Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:13:03 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum nefndarálit um frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál og tollalögum, með síðari breytingum. Er um að ræða fjögur álit frá hv. efnahags- og skattanefnd.

Ég ritaði undir nefndarálit 3. minni hluta og þar segjum við í lokin að hér gæti verið um að ræða ein alvarlegustu hagstjórnarmistök í gjörvallri Íslandssögunni. Við leggjum til að frumvarpið verði alls ekki samþykkt. Það er ekki að ástæðulausu sem þessi orð falla, frú forseti.

Gjaldeyrishöft eru sett til að lækna ákveðin mein og það er svipað og að gefa sjúklingi heróín, það læknar sársaukann, minnkar hann í bili, en menn þurfa að gæta sín vel á því að gera það ekki of lengi því að þá verður sjúklingurinn háður lyfinu og það verður sífellt erfiðara að lækna og aflétta lyfinu. Ég held að við séum núna komin í þá stöðu að það sé orðið erfitt að aflétta gjaldeyrishöftunum.

Gjaldeyrishöftin hafa mjög hamlandi og skaðleg áhrif á til dæmis fjárfestingar útlendinga. Þær hafa líka mjög skaðleg áhrif á fjárfestingar Íslendinga vegna þess að menn hugsa að ef hér verða gjaldeyrishöft lengi séu þeir hamdir í athafnasemi sinni þar sem þeir geta ekki flutt umsvif sín til útlanda. Síðan byrja borgararnir að finna alls konar leiðir fram hjá gjaldeyrishöftunum, hvernig þeir geti brugðist við. Alls konar svindl kemur upp. Sumum tekst að komast fram hjá ákvæðum laganna. Þess vegna höfum við eiginlega stöðugt þurft að breyta þessum lögum til að fylla upp í gloppur sem klókir borgarar hafa fundið á þeim til að komast fram hjá þeim. Það er nefnilega mikið í húfi og mikill hagnaður sem menn geta fengið.

Það sem menn hafa talað um ef við afléttum gjaldeyrishöftunum nú þegar — ég vil minna á það, frú forseti, að þau voru ætluð til skamms tíma. Hæstv. efnahagsráðherra sagði það í ræðu sinni þegar hann flutti málið að þau ætti að standa í stuttan tíma. Þeim ætti að minnsta kosti að létta þegar AGS færi af landi brott. Það sagði hann í framsöguræðu sinni og í trausti þess samþykkti ég þessi gjaldeyrishöft á sínum tíma. Ég hélt að þeim yrði aflétt eins fljótt og hægt væri. Nú er lagt til að festa þau í sessi í fjölda ára. Hvaða afleiðingar hefur það? Það hefur þær afleiðingar, frú forseti, að þeir sem eiga að vinna að því að aflétta höftunum geta slakað á, þeir geta andað léttar og sagt: Jæja, nú hef ég þetta langan tíma til að aflétta höftunum.

Ef við mundum aflétta höftunum á morgun gæti ýmislegt gerst. Menn vita ekki fyrir fram hvað muni gerast. Þetta er líkindareikningur, frú forseti. Hvað kemur inn í þann líkindareikning? Það eru væntingar borgaranna um framtíðina, hvernig gjaldeyririnn muni þróast í framtíðinni. Hér kom fram í umræðunni í gær, og ég leiðrétti það aftur og aftur, að gengið mundi falla ef höftunum yrði aflétt. Það er alls ekki víst. Sumir segja að gengið muni falla fyrstu vikurnar og mánuðina og síðan rísa aftur. Já, en almáttugur, þá fellur það ekki neitt vegna þess að ef menn hafa þá trú að gengið muni rísa aftur kaupa þeir að sjálfsögðu krónur á þeim tíma, þeir sem það geta. Sú hugsun að það sé einhvern veginn vitað að gengið muni falla og svo muni það rísa segir okkur að það muni ekkert falla. Ef menn vita að það muni rísa og ná sömu stöðu aftur fellur það ekki neitt. Það eru ákveðnar líkur á því að gengið á krónunni muni jafnvel styrkjast við afnám gjaldeyrishaftanna vegna þess að laun, eignir og skuldir á Íslandi eru orðnar fáránlega lágar miðað við til dæmis evrulandið, miðað við dollaralandið, miðað við stöðu erlendis. Skuldir hafa lækkað mjög mikið vegna þess að krónan hefur veikst. Sparisjóðseignir hafa lækkað mjög mikið, fasteignir hafa lækkað mjög mikið í evrum o.s.frv. Þetta er orðið mjög eftirsóknarvert fyrir erlenda aðila og þá Íslendinga sem hafa búið lengi erlendis að hoppa hingað inn og kaupa ódýrar eignir ef höftunum er aflétt. Það vinnur á móti því að gengið falli.

