Skeldýrarækt

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 18:36:06 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[18:36]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um skeldýrarækt. Eins og fram hefur komið tekur frumvarpið til ræktunar skeldýra á íslensku forráðasvæði. Markmið þess er að skapa skilyrði til ræktunar skeldýra og setja reglur um starfsemina og efla með því móti atvinnulíf og byggð á Íslandi, og veitir ekki af. Það eru klárlega víða sóknarfæri í þessari atvinnugrein eða atvinnusköpun, eins og reyndar svo mörgum öðrum, og mjög nauðsynlegt að við förum í það á Íslandi að nýta þau tækifæri sem eru fyrir hendi. Þá verðum við að líta til allra átta og ekki undanskilja hluti sem hafa kannski, eins og komið hefur fram hér í umræðunni, í fortíðinni á sér þann svip að það sé erfitt að fara í gang og hafi jafnvel gengið misjafnlega. Í því sambandi má til dæmis nefna bæði loðdýrarækt og fiskeldi sem hafa haft á sér það orð að það hafi verið ævintýri sem misfórust fyrir jafnvel 50–60 árum.

Staðreyndin er sú að í þessari atvinnugrein eins og öllum öðrum þarf að byggja upp bæði þekkingu og markaði samhliða því að skapa atvinnuna. Sú staðreynd blasir til að mynda við, eins og til dæmis varðandi þær greinar sem ég nefndi, loðdýraræktina og fiskeldið, að þar eru gríðarlegir möguleikar nú þegar til atvinnusköpunar. Ætli loðdýraræktin skili ekki yfir milljarði í útflutningstekjur og gæti tí- til fimmtánfaldast miðað við núverandi skipulag greinarinnar og möguleika til hráefnisöflunar; og ekki veitir okkur af að fá auknar útflutningstekjur. Möguleikar í fiskeldi eru að sama skapi gríðarlegir. Það hefur verið nefnt þar að í stað þess að stefna að því að auka það um 5 þús. tonn á næstu árum ættum við að stefna að því að auka það um 50 þús. tonn og þar gætum við kannski náð í um það bil 30 milljarða til viðbótar. Það hefur líka verið nefnt hér á liðnum dögum og vikum að við þurfum að auka þann afgang sem við höfum af verslun við umheiminn um kannski 50–70 milljarða, til að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur og þá veitir vissulega ekki af að bæta í. Hér er ein grein sem í fyllingu tímans mun skila okkur miklu þó að það muni taka tíma.

Það frumvarp sem við ræðum hér er einhvers konar rammi um þau skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að fá annars vegar tilraunaleyfi og eins ræktunarleyfi og hvaða rammalöggjöf á við um það. Það skortir auðvitað á, eins og hefur líka komið fram í umræðunni hjá fyrri þingmönnum, að í þessa atvinnusköpun eins og svo marga aðra er skortur á fjármunum til fjárfestingar. Því væri áhugavert, ef frumvarpið hefði á einhvern hátt fjallað um það, en það gerir það ekki og torveldar það reyndar að nokkru leyti.

Í umræðu hér síðustu daga um sjávarútvegsmál hefur verið rætt um það að hluti af svokölluðu veiðigjaldi eða auðlindarentu greinarinnar renni að einhverju leyti aftur til þeirra landsvæða þar sem auðlindarentan verður til. Ég tel það til bóta þó að ekki sé sama hvernig útfærslan á því er. En hér er einmitt verkefni þar sem slíkir fjármunir gætu komið að og veitir ekki af að koma fjármunum til atvinnusköpunar á því svæði. Í tillögum okkar framsóknarmanna í sambandi við sjávarútveginn og veiðileyfagjaldið hefur það einmitt verið tiltekið að hluti af þessu gjaldi eigi að fara til nýsköpunar í sjávarútvegi og síðan hafa verið tilteknir fleiri hlutir eins og til dæmis fiskeldi og rækt og þá ekki síst skeldýrarækt, kræklingarækt eða því um líkt. Það er ákaflega mikilvægt að við getum sett slíkan grundvöll undir uppbygginguna að einhverjir fjármunir séu líklegir.

Það hefur komið fram í umfjöllun að menn rugli saman eldi og ræktun. Áður fyrr, vegna þess að ekki voru til um það lög, var farið með kræklingarækt og aðra rækt eins og fiskeldi sem er allt annar hlutur.

