Skeldýrarækt

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 18:18:13 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[18:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Skeldýrarækt hefur átt sér nokkra sögu hér á landi. Það verður að segjast eins og er að sú saga hefur ekki alltaf verið mjög glæsileg í þeim skilningi að árangurinn hafi verið nægilega mikill. Það eru nokkur ár frá því þessi mál voru rædd talsvert hér á þinginu og áhugi ýmissa þingmanna kom þá berlega í ljós. Ég vil nefna sérstaklega þáverandi hv. þm. Karl V. Matthíasson sem beitti sér mjög í þessu máli og á miklar þakkir skildar fyrir það.

Sums staðar hefur ríkt nokkur vantrú á að skeldýrarækt eigi yfir höfuð nokkurn rétt á sér hér á landi, hvort náttúrulegar aðstæður séu þannig að það gangi upp og hvort flutningskostnaður á afurðum til Evrópu sé það hár að ekki sé hægt að skapa fjárhagslega sjálfstæða atvinnugrein.

Nú á Alþingi ekki að taka ákvörðun um það hvort fyrirtæki hefji starfsemi sína á þessum grundvelli. Það eru auðvitað þeir sem vilja festa fé sitt í atvinnustarfseminni sem taka um það ákvörðun hvort hún eigi að hefjast og halda áfram. Það er einfaldlega á ábyrgð þeirra sem eiga fyrirtækin og leggja í þau fjármagn. Á sínum tíma, þegar ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ákvað ég að setja á laggirnar starfshóp til að fara yfir málefni skelræktarinnar, sérstaklega með kræklingaræktina í huga, meðal annars til að reyna að fá yfirsýn yfir möguleika greinarinnar, hvort skynsamlegt væri að ríkisstjórnin kæmi að því og hvort skynsamlegt væri að setja almennan ramma utan um starfsemina.

Niðurstaða nefndarinnar var afdráttarlaus. Niðurstaðan var sú að tvímælalaust væru tækifæri í skelræktinni og afskipti ríkisvaldsins af slíkum atvinnurekstri ættu að vera mjög lítil. Það ætti að setja almennan ramma og sjá til þess að ákveðin vöktunarþjónusta, sem væri þá hluti af stuðningskerfi atvinnugreinarinnar, væri til staðar. Enn fremur var þess farið á leit að hið opinbera hefði einhvern atbeina að því að fara yfir flutningsmöguleika á afurðum til útlanda. Annað var það í meginatriðum ekki og ég hygg að það hafi verið sameiginleg niðurstaða allra þeirra sem skoðuðu þetta, en það voru bæði fræðimenn, menn úr atvinnugreininni og síðan fólk sem hafði sérþekkingu á rekstri.

Ég nefndi það áðan að á ýmsu hefði gengið í skelræktinni í gegnum tíðina. Tjón hefur orðið sem meðal annars má rekja til vanþekkingar en það verður að teljast eðlilegt þegar verið er að byggja upp nýja atvinnugrein. Við vitum hins vegar að ræktun á bláskel eða kræklingi er víða blómleg, til dæmis í ýmsum afskekktari héruðum Kanada. Slík ræktun á sér líka stað í Evrópu. Vandinn sem steðjar að í ýmsum þessum löndum er tvenns konar, annars vegar glíman við mengun, utanaðkomandi mengun, sem að langmestu leyti kemur af landi, og hins vegar eru svæði víða orðin svo ásetin að ekki eru miklir möguleikar á að auka umsvifin af þeim sökum.

Af þessum ástæðum er tvímælalaust tilefni fyrir þá sem hafa áhuga á þessu að reyna að minnsta kosti að freista þess að athuga hvort möguleikar séu til staðar í því að efla kræklingarækt. Við sjáum það bara á síðustu árum, örfáum árum, að heilmikil vakning hefur orðið í þessum efnum. Mjög víða um landið eru að spretta upp fyrirtæki sem drifin eru áfram af atorku og fjármagni einstaklinga sem eru að setja upp kræklingarækt í fjörðum við landið.

