Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 21:01:25 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:01]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins til að svara því örstutt sem vikið var að. Varðandi kostnaðarmatið og þá frumvarpsgrein sem kveður á um það mun það núna vera í samkomulagi og samningum milli ríkis og sveitarfélaga að kostnaðarmat skuli fara fram. Þó að ekki sé komin lagakvöð í þessu efni er ekkert sem bannar að þetta sé gert. Og ef það er vilji sveitarfélaganna og ríkisins að viðhafa þennan hátt á er ekkert sem stendur í vegi fyrir því. Samkomulagið milli ríkis og sveitarfélaga varðandi kostnaðarmatið mun hafa verið við lýði síðan 2001.

Varðandi sjálfstæði sveitarfélaganna og að sveitarfélögin séu skör neðar en ríkið er það alveg rétt. Það má til sanns vegar færa. En þó segja sérfræðingar innanríkisráðuneytisins mér að þegar litið er til viðmiðunarríkja okkar í meginlandi Evrópu og á Norðurlöndum sé staðreyndin sú að sveitarstjórnir og sveitarstjórnarstigið hér séu sjálfstæðari en gerist víðast hvar annars staðar. Á undanförnum missirum og árum hefur sveitarstjórnarstigið hins vegar stóreflst. Samstarf og gagnkvæm virðing milli ríkis og sveitarfélaga hefur aukist þannig að allt samstarf er að komast í markvissari farveg en áður var.

Þriðja atriðið sem ég ætlaði að nefna get ég ekki lesið í augnablikinu en ætla að reyna að ráða í skriftina meðan ég fer aðeins afsíðis.