Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:23:27 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu hv. þingmanns kom mjög greinilega fram hvaða áhrif gjaldeyrishöftin hafa haft á íslenskt efnahagslíf og munu hafa í fyrirsjáanlegri framtíð. Ég velti fyrir mér hvaða mat hv. þingmaður leggur á þá stöðu sem við erum í í dag, hvernig við gætum aflétt þessum höftum og hvort við hefðum getað verið í allt annarri stöðu ef stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum hefði verið með þeim hætti sem við höfum talað fyrir og margir aðrir í samfélaginu, að skapa fleiri störf, vera með virka atvinnustefnu og sýna auk þess aga í ríkisfjármálum. Reyndar kom það að nokkru leyti fram hjá hv. þingmanni. Ríkisstjórnin hefði getað hagað sér með öðrum hætti á sviði efnahagsmála á undangengnum tveimur árum.

Ég vil nefnilega kenna arfavitlausri stefnu stjórnarinnar um þá stöðu sem við erum í í dag. Horfum á tugmilljarða króna fjárfestingu sem gæti til að mynda verið búin að eiga sér stað í sjávarútveginum sem hefur verið haldið í algjörri spennitreyju. Sú atvinnugrein veit eiginlega ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Þess vegna hafa forustumenn í þessari stærstu atvinnugrein landsins haldið að sér höndum og þess vegna hefur fjárfesting í greininni verið tugum milljarða króna lægri en ella hefði orðið. Allt er þetta ástæða þess að við stöndum í þessum sporum í dag. Ef við höldum áfram með þessa stefnu, að óvissa ríki um grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar auk þess sem viðhorf stjórnarinnar drepur niður nýfjárfestingu í virkjanamálum og annarri atvinnuuppbyggingu, spyr ég: Munum við þá ekki sjá fram á það að höftin verði fest áfram í fyrirsjáanlegri framtíð?