Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 30. maí 2011, kl. 23:43:24 (0)


139. löggjafarþing — 135. fundur,  30. maí 2011.

stjórn fiskveiða.

826. mál
[23:43]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ræðu hans áðan sem var góð. Ég gat tekið undir margt af því sem hann hafði til málanna að leggja. Sérstaklega eru þó tvö til þrjú atriði sem mig langar til að minnast á. Hv. þingmaður ræddi talsvert í upphafi ræðu sinnar um byggðakvóta, ýmsar aðgerðir varðandi línuívilnun og fleiri bætur sem stjórnvöld hafa gripið til í gegnum árin til að koma til móts við þau sjónarmið sem hafa meðal annars verið í lögum um stjórn fiskveiða. Eitt af markmiðum þeirra er að treysta atvinnu og byggð í landinu. Þetta eru pólitískar aðgerðir. Það er pólitísk aðgerð að útdeila byggðakvóta og ákveða hvað línuívilnun verður mikil og með hvaða hætti. Um þetta er nokkuð góð pólitísk samstaða á þingi. Ég held að flestir sjávarútvegsráðherrar síðastliðin ár hafi tekið þátt í að útfæra þessar hugmyndir með ýmsum hætti.

Ég hef ýmsar efasemdir um margt af því sem hefur verið gert í þessum málum í gegnum árin, ekkert endilega út af því að ráðherra ákveði þetta. Ég er ekkert viss um að það sé rétta aðgerðin til að koma til móts við byggðirnar að afhenda þeim aftur fisk. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort réttara sé að gera það með öðrum hætti en að deila út aflaheimildum og gera það frekar með því að koma til móts við byggðir í landinu með atvinnusköpun, hugsanlega í ígildi einhvers auðlindagjalds þó að ég sé ekki sammála því sem lagt er til í frumvarpinu að verði gert. Getur þingmaðurinn verið mér sammála um að hægt sé að uppfylla skilyrðin, sem ég held að við séum öll nokkuð sammála um að séu prinsippmál, með öðrum hætti en þarna kemur fram? Er ekki hægt að rétta hlut byggðanna með öðru en að útdeila aflaheimildum (Forseti hringir.) eins og hefur verið gert árum og áratugum saman?