Einnig hefur það komið til tals í nefndinni að skilgreiningar skorti, til dæmis hvað varðar eignarland og netlög. Samtök eigenda sjávarjarða hafa gagnrýnt það harðlega hvernig farið er með þau og verið er að tala um svæði sem tilheyra mörgum sjávarjörðum. Fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafa að nokkru leyti vísað athugasemdum samtakanna á bug og lagt annað mat á þetta og meðal annars bent á að skilgreiningar séu fyrir hendi í öðrum lögum. Sem dæmi má nefna að bæði Bændasamtökin og Samtök eigenda sjávarjarða gagnrýndu skilgreininguna á hugtakinu netlög og lögðu samtökin til að skilgreiningu frumvarpsins yrði breytt til samræmis við skilgreiningu laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Á móti kom fram hjá fulltrúum ráðuneytisins að skilgreining frumvarpsins væri orðrétt í samræmi við skilgreiningu á þessu hugtaki í ýmsum öðrum lögum og með skilgreiningunni sé stefnt að samræmi. Það er kannski ofsögum sagt.

Skilgreiningar á netlögum hafa gegnum tíðina verið mismunandi. Þær skilgreiningar koma fram í gildandi löggjöf, til dæmis í Jónsbók, og í lögum settum af Alþingi, bæði fyrir og eftir lýðveldisstofnun. Margar þessar skilgreiningar standa óbreyttar frá fornu fari og hefur Alþingi hingað til ekki séð tilefni til að gera breytingar á þeim. En í ljósi þessarar gagnrýni frá Samtökum íslenskra eigenda sjávarjarða, Bændasamtakanna og fleiri er ákaflega mikilvægt að Alþingi og ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins hafi eitthvert frumkvæði að því og hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd taki það til sín strax á næsta hausti. Það er ákaflega mikilvægt að þetta verði gert og samræmt þarna markmið jarðalaga og eins markmið laga um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins, og það skilgreint.

Aðrir hlutir sem ég gagnrýndi í frumvarpinu þegar það kom fyrst fram var meðal annars hugtakið mannvirki sem ekki var rétt skilgreint og var ekki í samræmi við önnur lög þar sem sama hugtak kemur fyrir og það er gefin ákveðin útskýring á því. Það kom líka upp ákveðinn misskilningur hjá hv. umhverfisnefnd Alþingis um ræktunarsvæði og virtist sá misskilningur felast í því að menn væru að rugla saman eldi og rækt og það er búið að leysa það að nokkru leyti.

Þá kem ég kannski að þeim þáttum sem gera það að verkum að ég er ekki á þessu nefndaráliti um málið þó að ég styðji frumvarpið og telji mikilvægt að um þessa atvinnugrein sé sett rammalöggjöf. Það er meðal annars vegna þess að ég gagnrýndi frumvarpið sem kom fram á fyrra þingi harðlega fyrir hugmyndina að uppbyggingu þess. Menn virtust ekki átta sig á því að til væru önnur lög í landinu, til að mynda skipulagslög þar sem sveitarfélög fara með þann rétt og það vald sem því fylgir og eru í raun að skipuleggja landsvæði til uppbyggingar og afnota. Ég mundi halda að þessi atvinnugrein væri ekkert ólík öðrum frekar að því leyti að það ætti að gilda. Það hefur líka komið í ljós í sambandi við fiskeldi í fjörðum og annað að það er mikilvægt að einn aðili fari með skipulagsvaldið. Þó að reglur séu ekki einfaldar og mörgum finnist þær vera torveldur skógur að rata í gegnum og taki langan tíma er þar komin ákveðin reynsla á stjórnsýsluna og hún er gagnsæ, til þess að gera. Það vita allir hvað til þarf og þar með er kominn einhver aðili sem hefur yfirsýn yfir það í nærsamfélaginu í hvað á að nota hvert landsvæði. Þeir sem þar búa og hafa hagsmuni, og reyndar allir aðrir, geta líka gert athugasemdir við fyrirætlanir um nýtingu lands og þá stranda og út í sjó.

Ef það hefði verið gert frá upphafi, ef menn hefðu hlustað á gagnrýni þess sem hér stendur og reyndar ýmissa annarra umsagnaraðila, ef menn hefðu tekið þessi lög sem við fjöllum um á þessu þingi og breytt uppbyggingunni, hefði þetta mál að öllum líkindum verið miklu einfaldara og líklegra að fleiri hefðu verið með á því. En það var sem sagt sami galli sem kom fram í þessu, það er uppbyggingin á sjálfu frumvarpinu. Nefndin var lengi með þetta til umfjöllunar og velti því fyrir sér hvort fara ætti í það að umbylta frumvarpinu. Það hefði þýtt að þá hefði rammalöggjöf seinkað og við töldum mikilvægara eftir samráð við skelræktendur að þessu yrði flýtt, að þetta yrði klárað. Ég verð þó að viðurkenna að ég ber nokkurn kvíðboga fyrir því að væntingar manna, um að ýmsum ljónum verði rutt úr vegi, og auðveldlega verði hægt að fá tilraunaleyfi eða ræktunarleyfi, séu of miklar. Það mun hugsanlega verða erfitt að koma því í gegnum allar þær stofnanir sem eiga síðan að veita umsögn um málið.