Það er margt sem hefur háð þessari grein. Í fyrsta lagi hefur komið í ljós að það lagaumhverfi sem hún hefur orðið að búa við byggist á lögum um fiskeldi og við vitum að fiskeldi og ræktun er sitt hvað. Í annan stað hefur ríkt gróin vantrú fjármálastofnana á möguleika þessarar greinar og því hefur reynst mjög erfitt víða að fá fjármagn til starfseminnar. Þeir sem hafa staðið í þessu hafa að langmestu leyti orðið að leggja fram eigið fé eða útvega önnur veð en þau sem eru í þessum atvinnurekstri, og það er ekki gott að svo þurfi að vera. Það skiptir sannarlega miklu máli að menn hætti sínu fé í þetta að svo miklu leyti sem þeir geta en það hlýtur líka að vera hluti af atvinnuuppbyggingu að hafa aðgang að lánsfjármögnun.

Með frumvarpinu er verið að reyna að setja utan um þessa sérstöku starfsemi. Þetta er sérhæfð starfsemi og einstök að því leytinu að hún sker sig mjög úr annarri atvinnustarfsemi, sérstaklega fiskeldi, sem menn hafa þó haft tilhneigingu til að rugla svolítið saman við það sem hér er á ferðinni. Eldið byggist á fóðrun og er þess vegna inngrip í náttúruna en ræktunin byggir ekki á slíku. Menn henda út spottum og síðan stendur allt og fellur með því hvort nægilega áseta sé á línurnar og því er þetta í eðli sínu ekki mengandi atvinnustarfsemi. Vandinn sem snýr að mengun er hins vegar sá að það getur komið upp utanaðkomandi mengun sem kann að skaða þessa ræktun en mengun frá ræktuninni sjálfri mælist ekki. Það er því mjög mikilvægt að við reynum að setja sérstaka löggjöf um ræktina. Það var skoðað á sínum tíma hvort skynsamlegt væri að hafa þetta sem hluta af annarri löggjöf en niðurstaða þeirra sem fóru yfir málið var sú að skynsamlegra væri að setja um þetta sérstök lög og það er það sem verið er að gera með frumvarpinu.

Ég nefndi áðan að víða hefði verið erfitt með fjármögnun og það hefur staðið þessari atvinnugrein talsvert mikið fyrir þrifum. Við þekkjum það að menn hafa svona almennt talað fyrirvara á sér þegar verið er að tala um atvinnugrein sem engin reynsla er af og það er kannski ekkert óeðlileg afstaða hjá þeim sem eiga að lána peningana sína. En þá er það hlutverk okkar meðal annars að reyna að búa þannig um hnútana að lagaumhverfið leiði fremur til þess að auðvelda fjármögnunina en ekki.

Þá vil ég koma að athugasemd sem ég vil gera við þetta frumvarp sem ég að öðru leyti styð, og það er ákvæði 16. gr., undir Ýmis ákvæði, sem lýtur að framsalinu. Í þeirri grein segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Framsal, leiga og veðsetning á tilraunaleyfi og ræktunarleyfi til skeldýraræktar samkvæmt lögum þessum er óheimil.“

Þetta er að mínu mati afar óskynsamlegt ákvæði og hefur engan tilgang. Þetta mun hins vegar hafa í för með sér að fjármögnun verður erfiðari og á það benda meðal annars Landssamtök fiskeldisstöðva og Samtök fiskvinnslustöðva. Í nefndaráliti 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar kemur einmitt fram þetta álit, með leyfi virðulegs forseta:

„Í umsögn Landssamtaka fiskeldisstöðva og Samtaka fiskvinnslustöðva kemur fram sú skoðun að ákvæði 16. gr. frumvarpsins sé óheppilegt þar sem það takmarki fjármagn til skeldýraræktar og komi í veg fyrir að eðlilegur arður renni til frumherja við framsal leyfa til nýrra rekstraraðila.“

Þetta er kjarni málsins og þess vegna er það til óþurftar þessari löggjöf og til óþurftar fyrir atvinnugreinina að kveða á um þetta með þeim hætti sem gert er í 16. gr. Ég tel þess vegna að það væri mjög brýnt að við meðferð málsins verði þessi grein felld út.

