Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:12:51 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:12]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er dæmalaust að við skulum standa hér á haustdögum árið 2011 og ræða enn frekari þrengingar á gjaldeyrishöftum, sér í lagi þar sem hin frjálslynda Samfylking er í ríkisstjórn sem ekkert aumt má sjá og ekki getur hugsað til þess að brjóta nokkrar Evrópureglur.

Ég hef nefnilega velt því fyrir mér undanfarna daga og í vor þegar þetta mál var á dagskrá að þetta er hreint og klárt brot á EES-samningnum.

Frú forseti. Ég á 20 mínútur, þetta er fyrsta ræða.

(Forseti (RR): Forseti mun þá breyta ræðutíma hv. þingmanns.)

Eins og alþjóð veit er fjórfrelsið einkenni EES-samningsins, og markmið og meginreglur hans eru að samstarfssamningurinn sem við köllum EES-samninginn skuli stuðla að stöðugri og jafnri eflingu viðskipta og efnahagstengsla samningsaðila við sömu samkeppnisskilyrði og eftir sömu reglum með það fyrir augum að mynda einsleitt Evrópuefnahagssvæði sem við köllum í daglegu tali EES-svæðið.

Til að ná þessu markmiði voru settar inn í fyrsta hluta samningsins þær skilgreiningar að þetta fæli í sér að það skyldu vera frjálsir vöruflutningar, frjálsir fólksflutningar, frjáls þjónustustarfsemi og síðast en ekki síst frjálsir fjármagnsflutningar.

Gjaldeyrishöft eru ekki til þess fallin að það eigi sér stað frjálst flæði fjármagns á milli landa, enda segir í 40. gr. EES-samningsins, með leyfi forseta, 4. kafla III. hluta sem fjallar um fjármagn:

„Innan ramma ákvæða samnings þessa skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða því hvar féð er notað til fjárfestingar. Í XII. viðauka eru nauðsynleg ákvæði varðandi framkvæmd þessarar greinar.“

41. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Gengar greiðslur í tengslum við þjónustustarfsemi, vöruflutninga, fólksflutninga eða fjármagnsflutninga milli samningsaðila innan ramma ákvæða samnings þessa skulu lausar við öll höft.“

Í 42. gr. segir:

„1. Ef beitt er innlendum reglum um fjármagnsmarkað og lánsviðskipti í fjármagnsflutningum sem höftum hefur verið létt af samkvæmt ákvæðum samnings þessa skal það gert án mismununar.“

Ég ætla að fara yfir þetta í ræðu minni, þetta brot á jafnræði bæði eftir þjóðerni sem og gagnvart öðrum ríkjum EES-samningsins.

Þegar lög nr. 134/2008, um breytingu á lögum nr. 87/1992, um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, voru sett strax eftir hrunið, lögin sem urðu til þess að hér voru tekin upp gjaldeyrishöft, kom í ljós að farið hefur verið yfir þessar alþjóðlegu skuldbindingar sem hræðsla var við að gjaldeyrishöftin mundu brjóta á. Þar er sérstaklega tiltekinn samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið þar sem kveðið er á um frjálst fjármagnsflæði. Það er rökstutt með því að hér hafi skapast mikið neyðarástand og að greiðslujöfnuður væri í hættu. Í frumvarpinu er vísað í 40. gr. og 41. gr og þar segir, með leyfi forseta —

(Forseti (RR): Forseti vill að gefnu tilefni upplýsa hv. þingmann um að þetta er framhald 2. umr. Þann 7. júní talaði þingmaðurinn sínar 20 mínútur og á því eingöngu 10 mínútur í dag.)

Þá er það meðtekið, frú forseti. Þegar umræða um mál sem koma inn í september er svo mikið dreifð er ekki nema von að þingmenn tapi sjálfir aðeins áttum í því hvað þeir eiga mikinn tíma eftir.

Þá verð ég að fara hraðar yfir þetta en ég ætlaði. Í frumvarpinu kemur fram að vegna neyðarástands hér á landi hafi gjaldeyrishöftin verið sett á og það var líka leitað álits hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, sem og Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í fljótu bragði var komist að því að þetta mundi ekki brjóta gegn frjálsu flæði fjármagns á þessari stundu, en síðan eru liðin þrjú ár og hér er lagt til að lengt verði í gjaldeyrishöftunum til 31. desember 2015. Hér er ekkert neyðarástand lengur. Hér er ekki sú brýna neyð sem var þegar gjaldeyrishöftin voru sett á og það væri óskandi að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra væri nú í þingsal til að ræða þessi mál við þingmenn. Mig hefði langað að beina þeirri spurningu til hans hvort búið væri að fá samþykki hjá ESA fyrir þessari lagasetningu. Þau eru ófá, frumvörpin sem hafa farið til ESA. Líklega er Alþingi Íslendinga að verða stærsti einstaki kúnninn hjá Eftirlitsstofnun EFTA því að hér eru samþykkt lög nánast í hverjum mánuði sem enda hjá úrskurðarnefndinni sem um ræðir. Það er mjög alvarlegt en hæstv. ráðherra er ekki hér til að svara þessari spurningu sem ég beini til hans. Það er grundvallaratriði að ESA viti af því að hér er verið að framlengja höftin og vita hvort þeir eru búnir að gefa grænt ljós á það. Annars fer þetta í úrskurðarferli og verður þá jafnvel dregið til baka.

