Fjármálafyrirtæki

Miðvikudaginn 07. september 2011, kl. 23:26:53 (0)


139. löggjafarþing — 159. fundur,  7. sept. 2011.

fjármálafyrirtæki.

696. mál
[23:26]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi ætlaði ég ekki og mun ekki skamma hv. þm. Pétur H. Blöndal fyrir að ræða þessi mikilvægu mál. Það skiptir í rauninni engu máli hvað klukkan er, það er afskaplega mikilvægt að fara yfir þau. Af hverju er hv. þm. Pétur Blöndal að skamma mig fyrir það sem ég lagði áherslu á áðan? Við erum ekki á þessu nefndaráliti. Ég lagði áherslu á að þetta væri eitthvað sem við ættum eftir að fara yfir. Það sýnir veikleikann í þessu frumvarpi eins og þeim frumvörpum sem við höfum rætt. Ég ætlaði bara að taka undir með því sem hv. þingmaður talaði um og ég hef margoft talað um. Ég sagði að það væru margir mjög stórir þættir sem við ættum eftir að fara yfir.

Bankahrunið varð á Íslandi og í öðrum löndum í október 2008. Núna er, ef ég hef ekki rangt fyrir mér, september 2011 og við erum ekki enn þá búin að taka á þeim málum sem við erum öll sammála um að sé mjög mikilvægt að taka á. Þótt það sé alveg hárrétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að búið er að breyta mjög miklu höfum við kannski tekið á því sem skiptir minna máli og skilið eftir stóru málin. Það er það sem ég hef áhyggjur af. Ég er ekkert stóryrtur vegna þess að ég held og vona að við séum sammála, í það minnsta um markmiðin. Ég held að það skipti máli að við ræðum þetta málefnalega og ég er ekki að ásaka einn eða neinn. Ég hef bara bent á það frá því að við byrjuðum að fara í lögin um fjármálafyrirtæki að við þyrftum að taka á þessum stóru málum, m.a. því sem hv. þm. Pétur Blöndal vísar í, en líka annað (Forseti hringir.) sem þarf að laga.