Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:30:11 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður velti þarna upp mjög athyglisverðri spurningu, þeirri hvort höftin veiki gengið á krónunni sem þeim er þó ætlað að styrkja. Hvað segja höftin við bæði Íslendinga og erlenda menn? Þau segja að stjórnvöld treysti ekki krónunni. Það þarf að setja hana í höft til að hún falli ekki enn meira. Það segir að það er ekki traust á krónunni hjá stjórnvöldum og afleiðingin er sú að það er heldur ekki traust á krónunni hjá almennum borgurum, innlendum og erlendum. Þetta gerir það að verkum að gengið getur fallið meira í höftum en án þeirra.

Síðan spurði hv. þingmaður hvort gjaldeyrishöftin þurrkuðu ekki upp atvinnulífið. Að sjálfsögðu gera þau það. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur sett sig í spor fjárfestis sem er að leita að góðum fjárfestingarkostum um allan heim og á Íslandi, frú forseti, eru glimrandi góð fjárfestingartækifæri, hafa verið og eru alveg sérstaklega núna. Hvað mundi hann hugsa sem erlendur fjárfestir? Hann mundi segja: Þarna eru gjaldeyrishöft, ef ég set peninginn minn þarna inn getur vel verið að ég fái hann aldrei aftur af því að Íslendingar breyta gjaldeyrishöftunum. Þeir hafa kannski einhverja smugu núna en svo loka þeir henni.

Menn sjá líka tilviljanakennda framkvæmd og gífurlegar breytingar á skattalögum þannig að gjaldeyrishöftin í sjálfu sér þurrka sannarlega upp atvinnulífið.

Innlendir aðilar sem eiga krónur, og þeir eru einhverjir, reyna náttúrlega með öllum ráðum að koma krónunum sínum út, vera ekki bundnir í þessum gjaldeyrishöftum. Allir þessir ferðamenn sem eru á gangi um bæinn þurfa að skipta evrum úti um allt og dollurum. Ég sá í Hagkaupum um daginn að á undan mér var kona sem borgaði með evrum. Hvað varð um þær?