Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 23:06:26 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:06]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég vona að hv. þm. Björn Valur Gíslason þroskist enn frekar í þessu máli í vinnslu þess og endurskoði þá afstöðu sína sem hann var að lýsa hér áðan, en ég þakka honum andsvarið.

Þegar spurt er að því hvort maður sjái einhverjar aðrar leiðir til að láta alla sem stunda útgerð greiða í þennan byggðapott o.s.frv. getur maður spurt sig ýmissa spurninga: Af hverju á til dæmis að greiða af úthafsveiði, þar sem Íslendingar hafa aflað sér veiðireynslu, eða útgerðin hefur búið hana til fyrir landið, inn í einhverja tiltekna þrönga potta? Ég meina, mér finnst það alveg spurning.

Stóra málið varðandi þetta einstaka ákvæði er hins vegar þetta: Þegar búið er að reikna út, með þessari svokölluðu árgreiðsluaðferð Hagstofunnar, gjaldið á afkomu útgerðarinnar metur Hagstofan þetta um 36% af hagnaði útgerðarinnar og þá á hún eftir að greiða skattinn. Og samkvæmt 2. gr. líka þá verður hún ef hún á ekki 10 tonn af þorski að kaupa þann þorsk og það kemur þá til viðbótar þessu. Ég bara verð að viðurkenna að mér finnst þetta böðulsskapur. Mér finnst ekkert samhengi í því sem menn eru að gera.

Það kann vel að vera að hægt sé að finna einhverja aðra aðferð til að gera þetta, en sú sem hér er lögð til er mér alls ekki að skapi og ég hef sett spurningarmerki við réttlæti þess að yfir höfuð sé heimilt að koma þannig fram gagnvart fyrirtækjum eða einstaklingum sem eru í tiltekinni atvinnustarfsemi, að hægt sé að segja við þá: Heyrðu, þú verður að gjöra svo vel að kaupa þér einhverja (Forseti hringir.) tiltekna vöru til að fá að stunda þína atvinnu í framhaldinu. Mér finnst þetta ekki ganga upp.