Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:32:25 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir ágæta ræðu um gjaldeyrishöftin. Hann sakaði núverandi ríkisstjórn um skort á framtíðarsýn og ég er ekki alveg sammála því. Framtíðarsýnin er áætlun AGS og ríkisstjórnarinnar um afnám hafta og hún felur í sér að ákveðnu magni aflandskróna verði leyft að fara út úr hagkerfinu á löngu tímabili og til þess að koma í veg fyrir að þetta útstreymi leiði til gengislækkunar á að hækka stýrivexti. Með öðrum orðum erum við á leiðinni í vaxtahækkunarferli til þess að geta afnumið þessi gjaldeyrishöft sem reyndar á að setja í lög með því frumvarpi sem við ræðum núna. Það á að setja í lög hvernig útfærslan er nákvæmlega á gjaldeyrishöftunum en á sama tíma er gert ráð fyrir að þau verði afnumin með áætlun sem felur í sér vaxtahækkunarferli.

Frú forseti. Ég mundi gjarnan vilja fá álit hv. þingmanns á þessari áætlun. Hvað finnst honum um þær fyrirætlanir að vextir fari hér hækkandi? Hvaða áhrif telur hann að það muni hafa á íslenskt atvinnulíf? Ég vil jafnframt fá að vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um að þetta sé alröng aðferðafræði við að losa okkur undan gjaldeyrishöftunum sem hafa verið hér og voru reyndar sett af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.