Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:01:14 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:01]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birki Jóni Jónssyni er kannski vorkunn að vera beðinn um að útskýra málflutning þingmanna Samfylkingarinnar sem stangast svo hróplega á á innan við klukkutíma hér úr ræðustól þingsins og í almennri umræðu á þinginu. Það var kannski ekki sanngjarnt af mér að biðja hann um að útskýra (BJJ: Mjög ósanngjarnt.) hvernig komið er fyrir Samfylkingunni í umræðu um fjárfestingar á Íslandi.

Hv. þingmaður spurði mig að því hvort ég hefði ekki áhyggjur af því að gjaldeyrishöftin yrðu framlengd eftir árið 2015. Ég get alveg lýst því hér yfir að ég hef verulegar áhyggjur af því að með óbreyttri stjórnarstefnu og óbreyttri ríkisstjórn verði ekki staðið við það að afnema gjaldeyrishöftin. Þessari ríkisstjórn hefur lánast að svíkja nánast öll þau loforð sem hún hefur gefið. Eins og staðan er hefur ríkisstjórnin ekki trúverðuga áætlun um það með hvaða hætti hún ætlar að losa um gjaldeyrishöftin.

Ég held að framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins hafi lýst þessu ágætlega á fundi um gjaldeyrishöftin sem haldinn var hér í Reykjavík í gær þar sem hann líkti gjaldeyrishöftunum við Íraksstríðið, þ.e. það var auðvelt að komast inn, það var auðvelt að ráðast inn í landið og steypa harðstjóranum af stóli en síðan vissu menn ekkert hvernig þeir áttu að koma sér út úr þeim vanda (SII: Ykkur þótti það nú lítið mál.) sem þeir höfðu komið sér í. Það sama á við um gjaldeyrishöftin. Menn settu þau á og við tókum auðvitað þátt í því á þeim tíma en það var gert til skamms tíma. En nú erum við með ríkisstjórn í landinu sem veit ekkert í sinn haus og hefur ekki hugmynd um með hvaða hætti hún á að komast út úr þessu haftakerfi. (Forseti hringir.) Ég deili því áhyggjum hv. þingmanns um að verði þetta frumvarp að lögum þá verði gjaldeyrishöftin (Forseti hringir.) framlengd eftir árið 2015.