Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 19:54:39 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[19:54]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi aðhaldskröfu á kirkjuna held ég að þetta sé hárrétt leið. Það er gott að vita að um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Eins og ég skil málið veitist engu að síður kirkjunni um leið tækifæri til þess að skoða skipulag sitt varðandi það hversu stórar sóknirnar eiga að vera og hvort það eigi að sameina þær þannig að það er líka ákveðið tækifæri fyrir kirkjuna til að endurskipuleggja sig. Vonandi gerist hún þá enn kröftugri.

Ég fagna líka sérstaklega því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. þm. Róberti Marshall að samstarf kirkjunnar og skóla í gegnum áratugi hafi verið farsælt. Við höfum fram til þessa verið sammála um að það eigi ekki að vera trúboð í skólum en við eigum að treysta skólunum til að halda áfram með það góða samstarf sem hefur verið milli kirkjunnar og skólanna en ekki loka á það eins og mér finnst mannréttindaráð borgarinnar vera að gera. Í rauninni tekur borgarfulltrúi og sóknarprestur í borgarkerfinu, fulltrúi Samfylkingarinnar í velferðarráði, undir þetta og setur fram mjög harða gagnrýni á mannréttindaráð borgarinnar. Hann segir, með leyfi forseta:

„Með þessum tillögum er stjórn borgarinnar og Samfylkingin sem stórt stjórnmálaafl að rjúfa trúnað við margfalt stærri hóp kjósenda sinna en mannréttindaráð gerir sér nokkra grein fyrir. Stjórnmálaflokkur sem ætlar að vera stór og umfaðma íslenskan veruleika getur ekki haft svona göngulag.“

Síðan segir hann:

„Hér er á döfinni miklu stærra menningarslys en fólk virðist almennt vera að sjá og skilja.“

Mér finnst gott að finna, ef ég hef skilið orð hv. þm. Róberts Marshalls rétt, að hann eigi sér samherja hér á þingi.