Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 22:22:32 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[22:22]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég get að sumu leyti tekið undir að það sé mjög mikilvægt að menn deili ekki um það hver á auðlindina, t.d. út frá því hvort maður býr í sjávarbyggð eða þéttbýli. Það er mikilvægt að reyna að ná sátt og að allir upplifi það þannig að þeir hafi sem Íslendingar rétt á að fá sinn arð af auðlindunum.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann um það sem kemur fram í frumvarpinu um að búa til nýjan strandveiðipott fyrir báta undir þremur tonnum. Ég spyr hv. þingmann sérstaklega þar sem hann var áður hæstv. samgönguráðherra og lét sig mjög varða slysavarnamál sjómanna. Ég veit að hann hefur mikinn áhuga á þeim. Hefur hann ekki áhyggjur af því að menn fari að framleigja þessa litlu báta í pottinn og að það muni þá hugsanlega auka slysatíðni á sjó?

Að lokum: Hvað finnst hv. þingmanni um að skiptingin á auðlindagjaldinu verði með þeim hætti að þau skip sem vinna aflann (Forseti hringir.) um borð séu ekki tekin með í úthlutuninni?