Það er auðvitað þannig að menn hætta fé, eigin fé, eins og ég var að segja hér áðan. Við það skapast ákveðinn frumherjaréttur. Hluti af því verðmæti sem býr í þessum störfum felst einmitt í ræktunarleyfinu sjálfu þegar það er á annað borð fengið. Verðmætið felst ekki í kaðalspottanum sem menn dýfa í sjóinn. Það kann að felast að einhverju leyti í lausafjármunum sem eru nauðsynlegir við vinnsluna, það kann að felast í bátum ef fyrirtækið á báta á annað borð, en með þessu er verið að taka burtu ákveðna fjármunamyndun sem hefur átt sér stað í greininni með þeim hætti að frumherjarnir hafa komið fram með fjármagn til að búa til verðmæti úr því sem ekki er verðmæti í dag. Þess vegna er þetta vont ákvæði og mun bara hafa í för með sér að fjármögnunin verður erfiðari og er þó ekki á bætandi. Við vitum í dag að þessi vantrú er ríkjandi. Jafnvel hjá svo merkri stofnun sem Byggðastofnun hafa menn ekki treyst sér til að fara í almennilega lánafyrirgreiðslu til þessa atvinnurekstrar nema með tryggum veðum utan atvinnugreinarinnar sjálfrar.

Ég vil nefna annað atriði sem gerði það að verkum að ég kaus að vera ekki á þessu nefndaráliti þó að ég styðji málið í meginatriðum. Það er það að nálgunin felur í sér allt of mikið flækjustig. Til að bregðast við því hefðum við þurft að hugsa þetta mál algjörlega upp á nýtt og fara í vinnu alveg frá grunni. Þá er ljóst að ekki hefði verið unnt að afgreiða frumvarp til laga um skeldýrarækt sem lög frá þessu þingi. Á það er hins vegar mikið þrýst af þeim sem standa í atvinnugreininni og við sáum því ekki ástæðu til að þvælast fyrir því að þetta gæti orðið að lögum ef það mætti að öðru leyti verða til þess að hjálpa til við uppbyggingu þessarar atvinnugreinar sem kann að hafa þýðingu. Ég vek athygli á því í þessu sambandi að á Prince Edward eyju í Kanada hefur þetta orðið meiri háttar atvinnurekstur í frekar afskekktu héraði. Þar hefur atvinnusköpunin orðið heilmikil við náttúrulegar aðstæður sem á margan hátt eru erfiðari en okkar. Þar leggur ís og þar eru miklir fimbulkuldar á vetrum en engu að síður hefur þetta tekist þar.

Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því að í frumvarpinu, þó að með því sé verið að setja almenna löggjöf um þessa starfsemi, sé allt of mikið flækjustig. Ég ætla að taka dæmi. Í 7. gr. er kveðið á um tilraunaleyfi og það er Matvælastofnun sem gefur það út. En áður en það er veitt þarf Matvælastofnun að afla umsagna frá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Landhelgisgæslunni, Orkustofnun, Siglingastofnun og sveitarfélögum, allt í allt frá 6 aðilum. Eins og alltaf gerist þegar verið er að fjalla um mál af þessu tagi í þingnefndum óska ýmsir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta eftir því að fá að slást í hóp umsagnaraðila. Niðurstaðan varð eins og maður óttaðist í meðförum nefndarinnar að í stað þess að einfalda þetta er niðurstaðan sú að bæta við enn einum aðilanum í þessu sambandi, þ.e. Umhverfisstofnun. Í 5. gr., þar sem talað er um svæðaskiptingu starfseminnar, er sömuleiðis um að ræða heila dobíu af umsagnaraðilum og í meðferð nefndarinnar er einum umsagnaraðila bætt við, sem er Náttúrufræðistofnun. Þannig má áfram telja. Landhelgisgæslan bætist við sem umsagnaraðili í 4. gr. og þannig er það. Það sama er upp á teningnum varðandi ræktunarleyfi, þar eru allir þessir sömu og Umhverfisstofnun bætist við.

