Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 23:33:44 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er engin innstæða fyrir leikrænum tilþrifum formanns Sjálfstæðisflokksins um að verið sé að kollvarpa grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar, fjarri því. Hér er farið fram með breytingar á kerfinu sem tryggja fyrirsjáanleika í 23 ár. Þekkja menn einhver dæmi þess að lengri samningar séu gerðir? Getur formaður Sjálfstæðisflokksins ekki svarað því hvort hann telur tillögurnar um veiðigjald sem hér eru fram komnar ekki vera hóflegar þegar til þess er litið að í þeim er ekki gert ráð fyrir að nema 5 eða 6 milljarðar af 45 milljarða árlegri afkomu greinarinnar renni til almennings? Getur hann að minnsta kosti ekki staðfest að tímalengdin á samningunum (Forseti hringir.) er sanngjörn og veiðigjaldið sem lagt er til hóflegt?