Gjaldeyrismál og tollalög

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 12:55:11 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

gjaldeyrismál og tollalög.

788. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég hef kynnt mér tillögu Páls Harðarsonar um afnám gjaldeyrishaftanna. Hann kom m.a. á fund hv. efnahags- og skattanefndar og lýsti þeirri aðferðafræði sem hann vildi að yrði notuð við afnám haftanna. Ég er hins vegar ekki jafnbjartsýn á stöðu efnahagsmála og Páll Harðarson og hef áhyggjur af því sem ég fjallaði um áðan að gengi krónunnar muni falla og að jafnframt sé nauðsynlegt að afnema verðtrygginguna til að koma í veg fyrir aukna skuldsetningu heimila og fyrirtækja en það er ekki inni í áætlun hans.

Ég vil því spyrja: Er það stefna Sjálfstæðisflokksins að skattleggja á einhvern hátt útstreymi til að koma í veg fyrir gengisfall og setja þak á verðtrygginguna eða jafnvel afnema hana á því tímabili sem við erum að afnema höftin?