Það er hins vegar bót í máli að umsagnaraðilar fá einungis fjórar vikur til að skila umsögnum sínum. Við þekkjum það hins vegar að fenginni reynslu að jafnvel bindandi lagagreinar fyrir slíkar eftirlitsstofnanir hafa ekki dugað. Við þekkjum öll dæmin frá Umhverfisstofnun. Samtök atvinnulífsins tóku saman tölur um það hvernig Umhverfisstofnun, Skipulagsstofnun og þessar stofnanir allar hafa æ ofan í æ dregið að skila umsögnum sínum. Við þekkjum það til dæmis í sambandi við vegamálin hvernig úrskurðir sem lúta að umhverfismati dragast von úr viti mánuðum saman og standa í vegi fyrir eðlilegri uppbyggingu í samgöngumálum víða um land.

Það er enginn að tala um að ekki eigi að ganga varlega um en spurningin er einfaldlega sú hvort menn verði ekki að reyna að hugsa þessi mál upp á nýtt og fallast á að við séum með almenna löggjöf um skeldýraræktina, um það er enginn ágreiningur, en reyna að hafa nálgunina einhvern veginn öðruvísi, byggja til dæmis á skipulagslögunum. Á því sviði væru ýmis færi.

Ég ætla í sjálfur sér ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég taldi ástæðu til að undirstrika að ég styð að sett sé sérstök löggjöf um skeldýrarækt. Það er hins vegar kreddubundin afstaða sem kemur fram í 16. gr. varðandi framsalið og það leiðir til þess að miklu erfiðara verður með fjármögnun. Fjármögnunin er mjög erfið eins og sakir standa og þetta ákvæði mun síst af öllu auðvelda hana. Ég tel því skynsamlegast að Alþingi kæmist að þeirri niðurstöðu að fella þessa grein burtu.

Loks vil ég draga það fram sem ég sagði hér áðan að gallinn við frumvarpið, eins og það er lagt fram, er sá að í því er allt of mikið flækjustig. Við skulum ekki gleyma því að þeir sem starfa í skelræktinni eru flestir hverjir einyrkjar. Þar sem ekki hefur tekist, nema kannski í undantekningartilvikum, að byggja atvinnugreinina þannig upp að menn geti haft beina afkomu af henni hafa þessir einstaklingar orðið að vinna í þessum málum í frístundum sínum. Það þekki ég vel. Þeir leggja til báta sína, nota kaðla og spotta sem þeir eiga í útgerðum sínum og hafa ekki tíma og kannski ekki heldur almenna þekkingu til að fara í þessa þrautagöngu milli Heródesar og Pílatusar, milli umsagnaraðila, til að leita umsagnar um svo einfaldan hlut eins og þann að fá að dýfa niður nokkrum spottum í fjörð til að freista þess að athuga hvort einhver áseta verður sem gæti skapað grundvöll að kræklingarækt.

Það er umhugsunarefni fyrir okkur almennt, þingmenn, þegar við erum að setja lög — sem alltaf eru sett í góðri trú og í góðri meiningu — hvort við getum ekki reynt að einfalda þetta. Einhvern tíma var reynt að setja upp kerfi sem færi yfir þessa eftirlitsþætti en það hefur greinilega ekki borið árangur. Við þurfum greinilega þegar fram í sækir að hugsa þessa hluti upp á nýtt. Það er orðið viðtekið að menn veigri sé við því að hafa orð á því að eftirlitsiðnaðurinn hafi blásið út. Umræðan undanfarin missiri hefur nefnilega verið á þeim nótum að allt sem aflaga hafi farið í þjóðfélagi okkar hafi verið því að kenna að við höfum ekki haft nógu mikið eftirlit hvert með öðru. Það á örugglega ekki við í atvinnustarfsemi eins og þessari. Um leið og þessi lög verða samþykkt vil ég geta þess að menn þurfa að huga að því að reyna að einfalda þau í nánustu framtíð til að tryggja að þessi atvinnustarfsemi, sem ég trúi að feli í sér heilmikla möguleika, geti dafnað. Það gerist ekki nema við drögum úr flækjustiginu.