Hér er sýknt og heilagt talað um skuldara, frú forseti, það talar enginn um að sparifjáreigendur eru núna að tapa í stórum stíl í bönkunum, 80% af innstæðum eru óverðtryggðar og hæstu vextir eru 2,5%. Svo eru þeir skattlagðir og það í 5% verðbólgu. Sparisjóðsinnstæður rýrna núna í hverjum einasta mánuði og það talar enginn um það. Menn hafa haft áhyggjur af því að verðtryggð lán muni hækka, að ef gengið fellur og verðlag hækkar hækki verðtryggð lán. Menn hafa ekki áhyggjur af framfærslu fjölskyldunnar sem líka verður miklu erfiðari.

En við skulum snúa okkur að verðtryggingunni. Það er dálítið athyglisvert, frú forseti, að í sögu mannkynsins hefur gjaldmiðillinn yfirleitt verið verðtryggður. Einu sinn var notast við vaðmál og kýrverð, myntin bundin við verð á ákveðnum vörum, t.d. einni kú eða vaðmáli. Síðan kom gullið til sögunnar og dollarinn var lengi vel viðmið. Lengst af hefur dollarinn verið bundinn við gull, þ.e. hann er verðtryggður miðað við verð á gulli. Hann var verðtryggður þangað til bindingunni var aflétt upp úr 1970 og eftir það höfum við haft óverðtryggðar myntir. Þangað til höfðum við eiginlega verðtryggðar myntir um allan heim. Ég vildi koma því að að áhrifin á verðtrygginguna þurfa ekki endilega að vera slæm, ekki ef menn koma um leið með góða efnahagsstefnu, virkilega framtíðarsýn, að svona viljum við sjá Ísland eftir 5–15 ár og að við ætlum að nota ákveðnar eignir sem landið á til að borga niður skuldir ríkissjóðs. Ríkissjóður á gífurlegar eignir sem menn hafa ekkert rætt um að selja, ég er að tala um Landsvirkjun sem mætti kljúfa niður í mörg fyrirtæki og selja einstök eftir að hafa gert við þau samning um leigu á auðlindinni, t.d. í 40 ár. Eftir 40 ár gætum við komið og selt auðlindina aftur. Þetta gætum við gert og haft svona framtíðarsýn, auk þess sem ríkissjóður á að vera rekinn með afgangi og einstaklingar, fyrirtæki og aðrir eiga yfirleitt ekkert að kaupa nema staðgreiða það. Það er tvennt sem ég tel að einstaklingar eigi að taka lán fyrir, fasteignin sem þeir búa í sem er langtímafjárfesting og námið sem þeir fara í sem er líka langtímafjárfesting. Fyrir hvoru tveggja eiga menn að taka lán. Allt annað á einstaklingurinn yfirleitt að staðgreiða. Ef þetta yrði tekið upp og ríkissjóður rekinn með afgangi, sveitarfélögin sömuleiðis og fyrirtækin rækju sig með áhættufé en ekki lánsfé yrðu Íslendingar eftir svona 10–15 ár orðnir skuldlausir og þá hyrfi allur vandi vegna gjaldmiðils. Það hefur enginn áhyggjur af gjaldmiðli þegar Ísland verður orðið skuldlaust erlendis. Þá verður ekki hægt að gera neitt áhlaup á krónuna eða hvaða mynt sem við munum hafa tekið upp á þeim tíma. Það sem meira er, við getum hreinlega keypt þá mynt. Ef við ættum innstæður í útlöndum tækjum við bara upp evru ef okkur langaði til dæmis til þess, við gætum keypt hana, þyrftum ekki að spyrja Evrópusambandið eða nokkurn einasta mann. En ég bendi á að um leið og við tækjum upp erlenda mynt yrði fólk að sýna miklu meiri aga í fjármálum. Það gæti ekki lengur tekið 100% lán fyrir íbúð. Það gæti ekki keypt sér bíl með 100% láni. Það er fráleitt þannig að það að taka upp erlenda mynt með þessum hætti, eða hvaða hætti sem er, þýði að um leið þurfi menn að taka upp mikinn aga í fjármálum. Það er einmitt það sem vantar svo illilega hér á landi, agi í fjármálum, en kannski hefur hrunið kennt okkur að það er betra að eiga innstæðu en skulda og sérstaklega að vera í vanskilum.