélagið er líka að veita ákveðna grunnþjónustu sem er ekki síður mikilvæg en sú grunnþjónusta sem ríkið veitir. Þá er það mjög bagalegt að ríkið skuli í raun geta fært 3 milljarða, núna á þessu ári, með einu pennastriki yfir til ríkisins. Það bitnar á sveitarfélögunum og forsvarsmönnum sveitarfélaganna. Enda sjáum við að margir forsvarsmenn sveitarfélaga hér í landinu hafa þurft að taka mjög erfiðar og óvinsælar ákvarðanir til að bregðast við niðurskurði eins og allir aðrir.

Það var mjög bagalegt hér í júní 2009 hvernig staðið var að fyrri hækkuninni á tryggingagjaldinu. Mér er mjög minnisstætt sveitarfélagið Akraneskaupstaður, sem hafði farið í ákveðna endurskipulagningu og niðurskurð, sem kostaði mikil átök við íbúana, það gefur augaleið en það vildi þannig til að hækkun á tryggingagjaldi hjá þessu sveitarfélagi var nánast nákvæmlega það sem þeir skáru niður við mjög erfiðar aðstæður við mikil mótmæli íbúanna. En eftir að þetta gerðist, að ríkið hækkaði tryggingagjaldið, byrjuðu þeir einmitt á núllpunkti upp á nýtt. Þannig að ég tel mjög mikilvægt að það muni þróast áfram eins og önnur samskipti ríkis og sveitarfélaga sem hafa þróast til betri vegar, ég vænti þess að svoleiðis hlutir verði ekki gerðir áfram.