Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 12. apríl 2011, kl. 21:31:56 (0)


139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

sveitarstjórnarlög.

726. mál
[21:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Aðeins um það sem hv. þingmaður var að ræða í sambandi við að sumir hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarliðsins og þá annars stjórnarflokksins, básúna út og suður og gera mikið úr skuldum sjávarútvegsins þá gef ég ekki mikið fyrir þann málflutning. Þeir tala yfirleitt af mikilli vankunnáttu vegna þess að í næstu setningu sömu hv. þingmanna segja þeir að það sé að sjálfsögðu mjög mikilvægt að hækka auðlindagjaldið til að ná meiri tekjum af sjávarútveginum. (Gripið fram í: Landsbyggðarskattur?) Nákvæmlega, eins og hv. þingmaður kallar fram í, það ekkert annað en landsbyggðarskattur.

Þegar maður fer að velta auðlindagjöldunum fyrir sér — og ég hef sagt það áður að auðvitað eiga þeir sem nýta auðlindirnar að borga eðlilegt gjald, það er mjög sanngjarnt og skynsamlegt — er mjög óréttlátt að þau skuli eingöngu lenda á sjávarútveginum því að nú er til að mynda orkuauðlind, heita vatnið, í Reykjavík en þaðan er ekki borgað neitt til okkar úti á landsbyggðinni. Menn vilja leggja skatt á okkur landsbyggðarmenn í gegnum sjávarútvegsauðlindina en þegar kemur að heitavatnsauðlindinni þá geta þeir nýtt hana í alls konar útrásir, eins og hv. þingmaður benti á áðan. Við þekkjum til að mynda orkusögu Orkuveitu Reykjavíkur sem því miður er ekki í góðum málum. Menn hafa farið í alls konar fjárfestingar þar vegna þess að þeir hafa aðgang að þessari auðlind og þurfa að greiða þrisvar sinnum minna en við fyrir að kynda húsin sín. Allir eiga að borga fyrir aðgang að auðlindinni. Það er ekkert réttlæti í því að þeir sem búa á landsbyggðinni borgi auðlindaskatt til Reykjavíkur en þeir sem búa þar séu bara stikkfrí. Spurningin hlýtur að þá vera: Af hverju þykjast Reykvíkingar eiga meira í sjávarútvegsauðlindinni (Forseti hringir.) en við á landsbyggðinni í heitavatnsauðlindinni?