Barnaverndarlög

Fimmtudaginn 19. maí 2011, kl. 15:47:35 (0)


139. löggjafarþing — 130. fundur,  19. maí 2011.

barnaverndarlög.

56. mál
[15:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit frá hv. félags- og tryggingamálanefnd um frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum. Eins og fram hefur komið hefur afskaplega gott starf verið í nefndinni um þetta mál. Það er mjög viðamikið og viðkvæmt og ég vona að þær breytingar sem við höfum gert á frumvarpinu séu góðar. Þjóðfélagið er að breytast töluvert mikið og ekki endilega til batnaðar, fíkn er að aukast í landinu og fíklar eru stundum ekki góðir foreldrar og það þarf að gera heilmiklar ráðstafanir til að laga stöðu barna þessa hóps.

Ég held að þetta mál helgist dálítið af þeim þjóðfélagsbreytingum sem hafa orðið og breytingum á fjölskyldunni sem slíkri. Hún hefur breyst mjög mikið, hið hefðbundna fjölskyldumynstur er varla lengur til staðar, mikið er um einstæða foreldra og einnig fósturforeldra sem taka við börnum. Það er mikið rót á fjölskyldunni og allt er það ekki gott fyrir litla fólkið á heimilinu. Því miður koma upp nokkur slæm mál sem barnaverndarlögum er ætlað að taka á.

Í 1. umr. gagnrýndi ég, og hef svo sem oft gert, að mjög sterkur huliðshjúpur er yfir barnaverndarmálum. Eðli málsins samkvæmt eru þetta mjög viðkvæm mál og ekki gott að þau vandamál sem þar koma upp séu borin á torg. Hins vegar getur huliðshjúpurinn snúist í andhverfu sína vegna þess að þá er ekki vitað af því sem misferst í umönnuninni eða í framkvæmd laganna. Við höfum svo sem kynnst því í Breiðavíkurmálinu, huliðshjúpurinn hélt því máli undir yfirborðinu mjög lengi.

Ég hef hugleitt dálítið mikið og rætt hvernig við getum lagað þetta, hvernig við getum reynt að svipta þessum huliðshjúpi af eða opnað smágat á hann þannig að menn geti séð inn og þeir sem telja sig órétti beitta geti þá snúið sér eitthvert sem þeir geta í raun ekki í dag, bæði vegna þess að vald barnaverndarnefnda og Barnaverndarstofu er mjög sterkt og líka huliðshjúpurinn. Þetta hef ég haft efasemdir um.

Ég vona að breytingarnar sem við höfum gert séu til bóta og býst reyndar við því. Ég vænti þess að margt sem við gerum hér lagi stöðuna, við hverfum t.d. frá hugtakinu kynforeldri yfir í foreldri. Við tölum líka um að barnið sé meira í gæslu fólks sem það er tilfinningalega tengt. Oft á barnið sterka fjölskyldu fyrir utan foreldra sína sem getur veitt stuðning þegar erfiðleikar koma upp. Ég held því að þetta sé til bóta. Ég er með á nefndarálitinu án fyrirvara, og við sjálfstæðismenn í hv. nefnd, og ég vona að þetta góða samstarf í nefndinni beri þann ávöxt að breytingarnar séu til góða.