Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 23:24:44 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fjármálafyrirtæki.

696. mál
[23:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Maður allt að því skammast sín fyrir að taka þátt í umræðum svona seint því að það tefur umræðuna að sjálfsögðu. En það er mikilsvert mál sem við ræðum nú. Við ræðum um lög um fjármálafyrirtæki, hvorki meira né minna, nokkuð sem stendur undir atvinnulífinu og fólk treystir fyrir innlánum sínum, sparnaði sem það er búið að klóra undan blóðugum nöglunum í allri kreppunni, jafnvel fólk sem er með lágar tekjur. Þess vegna skiptir verulegu máli, jafnvel þótt klukkan sé orðin svona margt, að menn ræði það pínulítið.

Hér er talað um eiginfjárþátt A. Í grunninn er það hlutafé sem félagið á. Ég ræddi áðan um það hvernig fyrirtæki geti átt hvert í öðru og búi til eigið fé. Ég er búinn að sýna fram á það með dæmum hvernig hægt sé að búa til eigið fé. Það var búið til eigið fé. Þetta er andsvar við því, hv. þingmaður sem ræðir hér um þessa hluti.

Ég spyr hann að því hvort hann hafi áttað sig á því að þessi 800% sem breyta á í 400% af eiginfjárgrunni, eru prósenta af þeim eiginfjárgrunni sem byggir á eigin fénu sem hægt er að búa til. Þess vegna er svo mikilvægt að menn fari í gegnum það hvernig þetta eigið fé er virkilega metið. Eru þetta lánveitingar? Telst lán sem fyrirtækið veitir til einhvers fyrirtækis í Lúxemborg eða annars staðar, til eigin fjár sem hefur svo farið í hring og endað sem hlutafélag í viðkomandi fyrirtæki? Það er allt saman tómt mál að tala um á meðan menn vita af veilunni og taka ekki á henni. Þess vegna er skrýtið að tala um lækkun úr 800% niður í 400% þegar það er af einhverjum grunni sem er hugsanlega ekki til. Í hruninu var þetta eigið fé sannarlega einskis virði.