Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:49:06 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:49]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi síðari spurninguna sem hv. þingmaður varpaði fram í fyrra andsvari sínu varðandi 80% regluna í n-lið 13. gr. í frumvarpinu verð ég að segja að ég hef svo sem ekki kortlagt hvaða fyrirtæki það eru sem falla undir það ákvæði. Hins vegar er þar um að ræða undanþáguheimild sem er mjög hættuleg og veldur a.m.k. hættu á því að í kerfinu þrífist spilling.

Ég er sammála þeirri túlkun hv. þingmanns að með því að útfæra regluna með þessum hætti felist í því hvati fyrir íslensk fyrirtæki til þess að afla sér tekna erlendis frekar en hérlendis. Þar með er ríkisvaldið með beinum hætti að flæma rekstur íslenskra fyrirtækja, a.m.k. að hluta, til útlanda og verður þar af leiðandi af skatttekjum og starfsemi sem (Forseti hringir.) annars mundi þrífast hér á landi. Ég finn bara ekkert skynsamlegt við þetta allt saman.