Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 11:38:54 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[11:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst ætla ég að svara þessu með vaxtahækkunarferlið. Í gjaldeyrishöftum þarf ekkert háa vexti. Seðlabankinn ætti náttúrlega meðan gjaldeyrishöftin standa að lækka vexti til að setja atvinnulífið í gang. Með gjaldeyrishöftum er maður lokaður frá umheiminum og getur lækkað vexti án þess að óttast að hér streymi út gjaldeyrir, hann fer ekkert út, heldur mundi það í hæsta lagi auka framkvæmdir. Það er alröng aðferð að hækka vextina í gjaldeyrishöftunum en um leið og gjaldeyrishöftin yrðu lækkuð ættu menn að fara í vaxtahækkunarferli ef þörf er á.

Varðandi stöðu heimilanna og greiðslumat heimila þegar menn taka lán og öll lán eru núna meira og minna verðtryggð, engin gengistryggð lengur, er í flestum tilfellum miðað við að húsnæðiskostnaður sé um þriðjungur af útgjöldum heimilisins. Afgangurinn, tveir þriðju, er líka mjög veigamikill. Bleiurnar hækka í verði ef gengið hækkar, ekki bara lánið. Menn gleyma þessu alltaf, að öll neysla hækkar ef neysluverðsvísitalan hækkar. (LMós: Hvernig á þá að borga lánin?) Þess vegna þurfum við að tryggja að krónan falli ekki og við þurfum að trúa því og við þurfum að koma með stefnu sem segir eigendum þessarar snjóhengju sem hangir yfir okkur og allir óttast svo ógurlega: Bíðið andartak, þetta lagast. Þeir eru nefnilega búnir að bíða í þrjú og þeir munu bíða áfram. Þeir munu ekki skipta krónunni fyrir evrur á hvaða gengi sem er, kannski einstaka krónueigendur en þá mun krónan taka litla dýfu fyrst og ég er viss um að margir muni fylla upp í þá dýfu með því að kaupa krónur af því að þeir vita að hún mun styrkjast á eftir. Það er nefnilega þannig að ef menn hafa góða framtíðarsýn, sem menn treysta, mun gengið ekki falla öllu meira. Það er nú þegar mjög lágt.