Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar

Fimmtudaginn 09. júní 2011, kl. 20:59:45 (0)


139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði mér ekki að koma aftur í ræðu í þessu máli en þær umræður sem ég hef hlýtt á að undanförnu gefa mér tilefni til þess að segja fáein orð.

Í fyrsta lagi vil ég taka fram þá afstöðu mína að ég tel að mikilvægt sé að í grunnskólum fari fram almenn trúarbragðafræðsla þar sem gerð er grein fyrir helstu trúarbrögðum og þau kynnt fyrir nemendum. Ég hygg að um það sé ekki ágreiningur milli okkar sem höfum tekið þátt í umræðunni að því leyti. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þegar við mótum afstöðu okkar til þessara efna hljótum við auðvitað að horfa á það að kristin trú og kristin kirkja er veigamikill þáttur í þjóðlífi okkar, mjög mikill þáttur. Þess vegna tel ég að ekki sé hægt að reikna með því að önnur trúarbrögð, sem í samfélagi okkar eru vissulega til staðar en eru þá mikil minnihlutatrúarbrögð, hafi sömu áhrif og sömu mótandi áhrif og kristin trú og kristin kirkja. Ég held að við getum ekki látið eins og við séum ekki kristin þjóð og höfum ekki verið það síðustu þúsund árin.

Þetta nefni ég m.a. vegna þeirra orðaskipta sem áttu sér stað milli þingmanna áðan út af gjöf Nýja testamentisins. Nýja testamentið er trúarrit kristinna manna. Nýja testamentið er hins vegar líka klassískt bókmenntarit sem hefur gríðarlega margar skírskotanir út um alla okkar menningu. Það að kynna sér Nýja testamentið er ekki bara spurningin um það tileinka sér kristna trú, heldur líka að vera læs á menningu okkar Íslendinga, vestræna menningu, menningu þess samfélags sem við búum í. Þó að menn hafi ekki áhuga á kristinni trú, vilji ekki tileinka sér hana, vilji ekki vera kristnir, bíða menn engan skaða af því að kynna sér Nýja testamentið til þess að vera læsir á það samfélag sem þeir búa í.

Hugsið ykkur dæmisögurnar. Hugsið ykkur allar þær skírskotanir út um allt okkar samfélag sem eiga sér rætur í Nýja testamentinu, svo dæmi sé tekið. Nýja testamentið hefur þannig hlutverk í samfélagi okkar og menningu með sama hætti og t.d. Íslendingasögurnar eða Snorra-Edda. Mundum við segja að kynning á Gylfaginningu í skólum landsins væri heiðið trúboð? Auðvitað ekki. Ég mundi fagna því ef einhver samtök í landinu gæfu öllum skólabörnum Snorra-Eddu, Gylfaginningu, af menningarlegum ástæðum. Ég mundi fagna hverjum þeim samtökum sem væru til í að gera það. Þannig mundi ég álíta að það væri fagnaðarefni fyrir okkur að taka á móti Gídeonsamtökunum í skólum landsins og gefa þeim kost á að gefa börnum þessa gjöf, með sama hætti og ef einhverjir byðu sig fram til þess að gefa einhver önnur slík rit sem hafa jafnmikla skírskotun til okkar menningar, þá teldi ég það fagnaðarefni. Það er ekkert að því.

Við verðum, hæstv. forseti, að gæta okkar í því að missa ekki sjónar á veruleikanum, missa ekki sjónar á því samfélagi sem við búum við. Við megum ekki vera svo blinduð af einhverjum pólitískum rétttrúnaði, pólitískri rétthugsun að við horfumst ekki í augu við okkar eigið samfélag.

Ég minnist þess að hafa kynnt mér m.a. skrif um pólitíska rétthugsun í Bretlandi fyrir sennilega 15–20 árum, ég man það ekki alveg, eftir ungan fræðimann á sviði stjórnmálafræði. Mér er það minnisstætt hvernig hann dró fram ýmis sérkennileg dæmi um það þegar menn einhvern veginn eru svo sannfærðir um að allt sem er partur af menningu okkar, partur af samfélagi okkar, sé einhvern veginn þannig að við eigum að skammast okkar fyrir það. Menn geta misst sig gersamlega í því.

Ég tel í þessu sambandi að við verðum að gæta þess að virða sjónarmið og trúarbrögð eða trúleysi þeirra sem hafa slíkar skoðanir, þeirra sem hafa slíka afstöðu, trúarafstöðu eða lífsafstöðu, við verðum að virða það. Við þurfum að gera ráð fyrir því að skólakerfið í landinu sýni fullkomið umburðarlyndi og víðsýni í þessum efnum og tillitssemi. Við megum hins vegar ekki missa okkur einhvern veginn út í það að í því felist að loka eigi á allt sem tengist kirkju og kristni. Við megum ekki missa okkur út í það. (Gripið fram í: … banna litlu jólin.) Það er nú búið að bakka, fyrst hv. þingmaður nefndi það, með takmarkanirnar á jólasálmunum á litlu jólunum og það er út af fyrir sig fagnaðarefni.

Ég held að þó að það tengist ekki þessari umræðu nema að litlu leyti …

(Forseti (ÁI): Forseti óskar eftir því að þingmenn hafi hljóð í salnum meðan ræðumaður er að tala.)

… þá tel ég að við megum ekki missa sjónar á okkar eigin menningu, við megum ekki missa sjónar á þeim trúarbrögðum sem hafa haft mótandi áhrif á samfélag okkar í þúsund ár. Það að sýna kirkju og kristni ræktarsemi þarf ekki að vera í neinni mótsögn við umburðarlyndi og tillitssemi gagnvart þeim sem hafa önnur trúarbrögð eða aðrar lífsskoðanir en meiri hlutinn í okkar landi.