Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 23:16:33 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fjármálafyrirtæki.

696. mál
[23:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér er verið að fara yfir í títtnefndar tilskipanir. Hv. formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, fór nokkuð ítarlega yfir þær breytingar sem þarna er um að ræða. Ég ætla ekki að endurtaka það allt saman enda er engin ástæða til þess. Það er hins vegar með þetta mál eins og það sem við ræddum áðan, þ.e. ársreikningana, þessi mál tengjast því að við viljum bæta regluumhverfið og það umhverfi sem er hjá fjármálafyrirtækjum í landinu. Hér er ýmislegt sem er til bóta og ég ætla að tilgreina það sérstaklega.

Ég vil vekja athygli á því að núna verður sérstaklega gerð grein fyrir því í ársreikningi hvað liggur til grundvallar kaupaukagreiðslum eða kauprétti, eða eins og maður segir á íslensku; hvernig á að reikna út. Þar er hugsunin sú t.d. að ef menn gera eins og mér skilst að hafi verið gert fyrir hrun, þ.e. að borga starfsmönnum jafnvel kaupauka fyrir að veita lán — menn voru á prósentum við að lána; því hærra lán sem menn veittu, því hærri laun fengu þeir, sem er einn galnasti hvati sem ég hef nokkurn tímann heyrt um — verður það tekið fram í ársreikningi. Þá ættu vonandi öll viðvörunarljós að lýsa.

Einnig eru tilgreindar ýmsar launagreiðslur. Það verður þó vonandi ekki þannig að menn forðist vera tilgreindir, þ.e. að þeir vilji ekki vera lykilstarfsmenn og stjórnendur vegna þess að þá verði upplýst um launagreiðslur þeirra og þeir sæki þess vegna í önnur störf. Þá er nú til lítils unnið.

Síðan er eitt atriði sem hv. þingmaður fór yfir og taka átti út, þ.e. að ekki ætti að vera meiri áhætta en 800% af eiginfjárgrunni. Í stað þess að taka ákvæðið burtu eins og lagt er til í frumvarpinu, leggur 1. minni hluti til að hlutfallið lækki um helming og verði 400%.

Það má kannski segja, og það er allt saman rétt hjá hv. þingmanni, að það sé alltaf verið að bíða eftir heildarendurskoðuninni. En það breytir því ekki að við erum alltaf að breyta lögunum en tökum ekki á stóru þáttunum eins og nauðsynlegt er. Það er svolítið varhugavert að vera alltaf í einhverjum bútasaumi en klára ekki stóra málið sem snýst í þessu tilfelli bara um áhættuna. Hér um að ræða samþjöppunaráhættu og passa þarf að áhættan fari ekki yfir 800% af eiginfjárgrunni, það verði 400%. Við erum ekki búin að skoða það nægilega vel. Það kemur nákvæmlega inn á það sem við ræddum áðan, sem er kjarni málsins, þ.e. lykiltölur, ársreikningar og það sem menn nota til viðmiðunar í rekstri. Mikilvægt er að það gefi sem gleggsta mynd af starfsemi félagsins af áhættu sem leynist í starfsemi félaga.

Ég er sammála hv. þm. Pétri Blöndal í umræðunni á undan um að það er eitthvað sem ekki þolir bið.

Þrátt fyrir að það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að við erum búin að breyta mörgum af lögunum um fjármálafyrirtæki eigum við eftir að taka á stórum málum eins og þessum. Við eigum eftir að taka á því hvort þetta sé skynsamlegt og hvernig eigi að skipta upp í fjárfestingarbanka og viðskiptabanka. Við eigum eftir að fara yfir það og ganga frá lagasetningu um hámarkseign í fjármálafyrirtækjum sem mikið hefur verið rætt eftir hrunið. Ég nefni það sem ég man eftir í svipinn. Það er örugglega eitthvað sem ég gleymi í þessum efnum, enda hef ég þá afsökun, þótt ég sé nú ekkert ofsalega kvöldsvæfur maður, að ég er búinn að vera í þingstörfum frá því snemma í morgun og klukkan er að verða hálftólf nú þegar við ræðum þessi mikilvægu mál.

Í örstuttu máli tel ég að það sé margt gott í þessu máli, ég held ekki neinu öðru fram. En við þurfum að fara yfir ansi mikilvæga þætti málsins. Ég held að sé skynsamlegt hjá 1. minni hluta að taka þetta ekki út eins og lagt var upp með í frumvarpinu heldur að breyta því eins og kemur fram í greinargerðinni og hv. formaður nefndarinnar fór ágætlega yfir. En betur má ef duga skal. Ég hef ekki vissu fyrir því að við séum búin að girða fyrir þær hættur sem ollu okkur vandræðum og eru hluti af ástæðunni fyrir að hér varð bankahrun eins og í öðrum löndum. Við þurfum því að gera betur hér.

Ég hef áhyggjur af því að við vísum alltaf í heildarendurskoðunina sem ég veit ekki hvort er yfirleitt á leiðinni. Við erum búin að ýta málunum á undan okkur frá því að við byrjuðum að fjalla um þau eftir hrun. Það dugar ekki endalaust því að meðan við gerum það ýtum vandanum á undan okkur þó svo að ekkert bendi til þess á þessari stundu að nýtt bankahrun verði hér einn, tveir og tíu, eða annars konar hrun, þó að ástandið sé mjög alvarlegt á erlendum mörkuðum. Það bárust fréttir af því í dag að ótrúlegir hlutir áttu sér stað. Til dæmis tóku Svisslendingar upp á því að tengja svissneska frankann við evruna til að hjálpa til í gjaldeyrismálunum, og ýmislegt annað hefur gerst sem ég ætla ekki að fara yfir núna. Það eru viðsjárverðir tímar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og það kemur okkur öllum við. Það er mjög brýnt fyrir okkur að klára þau mál sem ég nefndi áðan.