Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 21:15:20 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stuðning við mannréttindi fólks á höfuðborgarsvæðinu [Hlátur í þingsal.] sem við bæði erum fulltrúar fyrir í löggjafarsamkundunni.

Varðandi kostnaðarmat og áhrif á fjárhag sveitarfélaga þá erum við með löggjöf sem leggur ákveðnar skyldur á sveitarfélögin. Við setjum því skorður með hvaða hætti þau starfa. Ég get alveg tekið undir að með löggjöf okkar höfum við oft áhrif á bæði tekjur og útgjöld heimila og fyrirtækja. Ég tel ekki að það sé eðlilegt að fram fari sjálfstætt kostnaðarmat á því en að sjálfsögðu verður löggjafinn alltaf að hafa í huga að leggja ekki óeðlilegar álögur á heimili eða fyrirtæki í landinu um leið og tryggt er að t.d. skattálögur séu lagðar á heimili af sanngirni. Ég er ákaflega stolt af núverandi ríkisstjórn fyrir að hafa staðið fyrir því að sum heimili greiði hlutfallslega meira til samneyslunnar og tilfærsla sé til annarra heimila til að tryggja tekjujöfnuð og betra samfélag.