Auðvitað tengist þessi umræða um gjaldeyrishöftin líka skýrt því svari sem ég fékk frá efnahags- og viðskiptaráðherra í gær um innflutning á aflandskrónum. Það vill þannig til að Seðlabankinn treysti sér ekki til að svara þessu og vísaði í bankaleynd þar sem hann telur sig ekki þurfa að upplýsa um hverjir hafa fengið að flytja inn aflandskrónur til fjárfestinga hér á landi og um hvaða fjárhæðir er að ræða. Ég óskaði eftir því að svarið yrði sundurliðað eftir innlendum og erlendum einstaklingum og innlendum og erlendum fyrirtækjum. Eina svarið frá Seðlabankanum var að hér voru fluttir inn árið 2010 tæpir 12 milljarðar kr., heildarfjárhæð innstreymis. Ég get ekki fundið rökstuðning hjá Seðlabanka Íslands fyrir því af hverju bara árið 2010 kemur fram í svarinu og því hef ég lagt framhaldsspurningu fyrir efnahags- og viðskiptaráðherra sem verður vonandi dreift í þinginu í dag. Þar fer ég fram á að vita um heildarfjárhæð innstreymis gjaldeyris frá því að gjaldeyrishöftin voru sett og allt til dagsins í dag, sundurliðað eftir árum. Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því hverjir það eru — við fáum náttúrlega ekki svör við því hverjir fá þá undanþágu að flytja inn aflandskrónur, en samkvæmt 15. gr. laga um gjaldeyrismál kemur fram að Seðlabankanum sé óheimilt að gefa það upp hverjir þetta eru og það þurfi að fá dómsúrskurð til að vita það.

Þetta skiptir mjög miklu máli í íslensku atvinnulífi og þetta er klárt brot á jafnræðisreglu fyrst gegnsæið er ekki meira. Það er undir seðlabankastjóra og seðlabankastjórninni sjálfri komið hverjir eru útvaldir til að mega nota aflandskrónur hér á landi. Það hlýtur að vera um nokkra einstaklinga eða nokkur fyrirtæki að ræða fyrst þessi upphæð var um 12 milljarðar árið 2010. Það er bagalegt að þetta skuli ekki vera gegnsærra og það skapar mjög mikla tortryggni hjá þeim aðilum sem eiga aflandskrónur að sumir fá og aðrir ekki. Þessar ákvarðanir Seðlabankans eru algjörlega órökstuddar enda er í áliti frá Viðskiptaráði Íslands tekið undir þessa tortryggni. Í því segir, með leyfi forseta:

„Hægt er að fá undanþágu frá gjaldeyrishöftunum við ákveðnar aðstæður. Hins vegar er það ferli langt og óskýrt auk þess sem oft og tíðum virðist gæta misræmis í úrskurðum [Seðlabankans]. Dæmi eru um að meðferð mála hafi tekið um eitt ár hjá Seðlabankanum, sem verður að teljast óásættanlegt. Þá eru úrskurðir um undanþágur ekki birtir sem gerir það að verkum að markaðsaðilar geta ekki gert sér grein fyrir því hvaða forsendur teljast nægjanlegar eða nauðsynlegar svo undanþága sé veitt. Veldur þetta óvissu varðandi það hvað teljist heimilt í raun og er til þess fallið að skekkja samkeppnisstöðu í rekstri.“

Það gefur augaleið að þetta skekkir mjög samkeppnisstöðu aðila á markaði. Sú ákvörðun að framlengja gjaldeyrishöftin til 2015 á sér líklega grunn í því að Samfylkingin er í ríkisstjórn og eins og flestir vita er markmið Samfylkingarinnar að koma íslensku þjóðinni inn í ESB. Það liggur fyrir að hæstv. utanríkisráðherra hefur talið að samningar ættu að liggja fyrir árið 2013 og þá hjálpar þetta til við að pína fólk til að vera jákvætt gagnvart Evrópusambandinu og evrunni sjálfri. Ríkisstjórnin ber fulla ábyrgð á þessu frumvarpi og verði það að lögum verður fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar (Forseti hringir.) að afnema þessi gjaldeyrishöft og taka upp þá leið forstjóra Kauphallarinnar að létta gjaldeyrishöftum á níu mánuðum.