Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:08:14 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála greiningu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar á þessum neikvæða spíral sem við erum komin í vegna þess að efnahagsstefnan hefur frá hruni verið röng. Efnahagsáætlun AGS tók ekki mið af þörfum fyrirtækja og heimila. Þess vegna var farið í það þegar AGS kom hingað inn að hækka vaxtastigið sem gerði náttúrlega algerlega út um alla fjárfestingu í atvinnulífinu. Síðan var Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn á móti almennum leiðréttingum lána heimilanna sem þýddi það að eftirspurn í hagkerfinu varð miklu minni en annars hefði orðið.

Mín lausn á gjaldeyrishöftunum gengur út á það að lækka hér vexti verulega og hafa þá í samræmi við stöðu eða efnahagsreikning fyrirtækja og heimila. En til að koma í veg fyrir mikla gengislækkun þarf að takmarka útstreymi fjármagns og það er bara hægt, frú forseti, með því að leggja skatt á útstreymið. Margir telja að það sé ekki hægt vegna þess að við erum bundin af alþjóðasamningum en ef við kynnum þetta sem leið til að afnema höftin á krónunni og leið til að koma krónunni inn á frjálsan gjaldeyrismarkaði trúi ég því, frú forseti, að nágrannaþjóðirnar eða þær þjóðir sem eiga við okkur viðskipti muni sætta sig við þessa leið. Þess vegna tek ég undir orð sem hv. þm. Bjarni Benediktsson lét falla í gær um nauðsyn þess að endurskoða peningastefnu Seðlabankans og endurskoða hana þannig að hún verði í samræmi við það sem ég lýsti áðan.