Fjáraukalög 2010

Mánudaginn 29. nóvember 2010, kl. 15:41:24 (0)


139. löggjafarþing — 36. fundur,  29. nóv. 2010.

fjáraukalög 2010.

76. mál
[15:41]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Af því tilefni sem ég tek til máls hér má ráða að það frumvarp sem hér liggur fyrir til atkvæðagreiðslu er í rauninni þannig úr garði gert að illt er að eiga við það í þeirri mynd sem það birtist okkur. Hér er þingið að taka til afgreiðslu ráðstafanir sem ríkisstjórnin hefur þegar gripið til og eru löngu liðnar í tíma að megninu til, 11 mánuðir liðnir af árinu og stærstur hluti þeirra ráðstafana sem hér er lagt til að þingið staðfesti er óbreytanlegar aðgerðir af hálfu framkvæmdarvaldsins.

Við hljótum af þessu tilefni, í ljósi þeirra tíma sem við lifum núna, að knýja frekar á um það að ríkisstjórn Íslands sæki fyrir fram um heimildir til þingsins áður en ráðist er til aðgerða og framkvæmdarvaldið grípi sér heimildir sem það hefur ekki að lögum. Við sjálfstæðismenn vísum allri ábyrgðinni af þeim tillögum sem hér liggja fyrir (Forseti hringir.) á hendur ríkisstjórninni og munum sitja hjá við atkvæðagreiðsluna.