Ef menn hefðu farið skipulagsleiðina hefði svæðið verið tekið til skoðunar áður en það var sett inn á skipulag. Matvælastofnun, sem á að kanna heilnæmið, hefði þá verið búin að kanna hvort slíkt leyfi væri fyrir hendi, það væri hægt að auglýsa það og allir umsagnaraðilar gætu síðan haft eðlilegan tíma til að koma að málinu. Þegar því væri lokið gæti Matvælastofnun gefið út tilrauna- eða ræktunarleyfi.

Þannig er það ekki, hér er milli 10–15 aðilum ætlað að veita umsagnir og í flestum tilfellum er um að ræða ríkisstofnanir og það hefur ekki verið reynslan að það gangi hratt fyrir sig. Upphaflega voru uppi hugmyndir um að allir fengju hálfan mánuð en í niðurstöðu í breytingartillögum frá nefndinni er lagt til að það verði fjórar vikur. En það er mikilvægt að það verði allar sömu fjórar vikurnar. Ef allir þessir 10–15 aðilar eiga að fá fjórar vikur og svo senda þeir frá sér umsögnina til næsta aðila sem líka tekur fjórar vikur er það algjörlega galið. Ég kvíði því að mál gætu hugsanlega farið á þann veg að þetta gengi ekki eins hratt fyrir sig og menn vonast eftir.

Gildistími starfsleyfanna, annars vegar tilraunaleyfanna og hins vegar ræktunarleyfanna, var of skammur og lagt er til að hann verði lengdur. Ég styð það. Einnig má fjalla um heilnæmiskönnunina. Ef þeir aðilar sem eru að fara í tilraunaræktun þurfa að leggja út í stórkostlegan kostnað — það er að vísu heimild til ráðherra að hann taki þann kostnað að sér — ef það yrði þannig að fyrsti aðilinn eigi að greiða og svo komi næsti á eftir sem þá þyrfti ekki að greiða er ákveðið jafnræðisbrot í þessu. Þarna komum við aftur inn á það að ef menn hefðu farið hina leiðina í þessu hefði það verið einfaldari leið.

Gjaldtakan í frumvarpinu og heimildir ráðherra eru eins og í mörgum þeim frumvörpum sem koma frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu þessi missirin, það eru víða heimildir til ráðherra og víða óviss gjaldtaka eða hún er ekki alveg markviss, er matskennd, skulum við segja. Í umsögn Skelræktar var sú skoðun sett fram að gjaldtakan eigi að koma fram í einfaldri og fastri gjaldskrá, gjaldtakan eigi að vera hófleg og taka mið af markmiðum stjórnvalda um stuðning við uppbyggingu nýrra atvinnuvega, og getur sá sem hér stendur tekið heils hugar undir það.

Það atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom inn á og taldi vera vafasamt, þ.e. bann við framsali á veittum leyfum, get ég líka tekið undir. Ég tel að það verði erfitt fyrir þessa atvinnugrein eins og allar sem eru að fara inn á það að sækja sér fjármuni og ég tel að þetta gæti þvælst fyrir og menn hefðu átt að reyna að leita leiða til að tryggja það sem þeir vilja tryggja en ekki setja óeðlileg höft á það að menn geti sótt sér fjármagn til að byggja upp atvinnugreinina.

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt og þess tíma sem nefndin hefur þó tekið í þetta mál — hún hefur lagt mikla vinnu í það og einnig nefndarritari — var það mat allra að menn mundu vilja fá þessi lög í gegn. En jafnframt, og það kemur fram hjá þeim sem skrifa undir nefndarálitið, er talið nauðsynlegt að endurskoða lögin um skeldýrarækt innan þriggja ára og að rétt sé að ráðherra geri það. Hafi það haft þann endi að lögin hafi ekki náð framangreindum markmiðum verði í því frumvarpi lagður nýr grundvöllur að skeldýrarækt á Íslandi. Ég gæti svo sem lagt til að ráðuneytið færi strax að undirbúa það og þá á grundvelli þess sem hér hefur verið rætt um að byggja á skipulagslögum en ekki því flækjustigi umsagnaraðila sem hér er miðað við, þ.e. að hver ríkisstofnunin á fætur annarri eigi að veita umsögn þar til ein þeirra veiti að lokum leyfi.

Frú forseti. Ég stend ekki að þessu máli en ég styð það þrátt fyrir að á því séu allnokkrir gallar. Ég velti því vissulega fyrir mér hvort þetta séu góð lög en ég vona að efasemdir mínar séu ekki á rökum reistar. Ég vona að skeldýraræktin muni blómstra á grundvelli þessara laga. Ef ekki munum við verða fljót til þess hér á þinginu að setja ný lög með nýjum ramma.