Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 20:55:20 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:55]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það hryggir mig ef hv. þingmaður telur að samstarf skóla og kirkju hafi ekki verið farsælt og ekki verið gott. Það getur vel verið að það hafi verið einhver undantekningartilvik í gegnum tíðina en þau eru mjög fá.

Varðandi fermingarfræðsluferðirnar þá er þetta gert með leyfi foreldra. Það er ekki skólastjórinn sem ákveður þetta eftir kröfu kirkjunnar. Skólastjórinn ákveður þetta í samvinnu við foreldra. Ef það er þannig að þeir nemendur sem fara ekki í fermingarfræðsluferðirnar hafa ekki fengið fræðslu eða aðra þjónustu þá af hálfu skólans þá er það eitthvað sem þarf að skoða. En samstarf kirkjunnar og skólans hefur verið gott. Það er um fræðslu að ræða, þetta er ekki trúboð. Menn hafa sérstaklega passað upp á það, ég held kirkjan ekki síst, hún veit hvað til hennar friðar heyrir í þessu.

Mig langar til að koma inn á aðra þætti, spurninguna um Gideonfélagið. Er hv. þingmaður á því að koma eigi í veg fyrir dreifingu Gideonfélagsins til margra áratuga á Nýja testamentinu í skólunum? Er það svo mannskemmandi fyrir börnin okkar að þau fái — mig minnir að það sé í 10 ára bekk frekar en 11 ára bekk, báðir eldri drengirnir mínir, 11 og 15 ára, hafa fengið það, en dóttir mín, 7 ára að verða 8 ára, ekki enn — þessa gjöf? Er það svo slæmt? Ég held að við séum komin inn á varhugaverðar brautir ef við ætlum að fara, eins og ég skil hv. þingmann, að stroka yfir sögu okkar sem kristinnar þjóðar. Því það eru órjúfanleg tengsl milli kristninnar og þess sem hefur verið gert í Íslandssögunni í gegnum tíðina — margt örugglega ekkert gott, ekkert alltaf — en það eru tengsl. Ef við skoðum Íslendingasögurnar, ef við skoðum miðaldasöguna, ef við skoðum síðustu árin, sjálfstæðisbaráttuna, (Forseti hringir.) allt þetta, allt sem stendur meðal annars í löggjöfinni okkar, er í beinum og óbeinum tengslum við það að við erum kristin þjóð.