Landsbókasafn -- Háskólabókasafn

Föstudaginn 16. september 2011, kl. 16:50:58 (0)


139. löggjafarþing — 165. fundur,  16. sept. 2011.

Landsbókasafn -- Háskólabókasafn.

760. mál
[16:50]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér fjöllum við um frumvarp til laga um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, heildarlöggjöf, og hér liggur fyrir framhaldsnefndarálit frá meiri hluta menntamálanefndar.

Nefndin hafði frumvarpið til athugunar eftir 2. umr. og fékk til sín gesti bæði frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu og starfsmenn Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns.

Nefndin ræddi að nýju stjórn Landsbókasafns – Háskólabókasafns. Sú gagnrýni kom fram hjá starfsmönnum þess að með þeirri breytingu á hlutverki stjórnar safnsins sem felst í frumvarpinu sé komið í veg fyrir atvinnulýðræði innan stofnunarinnar. Eins og fram kemur í nefndaráliti menntamálanefndar um málið á þskj. 1592 er hlutverk stjórnar safnsins í samræmi við almenna þróun á hlutverki stjórna í opinberum stofnunum hér á landi, þ.e. að forstöðumaður beri fulla ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Meiri hlutinn telur mikilvægt að horfa heildstætt á hlutverk stjórna hjá opinberum stofnunum og vill árétta að einn megintilgangur með setningu laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins var að auka sjálfstæði forstöðumanna ríkisstofnana. Nefndin ræddi einnig ítarlega hlutverk starfsmanna við stjórnun opinberra stofnana og er það niðurstaða nefndarinnar að tilefni sé til að meta heildstætt stöðu aðvinnulýðræðis í opinberri stjórnsýslu á Íslandi. Meiri hlutinn leggur því til að ríkisstjórnin skipi starfshóp er geri úttekt á aðild starfsmanna að stjórnun ríkisstofnana hér á landi borið saman við Norðurlöndin, meti þörf fyrir úrbætur og leggi eftir atvikum fram tillögur um breytingar á vægi og aðkomu starfsmanna að stjórnun, stefnumótun og ákvarðanatöku innan stofnana ríkisins.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

8. gr. orðist svo:

Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni er heimilt að innheimta gjöld fyrir þjónustu sína, svo sem útgáfu útlánsskírteina, millisafnalán, afritun, fjölföldun, gerð ljósmynda, sérfræðilega heimildaþjónustu og heimildaleit í gagnagrunnum.

Umrædd gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður safnsins vegna þjónustunnar og er ætlað að standa straum af eftirfarandi kostnaðarþáttum við hana:

a. launum starfsfólks sem sinnir þjónustunni,

b. sérstökum efniskostnaði vegna þjónustunnar.

Safninu er heimilt að innheimta dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest, svo og bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda.

Landsbókavörður setur gjaldskrá um alla gjaldtöku samkvæmt 1. mgr. og dagsektir og bætur samkvæmt 3. mgr. að fenginni umsögn stjórnar. Gjaldskrá skal birta notendum á aðgengilegan hátt. Samanlagðar dagsektir fyrir afnot safnefnis fram yfir skilafrest mega aldrei vera hærri en 4.000 kr. fyrir hvern lánþega. Bætur fyrir safnefni sem glatast eða skemmist í meðförum notenda skulu að hámarki nema innkaupsverði viðkomandi efnis.

Undir nefndarálitið skrifa Skúli Helgason, Þuríður Backman, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Margrét Tryggvadóttir, með fyrirvara, Unnur Brá Konráðsdóttir og Auður Lilja Erlingsdóttir.