Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 21:13:44 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[21:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þarna datt hæstv. utanríkisráðherra akkúrat ofan í þau hjólför að hafa umræðuna með því yfirbragði að við séum á málfundaæfingu. Ég hef viljað taka mjög yfirvegaða umræðu um þetta og hæstv. ráðherra reynir að leggja lykkju á leið sína til að gera málflutning minn í 1. umr. um þetta mál, sem við í Framsóknarflokknum höfum ekki haft neina aðkomu að, tortryggilega.

Það sem ég átti við varðandi strandveiðar — ég minni hæstv. ráðherra á að skoða einfaldlega hvernig við framsóknarmenn höfum greitt atkvæði með þeim veiðum, við höfum síður en svo komið í veg fyrir þær — er að við höfum verið að færa í hugsun hvort mögulegt sé að útfæra kerfið með þeim hætti að hver og einn bátur hafi ákveðna hlutdeild. Það verði ákveðið hámark í þessu kerfi og þeir sem sæki um fái ákveðna hlutdeild þannig að þeir hafi þá meiri áhrif og geti valið um það á hvaða dögum er róið og geti þá gengið að því vísu en ekki eins og það er í dag.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki lagst gegn strandveiðum. Það er rangt sem hæstv. ráðherra reynir að halda fram.